H.H. kvintett (1961-65)

H.H. kvintett

Á fyrri hluta sjöunda áratugar síðustu aldar var starfrækt af ungum mönnum sem flestir voru innan við tvítugt hljómsveit á Akureyri sem bar heitið H.H. kvintett (og reyndar síðar H.H. kvartett) en sveitin var lengi húshljómsveit á Hótel KEA auk þess sem hún lék víða um norðanvert landið á dansleikjum s.s. í Vaglaskógi um verslunarmannahelgar, héraðsmótum í Eyjafirði og Skagafirði og víðar. Auk þess lék sveitin að minnsta kosti í tvígang í Ríkisútvarpinu þegar sent var út frá KEA hótelinu.

H.H. sem hljómsveitin var kennd við er Haukur Heiðar Ingólfsson píanóleikari og læknir en hann stofnaði sveitina árið 1961 og sleit henni síðan fljótlega eftir að hann lauk stúdentsprófi vorið 1965 og flutti suður í læknisnám – hann var síðan lengi undirleikari á skemmtunum hjá Ómari Ragnarssyni.

H.H. kvartett, Valdi og Saga

Í byrjun voru ásamt Hauki Heiðari þeir Hákon Eiríksson trommuleikari, Reynir Jónsson saxófónleikari, Sigurður Jónsson gítarleikari og Hannes Arason bassaleikari auk þess sem Ingvi Jón Einarsson söng með sveitinni. Síðar áttu einnig Gyða Þórhallsdóttir, Þorvaldur Halldórsson og Saga G. Jónsdóttir eftir að syngja með henni, og þá var sveitin gjarnan auglýst sem H.H. og Valdi, H.H. og Saga eða það sem við átti í hvert sinn. Þess má geta að Þorvaldur hætti einmitt í H.H. haustið 1964 til að ganga til liðs við Hljómsveit Ingimars Eydal þar sem hann sló í gegn.

Árið 1963 var kvintettinn orðinn að kvartett, Reynir var þá farinn úr sveitinni og Birgir Karlsson hafði tekið við gítarnum af Sigurði – líklega var H.H. kvartett þar til yfir lauk sumarið 1965.