Afmælisbörn 7. júlí 2017

Aðalbjörn Tryggvason

Fjórir tónlistarmenn eiga afmæli í dag og eru á skrá Glatkistunnar:

Aðalbjörn Tryggvason söngvari og gítarleikari Sólstafa er fertugur í dag og á stórafmæli dagsins, Sólstafir hefur starfað síðan 1995 og liggja vel á annan tug útgáfa eftir sveitina. Sólstafir er þó ekki eina sveitin sem Aðalbjörn starfar með því hann hefur einnig leikið með Melrökkum sem einkum hafa sérhæft sig í tónlist Metallica.

Annar gítarleikari og söngvari á afmæli í dag, Vignir Snær Vigfússon jafnan kenndur við Írafár, er þrjátíu og átta ára. Vignir sem kemur upphaflega frá Kirkjubæjarklaustri, hefur leikið með ýmsum hljómsveitum s.s. Fljótinu sem rann, Dægurlagakombóinu, Rokk og Vinum Sjonna sem kepptu fyrir hönd Íslendinga í Eurovision 2011, Vignir hefur reyndar oftar farið sem einn af fulltrúum Íslands í keppnina. Vignir hefur ennfremur starfað við upptökur og útsetningar auk þess að hafa samið fjöldann allan af þekktum lögum.

(Örvarr) Atli Örvarsson hljómborðsleikari og kvikmyndatónskáld frá Akureyri á fjörutíu og sjö ára afmæli í dag. Atli var áberandi um og upp úr 1990 er hann lék með sveitum eins og Sálinni hans Jóns míns og SSSól en áður hafði hann slegið í gegn með Stuðkompaníinu. Atli flutti síðan vestur um haf og hefur á síðustu árum haslað sér völl sem kvikmyndatónskáld og samið tónlist fyrir fjölda kvikmynda og sjónvarpssería.

Börkur Hrafn Birgisson gítarleikari og upptökumaður á ennfremur afmæli í dag en hann á fjörutíu og tveggja ára gamall. Hann hefur leikið með hljómsveitum eins og Baggabandinu, Jagúar og Mono town en hefur á síðari árum snúið sér í auknum mæli að upptökustjórnun og annarri hljóðversvinnu.