Strax (1986-90)

Strax í upphafi

Saga hljómsveitarinnar Strax er óneitanlega samofin sögu Stuðmanna enda var þetta ein og sama sveitin framan af – útflutningsútgáfa Stuðmanna, segja má að Strax hafi síðar klofnað frá hinum stuðmennska uppruna sínum og orðið að lokum að sjálfstæðri einingu sem fjarskyldur ættingi.

Upphaf Strax má rekja til Kínaferðar Stuðmanna en forsagan er sú að árið 1985 voru uppi viðræður milli Jakobs Frímanns Magnússonar og Ragnhildar Gísladóttur Stuðmanna við kínverska ráðamenn í gegnum sendiráð þeirra í Reykjavík um að þau tvö myndu fara í eins konar tónleikaferð um Kína. Þær viðræður runnu reyndar út í sandinn en snemma árs 1986 voru þær teknar upp aftur fyrir tilstuðlan Braga Hanssonar annars vegar og Arnþórs Helgasonar og annarra hjá Kínversk-íslenska menningarfélaginu (KÍM) hins vegar og þá opnuðust möguleikarnir á ný. Þegar sá möguleiki var aftur fyrir hendi mun Valgeir Guðjónsson gítarleikari sveitarinnar hafa stungið upp á að Stuðmenn færu allir í þessa ferð og um leið að hljómsveitin yrði að heilsárssveit í stað þess að leggja áherslu á sveitaballatúra yfir sumartímann en þannig höfðu Stuðmenn starfað í nokkur sumur á undan og orðið að vinsælustu hljómsveit landsins. Það varð að endingu niðurstaðan, sem setti reyndar þau Jakob og Ragnhildi í nokkuð erfiða stöðu því þau höfðu þá um tíma starfað með Bone Symphony, íslensk-bandarískri tölvupoppsveit sem hafði vonir um frama á alþjóðamarkaði – og þeirri sveit var í kjölfarið fórnað fyrir Stuðmenn.

Þegar samningar höfðu verið gerðir um tónleikaferð Stuðmanna um Kína var tekin sú ákvörðun að endurnefna sveitina fyrir alþjóðamarkaðinn, að Stuðmenn yrðu íslenska hliðin á teningnum en nafnið Strax var tekið upp fyrir þá alþjóðlegu og þá var einkum til þess hugsað að Kínverjar ættu auðveldara með að bera það fram. Strax var um leið eins konar skammstöfun fyrir Stuðmenn (St) og Ragnhildi en Rax var eitt gælunafna hennar, meðlimir sveitarinnar voru þá Jakob Frímann Magnússon hljómborðsleikari og söngvari, Ragnhildur Gísladóttir söngkona, Valgeir Guðjónsson gítarleikari og söngvari, Tómas M. Tómasson bassaleikari, Ásgeir Óskarsson trommuleikari, Þórður Árnason gítarleikari og Egill Ólafsson söngvari.

Undirbúningur fyrir Kínaferðina fór á fullt og var um að ræða risastórt verkefni en Strax yrðu aðeins önnur vestræna hljómsveitin sem færi í slíkan túr um Kína á eftir breska dúettnum Wham. Svo fór að ellefu manna hópur fór í þessa frægðarför um vorið 1986 með um þrjú tonn af hljóðkerfisgræjum en Kínverjar voru engan veginn nógu vel búnir tæknilega undir þetta verkefni og því voru m.a.s. hafðar rafstöðvar með í för. Liður í undirbúningi sveitarinnar var að taka upp plötu á ensku fyrir ferðina en sú plata fór reyndar aldrei á markað í Kína því þar í landi voru kassettur ennþá aðal tónlistarmiðillinn, sveitin tók þó eitthvað af kynningarefni með sér austur til Asíu.

Ragnhildur og Jakob

Kínaferð Strax (Stuðmanna) sem auglýst var þar sem þjóðlagasveit þótti takast að mestu leyti afar vel og sveitinni var vel tekið hvarvetna sem hún lék á tónleikum, alls lék sveitin á fjórtán tónleikum á fimmtán dögum í sjö borgum (m.a. í Peking og Sjanghæ) og alls ferðaðist hópurinn um 7000 kílómetra um Kína. Oftast spilaði sveitin fyrir um 3-5 þúsund manns en einnig fyrir allt upp í 12 þúsund áhorfendur – og þess má geta að myndatökumaður á vegum BBC var með í för og gerð var heimildarmynd um ferðina sem sýnd var síðar í sjónvarpi.

