Afmælisbörn 24. nóvember 2023

Eyþór Arnalds

Nokkrir tónlistarmenn koma við sögu afmælisskrár Glatkistunnar að þessu sinni:

Eyþór Arnalds söngvari og sellóleikari Todmobile er fimmtíu og níu ára gamall í dag. Hann er líkast til þekktastur fyrir veru sína í Todmobile sem naut gríðarlegra vinsælda á sínum tíma en hann starfrækti einnig dúettinn Bong. Áður hafði hann verið í sveitum eins og Kolossus-band og Tappa tíkarrassi. Eyþór hefur einnig unnið við kvikmyndatónlist, stýrt upptökum og sungið barnalög. Hann hefur í seinni tíð snúið sér meira að stjórnmálum en tónlist.

Eggert Gíslason í Maus er fjörutíu og sjö ára gamall á þessum degi. Hann var bassaleikari í sveitinni, sem sigraði Músíktilraunir 1994 og gaf út nokkrar plötur í kjölfarið. Minna hefur farið fyrir honum í tónlistinni hin allra síðustu ár.

Þórarinn Þeyr Rúnarsson trommuleikari Meistara dauðans er tvítugur á þessum degi en þessi ungi trommuleikari vakti mikla athygli með hljómsveit sinni, sem gaf út samnefnda plötu fyrir nokkrum árum.

Sigurdór Sigurdórsson söngvari (fæddur 1938) hefði fagnað afmæli sínu í dag en hann lést árið 2021. Sigurdór söng með ýmsum þekktum danshljómsveitum á sínum tíma s.s. hljómsveitum Svavars Gests og Eyþórs Þorlákssonar en hann er þó þekktastur fyrir flutning sinn á Þórsmerkurljóðinu sem flestir þekkja undir nafninu María María.

Sigurður Hallmarsson harmonikkuleikari á Húsavík átti afmæli á þessum degi en hann lést árið 2014. Sigurður (f. 1929) lék á harmonikku á dansleikjum á sínum yngri árum, söng og stjórnaði kórum á Húsavík og stjórnaði lúðrasveit þar í bæ einnig samhliða kennslu en hann var kennari að aðalstarfi. Á efri árum var hann virkur í félagsstarfi harmonikkuleikara og sendi þá frá sér tvær plötur í samstarfi við aðra.

Einnig hefði Einar Kristjánsson óperusöngvari (f. 1910) átt afmæli á þessum degi en hann lést 1966. Einar sem var tenór starfaði allan sinn söngferil erlendis, mest í Danmörku og Þýskalandi og víst er að ef ekki hefði komið til heimsstyrjaldarinnar síðari hefði hann orðið stærra nafn. Hann söng inn á fjölmargar 78 snúninga plötur.

Vissir þú að Manuela Wiesler flautuleikari með meiru lék yfirleitt alltaf nótulaust á tónleikum?