Hljómsveit Finns Eydal (1960-92)

Hljómsveit Finns Eydal 1960

Hljómsveit Finns Eydal var í raun nokkrar hljómsveitir sem störfuðu á löngu tímabili, yfirleitt gengu þær undir nafninu Hljómsveit Finns Eydal og stundum Tríó Finns Eydal og Kvintett Finns Eydal en einnig starfrækti Finnur hljómsveit sem bar nafnið Atlantic kvartettinn en um hana er fjallað sérstaklega á síðunni.

Hljómsveitin var stofnuð í Reykjavík haustið 1960 en þá hafði Finnur Eydal starfrækt Atlantic kvartettinn um tíma á Akureyri í samstarfi við Ingimar Eydal bróður sinn. Hér var þó að nokkru leyti um sömu hljómsveit að ræða en hana skipuðu auk Finns sem lék á klarinettu, saxófóna og bassa, Helena Eyjólfsdóttir (eiginkona Finns) söngkona, Garðar Karlsson gítar- og bassaleikari, Sigurður Guðmundsson píanóleikari, Gunnar Reynir Sveinsson víbrafónleikari og Alfreð Alfreðsson trommuleikari. Þannig skipuð lék sveitin sem húshljómsveit í Silfurtunglinu (síðar Austurbæ) um tíma en einnig á öðrum uppákomum s.s. á tónleikum FÍH Í Austurbæjarbíói en það átti hún eftir að gera í nokkur skipti næstu árin. Í lok árs var sveitin svo komin í Storkklúbbinn (síðar Glaumbæ) og þar lék hún fram á vorið 1961 en um það leyti lék sveitin heilmikið á Keflavíkurflugvelli auk þess sem þau spiluðu á töluvert á skólaböllum, Carl Möller píanóleikari hafði þá gengið til liðs við sveitina fljótlega eftir áramótin 1960-61.

Snemma sumars 1961 fóru þau Finnur og Helena norður til Akureyrar til að starfrækja Atlantic kvartettinn, sú sveit var þá líklega að mestu sú sama og hljómsveit Finns en Ingimar píanóleikari var þó í Akureyrar-útgáfunni. Tvær plötur með Hljómsveit Finns Eydal komu út þetta ár (líklega um haustið 1961), annars vegar tveggja laga plata með lögunum Bjartar stjörnur blika / Ég man það vel, og önnur sem hafði að geyma fjögur lög úr söngleiknum Allra meina bót eftir bræðurna Jónas og Jón Múla Árnasyni en sveitin var líklega ekki starfandi þegar þær plötur litu dagsins ljós enda höfðu Finnur og Helena þá gengið til liðs við Hljómsveit Svavars Gests þegar þau komu aftur suður eftir sumarið.

Hljómsveitin árið 1962

Hljómsveit Finns Eydal birtist aftur eftir nokkurt hlé haustið 1962 og var þá ráðin sem húshljómsveit í Þjóðleikhúskjallaranum, reyndar var þessi útgáfa sveitarinnar oft kölluð Tríó Finns Eydal því hana skipuðu þeir Finnur, Edwin Kaaber gítarleikari og Gunnar Reynir Sveinsson víbrafónleikari auk Helenu sem söng. Snemma árs 1963 urðu reyndar þær breytingar á skipan sveitarinnar að Hjördís Geirsdóttir leysti Helenu af hólmi sem fór þá í barneignafrí, Hjördís staldraði reyndar ekki lengi við og fleiri söngkonur munu hafa komið við sögu sveitarinnar áður en Harald G. Haralds gerðist söngvari hennar – og fleiri breytingar urðu á sveitinni því Hilmar Arnar Hilmarsson gítarleikari tók við af Edwin Kaaber um vorið en Gunnar Guðjónsson leysti svo Hilmar af hólmi um haustið, sveitin lék í Leikhúskjallaranum allt fram að áramótum 1963-64 en hætti þá störfum.

