Hljómsveit Gísla Bryngeirssonar starfaði í Vestmannaeyjum um tveggja ára skeið eftir miðbik sjötta áratugarins.
Forsagan að stofnun sveitarinnar var sú að Gísla hafði verið sagt upp í húshljómsveit sem starfaði í Samkomuhúsinu í Eyjum snemma árs 1955, mörgum þótti það hart en Gísli var fatlaður og hafði fyrir stórri fjölskyldu að sjá. Hann lagði þó ekki árar í bát heldur stofnaði eigin hljómsveit og fékk til liðs við sig þá Viðar Alfreðsson trompetleikara, Gísla Brynjólfsson gítarleikara, Hauk Gíslason bassaleikara og Sigurð Guðmundsson trommuleikara en sjálfur lék Gísli á klarinettu – Erling Ágústsson söng að öllum líkindum með hljómsveitinni. Það var svo fyrir aðkomu góðra manna í Vestmannaeyjum að hljómsveitin var ráðin til starfa í Alþýðuhúsinu um vorið 1955 og þar lék hún næstu mánuðina að minnsta kosti, og um haustið lék hún á Hóteli H.B. en á þessum árum var afar öflugt tónlistarlíf í Eyjum og djassinn var þar t.a.m. í hávegum hafður, ekki liggur fyrir hvar sveitin lék fyrir dansi eftir það.
Sveitin starfaði líklega fram á sumarið 1957 en um haustið hafði Gísli gengið til liðs við hljómsveit Guðjóns Pálssonar. Gísli var svo einnig með skammlífa sveit sem lék fyrir gömlu dönsunum á þjóðhátíð Eyjamanna sumarið 1960, sú sveit gekk undir nafninu Gísli Bryngeirsson og félagar.














