Þegar sveitin kom heim aftur um sumarið tók við linnulítil spilamennska á sveitaböllum undir Stuðmanna-nafninu en þegar haustaði var Strax-nafnið aftur tekið upp, um það leyti var ákveðið með litlum fyrirvara að leiðtogafundur Ronalds Reagan Bandaríkjaforseta og Mikhaíl Gorbatsjov leiðtoga Sovétríkjanna yrði haldinn í Höfða og Strax-liðar voru fljótir að gefa út smáskífu með vísan í þann atburð – það var lagið Moscow Moscow sem naut nokkurra vinsælda um haustið en lagið var unnið í fljótheitum upp úr gömlu Stuðmannalagi sem upphaflega átti að vera í kvikmyndinni Með allt á hreinu og hafði lengi haft vinnuheitið Mister mister, hér var um að ræða fyrsta útgefna lag Strax og kom smáskífan einnig út í Bretlandi og Svíþjóð í nokkrum útgáfum. Á þessum tímapunkti hafði sveitin ráðið Einar Örn Benediktsson (síðar Sykurmoli og Smekkleysumaður) sem framkvæmdastjóra en Stuðmenn höfðu þá þegar byrjað að vinna að því að koma sveitinni á framfæri erlendis undir Strax-nafninu.

Platan, sem hljóðrituð hafði verið að mestu leyti um vorið var fullkláruð og gefin út um haustið af Skífunni og bar nafn sveitarinnar – Strax. Sveitin naut augljóslega góðs af vinsældum Stuðmanna sem þarna voru líklega á hápunkti ferils síns og platan seldist vel á áttunda þúsund eintaka. Lög plötunnar voru eðli málsins samkvæmt á ensku enda hugsuð fyrir alþjóðamarkað en það virtist ekki trufla íslenska hlustendur, tónlistin var þó „alvarlegri“ en hin hefðbundna Stuðmannatónlist, og fylgdi um leið alþjóðlegum poppstraumum með nokkra áherslu á hljóðgervla í stað hins grallaralega íslenska sveitaballapopps – það er því eðlilegt að tónlistargagnrýnendur dagblaðanna væru ekki alveg vissir um hvort þetta væru yfirhöfuð Stuðmenn. Platan fékk engu að síður þokkalega dóma í DV, Morgunblaðinu og tímaritinu Samúel og lögin Look m ein the eye og fyrrnefnt Moscow Moscow urðu feikivinsæl. Breiðskífan var síðan gefin út haustið 1987 og 1988 á Norðurlöndunum á vegum Grammofon AB electra og í Bretlandi, Þýskalandi og Ítalíu og á þeirri útgáfu var að finna aukalagið Keep it up sem áður hafði komið út sem Stuðmannalagið Segðu mér satt, smáskífan Keep it up / Black and white kom einnig út ytra.

Strax með session mönnum 1988

Brestir voru að myndast í samstarfi Stuðmanna um þetta leyti og þá um leið í Strax, Valgeir fór smám saman að draga sig úr samstarfinu en það var einmitt hann sem hafði stungið upp á heilsárs-útgáfu Stuðmanna/Strax. Hann var því lítið með Stuðmönnum um sumarið 1987 og þegar Strax-nafnið var aftur dregið fram í dagsljósið með nýja plötu um haustið undir titlinum Face the facts var hann ekki þar nema sem lagahöfundur – og reyndar var Strax aðeins skipuð þeim Jakobi, Ragnhildi og Þórði á plötunni en líklega var sveitin þá þegar orðin dúett þeirra Jakobs og Ragnhildar og upp frá þessu höfðu þau yfirleitt session menn með sér. Platan hlaut mun minni athygli en fyrri breiðskífan en lögin Strange faces, Black and white og Face the facts fengu einhverja útvarpsspilun, og þá fékk platan fremur slaka dóma í Þjóðviljanum og Alþýðublaðinu og varla nema þokkalega í Helgarpóstinum en heldur skárri í DV en tónlistin þótti flatneskjuleg og var stöðugt borin saman við Stuðmenn – sem auðvitað var ekki alveg sanngjarnt. Face the facts var ein fyrsta íslenska skífan til að vera gefin út á þrenns konar formi, vínylplötu, kassettu og geisladiski.

