Óskað er eftir upplýsingum um hljómsveit sem bar nafnið Hugmynd en lög með sveitinni komu út á þremur safnplötum á árunum 1992 og 93. Ekki er víst að sveitin hafi verið starfandi, hún gæti allt eins hafa starfað í hljóðveri eingöngu.
Árið 1992 átti Hugmynd lag á safnplötunni Lagasafn 1: Frumafl, og þar voru þeir Arnar Freyr Gunnarsson söngvari, Þórir Úlfarsson hljómborðsleikari og Sigurgeir Sigmundsson gítarleikari meðlimir sveitarinnar, Helgi Sigurðsson var þar titlaður laga- og textasmiður en hann er nefndur sem söngvari og hljómborðsleikari sveitarinnar í tengslum við útgáfu hennar á öðru lagi ári síðar á safnplötunni Lagasafnið 3, aðrir meðlimir voru þá Sigurður Kristinsson gítarleikari, Eiður Alfreðsson bassaleikari og Steinar Helgason trommuleikari. Á Lagasafni 4 sem kom út síðar sama ár eru liðsmenn sveitarinnar þeir Sigurgeir, Eiður, Sigurður, Þórir og Helgi.














