Hljómsveit Finns Eydal birtist aftur í febrúar 1964 og þá var Helena aftur komin inn í sveitina, sem lék á Hótel Borg fram á vorið en ekki liggja fyrir upplýsingar um hverjir skipuðu hana þá með þeim hjónakornum. Um sumarið lék sveitin hins vegar í Glaumbæ og virðist sem um nýja sveit hafi þá verið að ræða en hún var skipuð auk Finni og Helenu þeim Jóni Páli Bjarnasyni gítarleikara og Pétri Östlund trommuleikara. Þessi útgáfa sveitarinnar lék í Glaumbæ fram að mánaðamótum febrúar – mars 1965 en hætti þá, en um það leyti var Pétur trommuleikari einmitt að ganga til liðs við Hljóma.

Hljómsveit Finns 1977

Þar með var sögu Hljómsveitar Finns Eydal lokið í bili því að í hönd fór tímabil þar sem þau Finnur og Helena fluttust norður yfir heiðar og störfuðu með Hljómsveit Ingimars Eydal en sú sveit lék við miklar vinsældir í Sjallanum á Akureyri næstu árin með nánast goðsagnakenndum blæ en sveitin sendi jafnframt frá sér fjölda platna og vinsælla laga með Helenu, Þorvald Halldórsson og Bjarka Tryggvason sem söngvara.

Þegar Ingimar Eydal lenti í alvarlegu bílslysi vorið 1976 starfaði sveit hans í nokkra mánuði áfram án hans en haustið 1977 var komið að því að Finnur endurstofnaði hljómsveit sína og gerði nú út frá Akureyri en fyrri sveitir hans höfðu starfað í Reykjavík. Þessi nýja Hljómsveit Finns Eydal var ráðin húshljómsveit í Sjallanum í stað hljómsveitar Ingimars og átti eftir að starfa þar um tíma, sveitin var sem fyrr skipuð þeim hjónum Finni sem lék á klarinettu, saxófóna og bassa og Helenu sem söng en auk þeirra voru í sveitinni Eiríkur Höskuldsson bassa- og gítarleikari, Árni Ketill Friðriksson trommuleikari og Gunnar Gunnarsson hljómborðsleikari (þá aðeins 16 ára gamall) en auk þess söng Óli Ólafsson með sveitinni einnig – í raun hét sveitin fullu nafni þarna Hljómsveit Finns Eydal, Helena og Óli. Fljótlega kom Jón Sigurðsson trommuleikari inn í sveitina í stað Árna.

Næstu tvö árin var aðal vettvangur sveitarinnar Sjallinn á Akureyri sem var auðvitað eins konar heimavöllur þeirra hjóna en sveitin kom þó eitthvað suður til Reykjavíkur á sumrin og lék þá einnig á sveitaböllum s.s. í Stapa, Hvoli og Aratungu. Sveitin var á þeim tíma skipuð sama mannskapnum en Ingimar Eydal kom stöku sinnum fram með þeim sem gestur enda hafði hann þá jafnað sig eftir slysið.

Hljómsveit Finns 1979

Sveitin lék áfram í Sjallanum en árið 1980 hóf hún einnig að leika á almennum dansleikjum fyrir norðan og gerði þá út á árshátíðir, þorrablót og slíkt og kom reyndar einnig suður til að leika. Sumarið 1980 sendi hljómsveitin svo frá sér fimmtán laga breiðskífu sem bar titilinn Kátir dagar en hún hafði að geyma þekkt lög úr ýmsum áttum og frá ýmsum tímum með íslenska texta. Platan var hljóðrituð í Stúdíó Bimbó á Akureyri og gefin út af Mifa tónböndum sem einnig starfaði nyrðra svo segja má að framleiðsla þeirrar plötu hafi að langmestu leyti verið norðlensk – platan var þó ekki pressuð fyrir norðan. Kátir dagar vöktu ekki mikla athygli en hlaut þokkalega dóma í Morgunblaðinu.

