Höfuðlausn [1] (1995-2007)

Höfuðlausn

Djasspíanóleikarinn Egill B. Hreinsson starfrækti hljómsveitir, bæði tríó og kvartetta um langt árabil og er fjallað um tríó hans annars staðar á síðunni – hér eru hins vegar settir undir einn hatt kvartettar Egils en hann kom reglulega fram með slíka á árunum 1995 til 2007, fyrirferðamestur þeirra er kvartettinn Höfuðlausn.

Elstu heimildir um kvartett Egils B. Hreinssonar eru frá haustinu 1995 en þá kom fram sveit í hans nafni á Jazzbarnum við Lækjargötu, engar upplýsingar er að finna um hverjir skipuðu kvartettinn en hafa ber í huga að þegar djasstónlistarmenn setja saman sveitir í eigin nafni getur verið mjög misjafnt hverjir skipa þær með þeim.

Næsti kvartett Egils kom fram á sjónarsviðið í febrúar 1997 en sú sveit lék á djasskvöldi Múlans á Jómfrúnni við Lækjargötu, þessi kvartett bar nafnið Höfuðlausn en mun einnig hafa gengið undir nafninu Kvartett Egils B. Hreinssonar. Meðlimir Höfuðlausnar voru auk Egils sem lék á píanó þeir Steingrímur Óli Sigurðsson trommuleikari, Bjarni Sveinbjörnsson kontrabassaleikari og Óskar Guðjónsson saxófónleikari. Sveitin lék djass standarda og íslensk þjóðlög í útsetningum Egils, og það gerði hún aftur um haustið á RúRek hátíðinni en ekki liggur fyrir hverjir skipuðu sveitina þá.

Á nýju ári, 1998 lék Höfuðlausn á djasskvöldi hjá Menntaskólanum á Akureyri fyrir norðan áður en hún kom fram á Múlanum sem þá var með djasskvöld á Sólon en þar skipuðu kvartettinn þeir Tómas R. Einarsson kontrabassaleikari, Matthías M.D. Hemstock trommuleikari og Óskar saxófónleikari auk Egils. Þeir félagar lögðu þá áherslu á íslensk þjóðlög og sönglög í útsetningum Egils, og það gerðu þeir einnig er þeir fóru í hljóðver um sumarið og tóku upp plötuna Og steinar tali… í Sýrlandi sem kom út um haustið, þar var einnig með þeim Einar Valur Scheving trommuleikari. Titill plötunnar, Og steinar tali… vísar til kvæðis eftir Rósu Guðmundsdóttur (Vatnsenda-Rósu) en platan hlaut misjafna dóma – fremur neikvæða í Morgunblaðinu en ágæta í DV.

Svo virðist sem kvartettinn hafi ekki komið fram aftur undir Höfuðlausnar-nafninu og ekki spurðist til kvartetts í nafni Egils fyrr en árið 2002 þegar sveit hans lék á New York kvöldi á Kringlukránni, þar skipuðu sveitina auk Egils, Jón Páll Bjarnason gítarleikari, Gunnar Hrafnsson kontrabassaleikari og Guðmundur Steingrímsson trommuleikari en einhverjir gestir komu fram með kvartettnum – þeirra á meðal var Geir Ólafsson söngvari. Heimildir er að finna um tvo kvartetta Egils eftir þetta, annars vegar frá vorinu 2006 og hins vegar sumrinu 2007 en síðarnefnda sveitin lék sumardjass á Jómfrúnni. Engar upplýsingar finnast um hverjir skipuðu kvartettinn með Agli í þau skipti.

Efni á plötum