Hljómsveit Pálma Gunnarssonar [1] (1973-76)

Hljómsveit Pálma Gunnarssonar

Saga Hljómsveitar Pálma Gunnarssonar er um leið forsaga hljómsveitarinnar Mannakorna en fyrsta plata hennar kom út í nafni hljómsveitar Pálma, það var ekki fyrr en síðan að hún hlaut nafnið Mannakorn.

Þessi forsaga Mannakorna er þó raunar enn lengri því að um nokkurra ára skeið hafði starfað hljómsveit undir nafninu Lísa (og reyndar stundum Lísa í Undralandi) en sú sveit hafði verið töluvert atkvæðamikil í tónlistarlífi höfuðborgarsvæðisins. Pálmi Gunnarsson gekk til liðs við þá sveit í febrúar 1973 og tók þá við bassaleikarahlutverkinu af Jóni Kristni Cortes, Pálmi hafði þá verið mjög áberandi í hlutverki Júdasar í söngleiknum Súperstar og var orðinn töluvert þekktur, og það þótti því við hæfi að endurnefna sveitina og hét hún þar eftir Hljómsveit Pálma Gunnarssonar – hugmyndin hafði hvort eð er verið sú að hætta að starfa undir Lísu-nafninu. Lísa var þó starfrækt eitthvað áfram samhliða nýju sveitinni og var því um tvær sveitir að ræða sem störfuðu samhliða líklega með sömu meðlimaskipan þó nokkurn tíma.

Hljómsveit Pálma Gunnarssonar var frá upphafi skipuð þeim Pálma sem lék á bassa og söng, Magnúsi Eiríkssyni gítarleikara sem þá hafði starfað með Pónik, Birni Björnssyni trommuleikara og Baldri Arngrímssyni gítarleikara. Þeir félagar voru ekki áberandi til að byrja með en frá og með 1975 spilaði sveitin töluvert, m.a. í Klúbbnum, Tjarnarbúð og Röðli, þá um sumarið færðu þeir félagar sig einnig út á sveitaballamarkaðinn og léku þá t.d. í Festi í Grindavík og svo á útihátíð á Laugum í Reykjadal um verslunarmannahelgina. Þeir léku framan af ábreiðuefni af ýmsu tagi en voru einnig með lög eftir Magnús gítarleikara á takteinum og um haustið fór sveitin í Hljóðrita í Hafnarfirði sem þá var nýtekinn til starfa og tók þar upp tólf lög, flest eftir Magnús. Fjórmenningarnir kölluðu til sín aukamannskap í Úlfari Sigmarssyni hljómborðsleikara og Þorleifi Gíslasyni saxófónleikara, auk þess sem strengjasveit og lítil brasssveit komu við sögu í upptökunum. Þeim félögum þótti ekki verra að einn eigenda Hljóðrita, söngvarinn Vilhjálmur Vilhjálmsson var þarna nærstaddur og fengu þeir hann til að syngja þrjú lög (auk tvísöngs með Magnúsi í lagi sem hafði hlotið nafnið Hudson bay) en Villi hafði þá ekki sungið inn á plötu í þrjú ár. Sjálfur söng Magnús tvö laganna, Baldur eitt en Pálmi hin sex.

Hljómsveitin leitaði til Fálkans með útgáfu í huga og Fálkamenn sáu strax að hér var efni sem líklegt var til vinsælda enda voru Pálmi og Vilhjálmur orðnir vel þekkt nöfn í tónlistarbransanum. Ákveðið var þó að bíða með útgáfu hennar fram á nýtt ár svo hún myndi ekki kafna í plötuflóðinu um jólin 1975 – platan hafði þá hlotið titilinn Mannakorn.

Frá áramótum var sveitin svo komin aftur á fullt skrið eftir nokkurra mánaða rólegheit í kringum upptökurnar. Áður hafði komið upp sú hugmynd að gera sjónvarpsþátt með hljómsveitinni þar sem hún myndi leika tónlist úr ýmsum áttum, þegar sveitin hafði æft upp lagaprógramm fyrir þáttinn og bætt við einu lagi eftir Magnús (Hudson bay) hlustaði Egill Eðvarðsson upptökustjóri á afraksturinn og stakk upp á í kjölfarið að sveitin myndi eingöngu leika lög Magnúsar sem síðan var gert en þátturinn var sýndur í febrúar 1976 undir nafninu Með pálmann í höndunum enda var þátturinn í nafni Hljómsveitar Pálma Gunnarssonar þótt vissulega hefði Magnús samið tónlistina sem flutt var þar – Þorleifur saxófónleikari kom fram með sveitinni í þættinum.

Sveitin ásamt Vilhjálmi þegar platan kom út

Platan kom loks út skömmu eftir að sjónvarpsþátturinn var sýndur og sló strax í gegn, hún bar sem fyrr segir nafnið Mannakorn en engar upplýsingar var hins vegar að finna á plötuumslaginu um heiti hljómsveitarinnar þótt flestir vissu það sjálfsagt. Sveitin nýtti sér þessa athygli og vinsældir og lék töluvert um vorið og sumarið á dansleikjum undir nafni Hljómsveitar Pálma Gunnarssonar og eðlilega var lagavalið litað af efni plötunnar en mörg þeirra urðu feikivinsæl og hafa reyndar fyrir löngu orðið sígild, hér má nefna slagara eins og Einbúinn, Kontóristinn, Lilla Jóns (sem var eina lag plötunnar sem ekki var eftir Magnús), Ó þú, Róninn, Komdu í partí, Blús í G, Sjómannavísa, Hudson bay og Í tíma og rúmi – m.ö.o. urðu flest lög plötunnar sígildar perlur sem er svo gott sem einsdæmi. Vinsældir plötunnar urðu svo reyndar einnig til að endurvekja frægð Vilhjálms Vilhjálmssonar en tónlistarferill hans fór aftur af stað eftir nokkurra ára pásu og sendi hann frá sér plötur í kjölfarið. Mannakorn hlaut prýðilega dóma í dagblöðum þess tíma og reyndar vakti hönnun umslags plötunnar töluverða athygli einnig en það hannaði Kristján Frímann en hann átti eftir að starfa með þeim félögum síðar meir.

Hljómsveit Pálma starfaði í einhverja mánuði meðan hún mjólkaði markaðinn en lagðist svo í híði, þegar sveitin kom svo aftur fram á sjónarsviðið með nýja plötu ári síðar (1977) hafði hún hlotið nýtt nafn – Mannakorn, og hefur gengið undir því nafni síðan þá.

Efni á plötum