Stuðmenn störfuðu ekki mikið árið 1988 og komu reyndar mjög lítið fram fyrr en um verslunarmannahelgina þegar sveitin lék í Atlavík – og þar birtist Strax líka, sem staðfesti reyndar að Stuðmenn og Strax voru nú orðnar að tveimur ólíkum og aðskildum hljómsveitum en Strax hafði einnig leikið á Listapopp-tónleikunum í Laugardalshöllinni fyrr um sumarið með aukamannskap með sér. Og Strax sendi frá sér sína þriðju plötu á þremur árum þá um haustið 1988 en hún var á íslensku og bar titilinn Eftir pólskiptin. Sveitin var kynnt sem tríó þeirra Jakobs, Ragnhildar og Egils Ólafssonar sem var þó hvergi að sjá þegar platan var kynnt en hins vegar voru erlendir session spilarar með á plötunni – þeir Alan Murphy, Preston Ross Heyman og Busta Jones, reyndar komu fleiri Stuðmenn við sögu plötunnar sem laga- og textasmiðir. Eftir pólskiptin hlaut ágæta dóma í Pressunni, Þjóðviljanum og DV en slaka í Tímanum og lögin Havana og Niður Laugaveg náðu almannahylli og heyrast enn reglulega leikin í útvarpi, tónlistin var nú orðin aftur ögn Stuðmannalegri og e.t.v. hafði tungumálið líka eitthvað um það að segja. Sagan segir að platan hafi einnig átt að koma út á ensku en af einhverjum ástæðum varð aldrei úr því.

Strax 1989

Um haustið og eftir áramótin 1988-89 fór sveitin í nokkrar tónleikaferðir, fyrst um Ísland og svo um Bretland og Bandaríkin þannig að ekki var búið að gefa upp alla von um alþjóðlegan frama. Með þeim Jakobi og Ragnhildi voru á ferð þekktir tónlistarmenn, þeir Sigfús Óttarsson trommuleikari, Baldvin H. Sigurðsson bassaleikari og Sigurður Gröndal gítarleikari og var Strax því á nýjan leik orðin eins og starfandi hljómsveit í stað hljóðversverkefnis sem plöturnar þrjár höfðu óneitanlega borið keim af – og í raun má segja að Strax hafi haft þann hljóðversstimpil síðan sveitin kom úr Kínaferðinni snemma sumars 1986. Kristján Edelstein átti síðan eftir að taka við af Sigurði Gröndal snemma um vorið 1989 eftir Bretlandstúr og hélt sveitin þá tónleika í Tunglinu en hún átti aftur eftir að fara til Bretlands síðar um vorið. Strax fór mikinn í tónleikahaldi snemmsumars, var með fremur vinsælt lag á safnplötunni Bjartar nætur – Allir spyrja, og lék þá víða um land auk þess að fara í stuttan túr til Grænlands fyrst íslenskra hljómsveita áður en sveitin fór í pásu um mitt sumar til að sinna Stuðmannahluta sveitarinnar sem þá var að gefa út plötu og fylgja henni eftir – Strax lék þó ásamt Stuðmönnum í Húnaveri um verslunarmannahelgina.

Strax spilaði áfram eftir Húnavershátíðina um nokkurra vikna skeið, sveitin hafði boðað útgáfu nýrrar plötu um haustið 1989 en ekkert bólaði á henni og reyndar heldur ekki hljómsveitinni almennt, sveitin vann þó að henni að minnsta kosti fram á haustið og líklega eitthvað fram yfir áramótin 1989-90 en eitt og annað olli því að vinnan dróst á langinn – Jakob og Ragnhildur fluttu norður á Akureyri haustið 1990 eftir sumarvertíð og plötu með Stuðmönnum og ári síðar voru þau komin til Lundúna þar sem Jakob gegndi stöðum við sendiráð Íslendinga um nokkurra ára skeið en þar unnu þau hjónaleysin saman að tónlist og gáfu út undir nafninu The Jack Magic Orchestra og Human body orchestra en smám saman fennti yfir Strax-sporin, rykið var hins vegar stöku sinnum þurrkað af Stuðmönnum og er sú sveit enn starfandi að nafninu til að minnsta kosti.

Strax varð því aldrei sú útflutningsútgáfa af Stuðmönnum sem menn ætluðu en mörgum árum síðar fór sveitin í nokkur skipti til Þýskalands og lék þar undir nafninu 6 Geysirs & a bird auk þess að gefa út plötu þar í landi undir því nafni.

Efni á plötum