Hljómsveit Óskars Cortes (1935-65)

Óskar Cortes og félagar á Siglufirði 1935

Tónlistarmaðurinn Óskar Cortes starfrækti nokkrar vinsælar hljómsveitir á sínum tíma, flestar þeirra voru danshljómsveitir en hann var jafnframt einnig með strengjasveit í eigin nafni.

Fyrstu sveitir Óskars störfuðu á Siglufirði en þangað fór hann fyrst sumarið 1935 ásamt Hafliða Jónssyni píanóleikara en sjálfur lék Óskar á fiðlu, síðar það sama sumar bættist Siglfirðingurinn Steindór Jónsson trommuleikari í hópinn. Ekki er víst að þessi sveit hafi borið nokkurt nafn en hún var þó undir stjórn Óskars. Næstu sumur fór Óskar aftur norður, með honum 1936 og 37 voru Hafliði, Þórhallur Stefánsson trommuleikari og Gísli Einarsson harmonikku- og saxófónleikari en einnig söng Alfreð Andrésson (síðar revíuleikari) með þeim félögum. Þessi sveit var að miklu leyti skipuð sama mannskap að hafði leikið fyrir dansi í K.R. húsinu svokallaða við Tjörnina (Bárubúð sem gekk undir því nafni eftir að KR keypti húsið) – þá var Óskar líklega farinn að leika á saxófón og klarinettu. Sumarið 1939 var Óskar enn og aftur fyrir norðan og með honum voru þá Baldur Kristjánsson píanóleikari, Stefán Þorleifsson harmonikku- og saxófónleikari og Þórhallur Stefánsson trommuleikari – sú sveit gekk líklega undir nafninu Hots.

Það var ekki fyrr en árið 1942 sem Óskar stofnaði hina eiginlegu fyrstu Hljómsveit Óskars Cortes en sú sveit var ráðin til að leika í Iðnó og Ingólfscafe (sem höfðu sama rekstraraðila) en þar lék hún um tveggja ára skeið. Meðlimir þeirrar sveitar voru auk Óskars þeir Gísli Einarsson Höskuldur Þórhallsson trompetleikari, Bjarni Guðjónsson trommuleikari og Tage Möller píanóleikari. Líklega voru Jónatan Ólafsson píanóleikari og Baldur Böðvarsson harmonikkuleikari um tíma einnig meðlimir sveitarinnar.

Óskar skipti um áhöfn árið 1944 þegar sveitin flutti sig yfir á Röðul sem þá var að opna, Höskuldur var með honum áfram en aðrir meðlimir voru Adolf Theódórsson harmonikku- og saxófónleikari og Henni Rasmus píanóleikari. Sveitin lék flest kvöld vikunnar rétt eins og hún hafði gert í Ingólfscafe en hún hélt sig mestmegnis við gömlu dansana. Veturinn 1945-46 færði Óskar sig yfir á Hótel Þröstinn í Hafnarfirði en þar var eingöngu leikin klassík og léku með honum þar Skafti Sigþórsson 2. fiðluleikari, Þórhallur Stefánsson sellóleikari, Bjarni Böðvarsson kontrabassaleikari og Hafliði Jónsson píanóleikari en sjálfur lék Óskar 1. fiðlu. Hugsanlega lék þessi sveit einnig danstónlist og voru þá með sjötta meðliminn með sér. Vitað er að þeir Ágúst Guðmundsson harmonikkuleikari, Guðjón Matthíasson harmonikkuleikari og Rúrik Haraldsson trompetleikari (síðar leikari) léku með sveit Óskars um tíma um þetta leyti en ekki liggja þó fyrir frekari upplýsingar um það.

Að lokinni heimsstyrjöldinni flutti Óskar til Svíþjóðar og starfaði þar um tíma en kom aftur og árið 1950 stofnaði hann enn nýja sveit sem lék í Gúttó við Tjörnina og Iðnó og Ingólfscafe einnig. Eitthvað er óljóst hverjir skipuðu sveit Óskars að þessu sinni en hún mun hafa verið sex manna, fyrir liggur að Adolf Theódórsson saxófónleikari var í henni í upphafi og leysti Stefán Þorleifsson hann síðan af hólmi, Adolf tók svo aftur við af Stefáni um sumarið 1951. Ekki er ólíklegt að Magnús Randrup hafi verið í sveitinni um það leyti. Þarna um haustið voru meðlimir sveitarinnar auk þeirra tveggja þeir Tage Möller píanóleikari og Þórhallur Stefánsson trommuleikari þegar sveitin lék í Ingólfscafe en á laugardögum færði hún sig yfir í Iðnó og þá færði Þórhallur sig yfir á bassa og Karl Karlsson lék á trommur. Alfreð Clausen söng þá með sveitinni en áður höfðu bæði Haukur Morthens og Sigrún Jónsdóttir sungið með henni.

Hljómsveit Óskars virðist hafa starfað eitthvað stopult næstu misserin, sveitin hvarf af sjónarsviðinu snemma árs 1952 og birtist ekki aftur fyrr en vorið 1953, lék þá m.a. í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll en Alfreð Clausen og Jón Már Þorvaldsson sungu þá með sveitinni – engar upplýsingar er að finna um aðra meðlimi hennar um það leyti. Það sama má segja um árin 1954 til 56, þá virðist hún starfa með hléum en birtist til að leika í Þórscafe en mest þó í Ingólfscafe – hún var mun meira áberandi 1957 og 58 og lék þá einkum í Ingólfscafe en virðist svo hætta störfum þá um haustið. Söngvarar eins og Haukur Morthens, Didda Jóns, Ragnar Halldórsson og Sigurður Ólafsson höfðu þá sungið með sveitinni en litlar upplýsingar er sem fyrr að finna um aðra meðlimi hennar, Skafti Sigþórsson fiðluleikari og Hafsteinn Snæland voru þó í sveitinni á einhverjum tímapunktum um það leyti.

Hljómsveit í nafni Óskars Cortes birtist aftur eftir nokkurra ára hlé árið 1962 þegar hún hóf að leika gömlu dansana í Ingólfscafe, þar sem hún lék allt fram í febrúar 1965 en þá lést Óskar aðeins 47 ára gamall. Vitað er að Garðar Olgeirsson harmonikkuleikari, Guðmar Marelsson trommuleikari, Jón Sigurðsson (bankamaður) harmonikkuleikari, Ásgeir Sverrisson harmonikkuleikari og hugsanlega einnig Haukur Þorvaldsson harmonikkuleikari léku með sveitinni á þessu tímaskeiði en meðal söngvara má nefna Rúnar Guðjónsson og Grétar Guðmundsson.

Þrátt fyrir að Óskar starfrækti fjölda hljómsveita á æviferli sínum léku þær aldrei inn á plötur