Söngfélagið Hekla [1] (1900-16)

Söngfélagið Hekla á Akureyri

Söngfélagið Hekla á Akureyri er með merkilegum kórum sem þar hafa starfað, bæði var hann einn af fyrstu kórum bæjarins en auk þess var Hekla fyrstur allra kóra til að fara í söngferðalag til útlanda.

Söngfélagið Hekla var karlakór og var að öllum líkindum stofnaður aldamótaárið 1900 af Magnúsi Einarssyni þótt elstu heimildir um hann séu frá 1901. Magnús var organisti og mikill frumkvöðull í tónlistarlífinu á Akureyri og Hekla var eitt af hans verkefnum þar en upphaflega munu hafa verið fjórtán söngmenn í kórnum.

Svo virðist sem kórinn hafi sungið fyrst opinberlega á skemmtun sem hann hélt ásamt lúðrafélaginu á Akureyri í janúar 1903 og skömmu síðar haldið sinn fyrsta samsöng á Hótel Akureyri, þar sem kórinn söng tvívegis. Þannig gekk þetta næstu árin að kórinn söng stöku sinnum opinberlega og fjölgaði nokkuð í hópnum, og þegar stóð til að Hekla færi utan til Noregs í söngferð haustið 1905 voru meðlimir kórsins orðnir tuttugu og tveir talsins. Sú ákvörðun þótti býsna djörf og þegar það kvisaðist út að utanferð stæði til reyndu ýmsir að fá Magnús ofan af þeirri ákvörðun en einhver minnimáttarkennd var þá í gangi gagnvart Norðmönnum og mögulegum viðbrögðum þeirra. Magnús fór utan vorið 1905 til að kanna jarðveginn og engu varð haggað, undirbúningur fór á fullt við að fjármagna ferðina og glæsilegir kórbúningar voru saumaðir á hópinn auk þess sem söngskrár voru prentaðar til að hafa með í för.

Og svo fór að Söngfélagið Hekla sigldi til Noregs um haustið með viðkomu á Húsavík, Seyðisfirði og Eskifirði þar sem sungið var fyrir fullum húsum en áður höfðu þeir félagar haldið tónleika á Akureyri. Ferðin tók nokkrar vikur og hélt kórinn tónleika víðs vegar um Noreg þar sem eingöngu voru sungin íslensk lög, kórinn fékk hvarvetna prýðilegar móttökur og víða með veisluhöldum og í umfjöllunum og ferðasögum sem vísað var til hér heima eftir ferðina var sérstaklega tekið fram að söngurinn hefði fengið frábærar viðtökur en Norðmönnunum hefði fundist prógrammið vera nokkuð þunglamalegt. Þegar Hekla kom aftur heim til Íslands rétt fyrir jólin eftir viðkomu í Færeyjum þar sem einnig var sungið, hélt kórinn aftur tónleika á Seyðisfirði á heimleiðinni.

Ári eftir utanförina fékk Hekla sendan glæsilegan silkifána frá Noregi, merktan söngfélaginu og þótti mikill sómi að þeirri gjöf, svo mikill sómi að þegar kórinn var lagður niður síðar var bitist um hann – þeirri deilu lauk með að þegar Söngfélagið Hekla, samband norðlenskra karlakóra var stofnað árið 1934 hlaut það fánann til varðveislu. Eftir því sem best verður komist er fáninn í dag geymdur á minjasafninu á Akureyri.

Söngfélagið Hekla varð landsþekkt eftir utanlandsferðina enda markar hún tímamót í íslenskri tónlistarsögu, kórinn starfaði í nokkur ár eftir hana undir stjórn Magnúsar og hélt tónleika með reglulegu millibili um það bil tvisvar á ári. Árið 1908 var nokkuð farið að fjara undan kórnum og svo fór að ekkert spurðist til hans fyrr en 1911 þegar hann birtist aftur um vorið og hélt þá tónleika en hvarf að þeim loknum á nýjan leik. Árið 1916 var gerð önnur tilraun til að rífa upp söngstarfið, þá skipuðu kórinn sextán söngmenn sem sungu á einum tónleikum undir stjórn Magnúsar en eftir það hvarf Söngfélagið Hekla alveg af sjónarsviðinu.