Hljómsveit Finns fór síðsumars í pásu en um svipað leyti hafði Gunnar hljómborðsleikari sagt skilið við sveitina. Hún birtist þó aftur eftir nokkurt hlé eftir áramótin 1980-81 og þá hafði hún tekið nokkrum breytingum, auk Finns og Helenu skipuðu sveitina nú Alfreð Almarsson söngvari og gítarleikari, Jóhannes Ásbjörnsson hljómborðs- og harmonikkuleikari og Þorleifur Jóhannsson trommuleikari. Sveitin var nú eingöngu í lausamennsku, þ.e. ekki bundin Sjallanum og lék því mestmegnis á almennum dansleikum auk einkasamkvæmum s.s. árshátíðum og slíku. Þau voru mest á ferðinni á norðan- og austanverðu landinu en komu þó stöku sinnum suður til Reykjavíkur og léku þá í Glæsibæ, um sumarið lék sveitin hins vegar í Sjallanum en fór svo aftur út á landið og miðin þegar haustaði.

Næstu árin voru með svipuðum hætti hjá Hljómsveit Finns Eydal, sveitin lék mest á norðanverðu landinu og sinnti þá verkefnum sem sneru að árshátíðum, þorrablótum og slíku auk almennra dansleikja en kom svo suður á sumrin og nokkur sumur í röð lék sveitin á Hótel Sögu þar sem hún leysti Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar af hólmi þegar hann fór ásamt Sumargleðinni sumartúra um landið, einnig lék sveitin eitthvað á Broadway, Ártúni og Glæsibæ í suðurferðum sínum og lék reyndar einnig stöku sinnum á stöðum eins og Sjallanum og Hótel KEA á Akureyri. Einhverjar mannabreytingar voru á sveitinni á þessum árum en upplýsingar um þær eru þó takmarkaðar, þannig virðist t.a.m. Hermann Arason gítarleikari hafa verið í sveitinni um skeið sem og Sævar Benediktsson bassaleikari en frekari upplýsingar um hvenær liggja ekki fyrir – þá er Sigurður Þ. Þórarinsson hljómborðsleikari einhvern tímann sagður hafa leikið með hljómsveit Finns en hvenær það var er ekki ljóst.

Hljómsveit Finns Eydal

Árið 1986 var hljómsveitin skipuð þeim Finni, Helenu, Alfreð, Jóni Sigurðssyni trommuleikara og Jóni Hafsteinssyni gítarleikari en sveitin var á þeim árum farin að leika meira sunnanlands en áður, skýringin er að hluta til sú að um það leyti hafði Finnur veikst af krabbameini og þurfti því að vera nokkuð fyrir sunnan en á næstu árum áttu þau veikindi eftir að ágerast og starfaði sveitin því ekki samfleytt, hann átti þá í nýrnaveikindum og þurfti því að fara í nýrnavél – síðar var keypt slík vél fyrir hann en kaupin voru fjármögnuð með nokkrum styrktartónleikum þar sem sveitin lék m.a. Einhverjar frekari mannabreytingar urðu á sveitinni, árið 1989 voru í henni þau Finnur, Helena, Alfreð, Árni Ketill Friðriksson trommuleikari og Siggi [?] sem ekki liggur fyrir hver er, og líklegt er að einhverjar frekari breytingar hafi orðið á skipan hennar. Ingimar bróðir Finns hafði látist eftir krabbamein í nýrum árið 1993 og sama ár hætti sveit Finns störfum enda var hann þá sjálfur orðinn veikur og lést haustið 1996.

Sum laga þeirra sem Hljómsveit Finns Eydal sendi frá sér á plötum hafa komið út á safnplötum í gegnum tíðina, hér má nefna Svona var 1961 (2005), Aftur til fortíðar-serían, Stóra bílakassettan-serían (1980-81), og Rokklokkar (1995).

Efni á plötum