
Hljómsveit Pálma Stefánssonar 1963
Hljómsveit Pálma Stefánssonar á Akureyri var í raun nokkrar hljómsveitir sem störfuðu í mislangan tíma, með mislöngum hléum og yfir langt tímabil, sveitir Pálma nutu töluverðra vinsælda norðan heiða þar sem þær störfuðu en þó var sveit hans Póló mun þekktari, hún er hins vegar ekki til umræðu hér.
Hljómsveit Pálma Stefánssonar hin fyrsta starfaði á árunum 1962 til 64. Sú sveit lék mestmegnis í Eyjafirði og nágrannasveitarfélögunum og má hér nefna félagsheimili eins og Laugaborg, Freyvang og Mela í Hörgárdal – þessi sveit mun hafa leikið á áttatíu og átta dansleikjum á einu ári. Þessi sveit Pálma mun hafa verið svokölluð Shadows-gítarsveit framan af, þ.e. með uppstillinguna tveir gítarar, bassi og tromma í anda The Shadows og voru meðlimir hennar þeir Rafn Sveinsson trommuleikari, Gunnar Hólm Tryggvason gítarleikari, Sveinbjörn Vigfússon gítarleikari og svo hljómsveitarstjórinn Pálmi Stefánsson sem lék á bassa.
Árið 1964 stofnaði Pálmi hljómsveitina Póló en sú sveit átti eftir að njóta töluverðra vinsælda sem fyrr segir, hún starfaði allt til haustsins 1969 og hafði þá gefið út nokkrar smáskífur. Pálmi var þá ekkert á því að leggja árar í bát heldur stofnaði nýja sveit í eigin nafni árið 1970 og starfaði sú sveit nokkuð samfleytt næstu sextán árin, reyndar er varla hægt að tala um samfleytt starf því sveitin starfaði mestmegnis yfir vetrartímann og sinnti þá árshátíðamarkaðnum, þorrablótum og öðrum árstíðatengdum skemmtunum og dansleikjum en dró sig í hlé þegar stóru sveitirnar slógust um félagsheimilin á sumrin, oft hafði Pálmi skipt um mannskap þegar sveit hans hóf störf aftur síðsumars eftir sumarfrí.

Hljómsveit Pálma 1982
Upplýsingar um meðlimaskipan sveitar Pálma liggja sjaldnast fyrir, árið 1971 voru Þorsteinn Kjartansson saxófónleikari, Brynleifur Hallsson gítarleikari, Steingrímur Stefánsson trommuleikari (bróðir Pálma), Sævar Benediktsson bassaleikari og svo Pálmi sem líklega lék á hljómborð og harmonikku í þessari sveit, Brynleifur annaðist hugsanlega sönginn. Árið 1972 höfðu orðið þær breytingar á sveitinni að Grétar Ingvarsson hafði leyst Sævar af hólmi en Þorsteinn var þá líklega hættur. Á einhverjum tímapunkti hafði Birgir Marinósson verið í sveitinni þarna og líklega söng Erla Stefánsdóttir með henni einnig um skeið.
Engar upplýsingar er að finna um liðsskipan sveitarinnar á árunum 1972 til 1982 en sveitin lék á því tímaskeiði mikið á Akureyri, m.a. í Sjallanum og Alþýðuhúsinu en einnig í félagsheimilunum í sveitunum í kring. Eftir eina sumarpásuna haustið 1982 skipuðu hljómsveitina auk Pálma þeir Björgvin Baldursson gítarleikari og söngvari, Finnur Finnsson bassaleikari og Jón Berg trommuleikari. Ekki liggur fyrir hversu lengi sveitin var þannig skipuð en hún starfaði allt til vorsins 1986, þá voru meðlimir sveitarinnar líklega þeir Jón Berg trymbill, Björgvin gítarleikari, Albert Ragnarsson gítarleikari, Jón Kjartan Ingólfsson bassaleikari og svo Pálmi á hljómborð.

Hljómsveit Pálma Stefánssonar 1986
Nokkur ár liðu áður en sveit í nafni Pálma lét að sér kveða á nýjan leik, Pálmi hafði verið á fullu í útgáfumálum með Tónaútgáfuna og rak aukinheldur hljóðfæraverslunina Tónabúðina á Akureyri samhliða spilamennsku, og hafði þarna leikið með hljómsveitunum Fimm félögum og Bandamönnum um tíma en virðist hafa sett nýja sveit á laggirnar árið 1993, hún var skammlíf af heimildum að dæma en hann birtist svo með enn eina sveitina í sínu nafnið undir lok aldarinnar – árið 1999 en sú sveit lék eitthvað fyrir eldri borgara á Akureyri. Síðustu heimildir um Hljómsveit Pálma Stefánssonar er að finna frá árinu 2018 en sú var líkast til einhvers konar harmonikkusveit starfandi innan Félags harmonikuunnenda við Eyjafjörð. Engar upplýsingar er að finna um skipan meðlima eða hljóðfæra í þeirri sveit frekar en þeirra sem störfuðu 1993 og 1999. Nokkrir fyrrverandi meðlimir sveita Pálma komu við sögu á tveimur harmonikkuplötum sem hann sendi frá sér 2004 (Kvöldljóð) og 2013 (Gömlu lögin við gömlu dansana) en þær teljast þó ekki vera í nafni hljómsveita Pálma.














































