
Hljómsveit Eyþórs Þorlákssonar
Eyþór Þorláksson gítarleikari starfrækti nokkrar hljómsveitir í eigin nafni á fimmta, sjötta og sjöunda áratug liðinnar aldar, þær gengu undir ýmsum nöfnum s.s. Tríó Eyþórs Þorlákssonar (1953-62), Orion (1956-58) og Combó Eyþórs Þorlákssonar sem reyndar gekk einnig undir nafninu Hljómsveit Eyþórs Þorlákssonar um tíma (1959-66) en þær sveitir hafa allar sér umfjöllun á Glatkistunni. Eyþór starfrækti hins vegar Hljómsveit Eyþórs Þorlákssonar í fáeina mánuði veturinn 1948 til 49 en hún lék í Mjólkurstöðinni.
Meðlimir sveitarinnar sem var stofnuð í október 1948, voru Eyþór sjálfur á gítar, Hallur Símonarson bassaleikari, Bragi Einarsson klarinettuleikari, Guðmundur Steingrímsson trommuleikari og Magnús Pétursson píanóleikari, Jóhanna Daníelsdóttir söng með sveitinni. Á þeim skamma tíma sem sveitin starfaði urðu reyndar töluverðar breytingar á henni. Svavar Gestsson víbrafón- og xylófónleikari bættist í hópinn undir lok ársins og um mánaðamótin febrúar – mars hætti sjálfur hljómsveitarstjórinn Eyþór og Guðmundur trommuleikari einnig, sveitin starfaði þó um skamma hríð áfram – Svavar færði sig yfir á trommur og Ólafur Pétursson tenór saxófónleikari og Guðmundur Vilbergsson trompetleikari bættust í hópinn og þannig skipuð starfaði sveitin fram á vorið þegar hún hætti störfum en hún hafði upphaflega aðeins verið ráðin fram að þeim tíma.
Þremur árum síðar starfrækti Eyþór aðra sveit, annars vegar sem lék á tónleikum Ronnie Scott um sumarið 1952 og svo um haustið þegar sveitin lék á stórum tónleikum ásamt fleirum í Austurbæjarbíói. Sú sveit starfaði einungis í fáeinar vikur en ekki liggur fyrir hverjir skipuðu þá hljómsveit Eyþórs.














































