
Hljómsveit Stefáns Þorleifssonar 1950
Tónlistarmaðurinn Stefán Þorleifsson starfrækti hljómsveitir um árabil um og eftir miðja síðustu öld en sú sem lengst starfaði lék nokkuð samfleytt á árinum 1949 til 1960. Sveit Stefáns var allþekkt en lék aldrei inn á hljómplötur meðan hún starfaði.
Stefán hafði árið 1947 starfrækt hljómsveit sem gekk undir nafninu Swingtríó Stefáns Þorleifssonar og er fjallað um annars staðar á Glatkistunni, hin eiginlega hljómsveit Stefáns var hins vegar stofnuð vorið 1949 og hana skipuðu í upphafi þeir Stefán sjálfur sem lék á harmonikku og tenór saxófón, Magnús Pétursson píanóleikari, Eyþór Þorláksson gítarleikari, Helgi Gunnarsson trompetleikari og Guðmundur Steingrímsson trommuleikari en þessi sveit lék í Tjarnarcafe um sumarið, líklega sá Stefán sjálfur um sönginn framan af að einhverju leyti. Fyrstu mannabreytingar urðu líklega um haustið þegar Magnús píanóleikari hætti og Guðjón Pálssonar tók sæti hans.

Hljómsveit Stefáns 1958
Sveitin starfaði í Tjarnarcafe fram á vorið 1950 en hætti þá störfum en ný sveit í nafni Stefáns var síðan stofnuð árið 1952 þegar hún lék í sönglagakeppni SKT og á Röðli, sú sveit fór svo um landið um sumarið en Haukur Morthens söng með sveitinni þá og Sigrún Jónsdóttir einnig eitthvað. Meðlimir hennar voru þarna Sigurgeir Björgvinsson trommuleikari, Sigurður Þ. Guðmundsson píanóleikari og Ólafur Gaukur Þórhallsson gítarleikari auk Stefáns. Ragnar Bjarnason tók síðar við af Sigurgeiri en Ragnar var á þeim tíma ennþá ekki farinn að syngja, Ragnar starfaði í nokkra mánuði með sveitinni.
Mismikið var að gera hjá hljómsveitinni en þegar nálgaðist miðjan sjötta áratuginn lék hún meira á höfuðborgarsvæðinu aftur, m.a. í Þórscafe, Iðnó og Vetrargarðinum í Vatnsmýrinni og víðar en ekki liggja fyrir miklar upplýsingar um meðlimi sveitarinnar á þeim tíma, Magnús Ingimarsson var þó píanóleikari með henni 1955 og 56 og eins kom Viðar Alfreðsson trompetleikari við sögu hennar um tíma sem og bassaleikarinn Árni Egilsson, Þórunn Pálsdóttir söng með sveitinni 1955.
Eins og fleiri hljómsveitir um þetta leyti lék sveitin nokkuð á landsbyggðinni yfir sumartímann, og m.a. í félagsheimilinu Hlégarði í Mosfellssveit sem þá taldist klárlega vera úti á landi. Þar kom sönghópurinn Leiksystur stundum fram með sveitinni og síðar átti Þuríður Jónsdóttir (Didda Jóns) ein Leiksystra eftir að syngja með sveitinni um hríð.

Hljómsveit Stefáns Þorleifssonar
Litlar upplýsingar er að finna um meðlimi hljómsveitar Stefáns á síðari hlut sjötta áratugarins, þó liggur fyrir að Skapti Ólafsson var trommuleikari hennar (og söngvari um tíma) en svo virðist sem sveitin hafi leikið nokkuð stopult um það leyti. Hún lék þó á stöðum eins og Breiðfirðingabúð, Þórscafe, Ingólfscafe og Vetrargarðinum á höfuðborgarsvæðinu en skýringin á því hversu litlar upplýsingar er að finna um sveitina á þessum tíma kann að vera sú að hún starfaði nokkuð á Vellinum. Sveitin lék að minnsta kosti fram á haustið 1960 en vera má að hún hafi starfað lengur af fyrrgreindum ástæðum, engar upplýsingar er hins vegar að finna um meðlimi sveitarinnar á þeim tíma en söngvarar eins og áðurnefnd Þuríður, Sirrý Geirs, og Sigurdór Sigurdórsson sungu með sveitinni um lengri og skemmri tíma.
Árið 1964 birtist Hljómsveit Stefáns Þorleifssonar á nýjan leik en sú útgáfa sveitarinnar virðist hafa verið skammlíf, Þór Nielsen söng með henni þá en svo kemur hún aftur fram á sjónarsviðið vorið 1967 þegar hún lék á vormóti sjálfstæðismanna í félagsheimilinu Röst á Hellissandi – engar upplýsingar er að finna um þá sveit Stefáns og virðist það hafa verið svanasöngur hljómsveitar hans.














































