
Hljómsveit Sigurðar Óskarsson 1961
Hljómsveit Sigurðar Óskarssonar, einnig nefnd Hljómsveit S.Ó. og um tíma S.Ó. og Einar, starfaði í Vestmannaeyjum við töluverðar vinsældir um og eftir 1960. Sveitin var skipuð ungum tónlistarmönnum en tónlistarlífið í Eyjum var öflugt á þeim tíma sem endanær.
Sigurður Óskarsson stofnaði hljómsveit sína árið 1958 en hann var þá einungis fjórtán ára og hafði þá reyndar haft plön um nokkurt skeið að stofna slíka sveit. Það var þó ekki fyrr en haustið 1959 sem sveitin kom í fyrsta sinn fram opinberlega en það var á árshátíð Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja, og þess má geta að fjórar hljómsveitir komu fram það kvöld sem segir nokkuð um blómstrandi tónlistarlífið í Eyjum um þær mundir. Hljómsveit Sigurðar var þá skipuð þeim Friðrik Inga Óskarssyni söngvara, Þorgeiri Guðmundssyni gítarleikara, Þráni Alfreðssyni píanó- og bassaleikara og Ragnari Baldvinssyni gítarleikara auk hljómsveitarstjórans sjálfs Sigurði en hann var trommuleikari sveitarinnar. Hugsanlega var þetta upprunaleg skipan hljómsveitarinnar.
Nokkrar mannabreytingar urðu á sveitinni næstu árin, Jóhann Hjartarson harmonikkuleikari kom inn í hana fljótlega og árið 1960 var Þorsteinn Svavarsson í sveitinni en ekki liggur fyrir hverjir véku fyrir þeim tveimur. Það sama haust (1960) voru meðlimir hljómsveitarinnar þeir Sigurður trymbill, Þorgeir gítarleikari, Friðrik söngvari, Þráinn píanóleikari, Ragnar gítarleikari og Sævar Tryggvason. Þá um haustið gerðu þeir félagar samning við Alþýðuhúsið í Vestmannaeyjum um spilamennsku í húsinu um veturinn þrátt fyrir að vera vart komnir af barnsaldri, Alþýðuhúsið var svo aðalvígi sveitarinnar eftir það.

Hljómsveit Sigurðar Óskarssonar
Fleiri söngvarar komu við sögu sveitarinnar næstu árin, Heiða Angantýsdóttir söng með sveitinni árið 1961 og ári síðar hafði Atli Ágústsson tekið við því hlutverki, það var svo árið 1963 sem Einar Sigfinnsson (Einar Klink) gerðist söngvari hljómsveitarinnar og var það næstu tvö eða þrjú árin, sveitin var þá eins skipuð að öðru leyti og hún hafði verið nokkur ár. Sveitin lék sem fyrr mest í Alþýðuhúsinu í Eyjum en fór stöku sinnum upp á land og spilaði á sveitaböllum í félagheimilum meginlandsins, m.a. í Gunnarshólma í A-Landeyjum. Sveitin var einnig um það leyti undir nafninu S.Ó. og Einar.
Sveitin starfaði til haustsins 1965 að minnsta kosti en þá höfðu enn orðið einhverjar breytingar á skipan sveitarinnar, Einar Klink var farinn á braut en Guðni Guðmundsson hafði líklega tekið stöðu hans sem söngvari, aðrir meðlimir Hljómsveitar S.Ó. voru þá Þráinn, Þorgeir og Sigurður sjálfur. Þannig virðist sveitin hafa hætt störfum síðla árs 1965.














































