Afmælisbörn 25. júlí 2017

Páll Ragnar Pálsson

Í dag eru afmælisbörnin þrjú í Glatkistunni:

Þorsteinn Konráð Ólafsson raftónlistarmaður, sem gengur undir nafninu Prins Valium í tónlistarsköpun sinni er fjörutíu og tveggja ára gamall í dag. Prins Valium hefur komið við sögu á mörgum safnplötum í rafgeiranum sem og splitplötum en hann hefur einnig gefið út plötur sjálfur síðan 2006. Hann var einnig í hljómsveitinni Semen, sem ekki fór hátt.

Páll Ragnar Pálsson gítarleikari og tónskáld á stórafmæli dagsins en hann er fertugur í dag. Páll vakti fyrst athygli með hljómsveitinni Maus sem sigraði Músíktilraunir vorið 1994, sveitin fór á heilmikið flug í kjölfarið og gaf út nokkrar plötur. Hann hafði lært bæði á gítar og píanó, en nam einnig raftónlist, tónfræði og tónlistarsögur áður hann lauk tónsmíðanámi. Páll hefur hlotið ýmsar viðurkenningar og verðlaun fyrir tónverk sín síðustu árin.

Annar gítarleikari, Stefnir Gunnarsson á einnig afmæli á þessum degi en hann er þrjátíu og eins árs gamall í dag. Stefnir hefur leikið á gítar og sungið í hljómsveitum eins og Lada Sport og Big Kahuna en einnig fengist eitthvað við upptökur.