
Hljómsveit / Tríó Örvars Kristjánssonar 1969
Harmonikkuleikarinn Örvar Kristjánsson starfrækti hljómsveitir um árabil í eigin nafni og mætti skipta þeim í tvennt, annars vegar þær sem hann var með norður á Akureyri – hins vegar þær sem störfuðu fyrir sunnan.
Fyrsta hljómsveit Örvars starfaði einmitt á Akureyri og mun hafa tekið til starfa haustið 1969 sem tríó, sveitin lék eitthvað til að byrja með í kjallara Sjallans og í Alþýðuhúsinu á Akureyri en sumarið eftir (1970) lék hún víðs vegar um Norðurland s.s. í Skjólbrekku í Mývatnssveit. Engar upplýsingar finnast um skipan sveitarinnar að öðru leyti en að Örvar lék á harmonikku og Saga Jónsdóttir (síðar leikkona) söng með henni. Þessi hljómsveit starfaði líklega til haustsins 1972 og lék víða, ekki liggur heldur fyrir hvort einhverjar mannabreytingar voru á henni.
Næst virðist sem Örvar Kristjánsson hafi starfrækt hljómsveit árið 1977 og það var einnig á Akureyri. Sú sveit lék víða um sumarið og fór m.a.s. austur á Norðfjörð til að spila í Egilsbúð, og í ársbyrjun 1978 kom sveitin suður til Reykjavíkur og lék þá þrívegis í Sigtúni – meðlimir sveitarinnar voru þeir Ari Baldursson gítarleikari, Árni Guðnason bassaleikari, Júlíus Fossberg trommuleikari og Örvar sjálfur á harmonikku en einnig kom fram með sveitinni í Sigtúni 19 ára gamall sonur Örvars, Grétar Örvarsson sem lék á hljómborð en hann var þá búsettur á Höfn í Hornafirði.

Hljómsveit Örvars 1982
Hljómsveit Örvars lék við ýmis konar tækifæri s.s. á árshátíðum, þorrablótum, hestamannadansleikum og almennum sveitaböllum og naut nokkurra vinsælda enda var Örvar á þeim tíma orðinn nokkuð þekktur og hafði á þeim tíma gefið út tvær sólóplötur með harmonikkutónlist. Þessi sveit virðist hafa starfað eitthvað inn í árið 1978.
Þegar Örvar kom fram á sjónarsviðið með þriðju hljómsveit sína árið 1982 var hann kominn suður til Reykjavíkur, þá hafði hann gefið út sína þriðju sólóplötu og söng á henni auk þess að leika á nikkuna, líklegt er því að Örvar hafi einnig sungið á dansleikjum með sveit sinni og e.t.v. hafði hann gert það alla tíð. Sveitina skipuðu auk Örvars þeir Halldór Hauksson trommuleikari, Ævar Ragnsson bassaleikari og Björgvin Gíslason gítarleikari sem þá var ekki beinlínis þekktur fyrir að leika harmonikkutónlist, þeir félagar virðast einkum hafa leikið á höfuðborgarsvæðinu, m.a. á Útsýnarkvöldum sem haldin voru á skemmtistaðnum Broadway. Þessi sveit starfaði einungis í fáeina mánuði.
Á árunum 1984 til 88 var Örvar búsettur í Færeyjum en virðist þó hafa verið með hljómsveit um skamma hríð haustið 1987 á Hótel Sögu, haustið 1988 hóf ný hljómsveit hans hins vegar að leika á Hótel Íslandi en þar fóru fram skemmtikvöld sem Svavar Gests hélt utan um í anda útvarpsþátta sem hann hafði haft umsjón með á árum áður. Í þessari hljómsveit voru þeir Örvar, Gunnar Kvaran hljómborðsleikari, Sveinn Óli Jónsson trommuleikari og Ómar Hlynsson bassaleikari. Auk þess að leika á Hótel Íslandi lék sveitin einnig á almennum dansleikjum fram á árið 1990.

Hljómsveit Örvars Kristjánssonar 1993
Sumarið 1992 birtist svo enn hljómsveit í nafni Örvars en sú sveit lék líklega mikið til á dansstöðum höfuðborgarsvæðisins s.s. í Ártúni og Glæsibæ, Með Örvari var Trausti Jónsson líklega fyrst um sinn trommuleikari sveitarinnar og söngvari en ekki liggur fyrir hverjir aðrir skipuðu sveitina með honum, Mattý Jóhannsdóttir söng einnig en fljótlega urðu þær breytingar á skipan sveitarinnar að Már Elíson trommuleikari og söngvari tók við af Trausta, og Anna Jóna Snorradóttir leysti Mattý af hólmi. Þessi sveit starfaði líklega nær eingöngu í Reykjavík til vorsins 1993 en fór þá í einhvern landsbyggðartúr um sumarið, léku t.a.m. í Valaskjálf á Egilsstöðum en starfaði eitthvað stopult eftir það sumar, léku lítillega á þorrablótum snemma árs 1994 en virðist svo hafa hætt störfum. Þá virðist sveit Örvars hafa verið sett saman sumarið 1998 til að leika á Neistaflugi í Neskaupstað um verslunarmannahelgina og þar við sat, líklega var það síðasta hljómsveit Örvars.














































