Hljómsveit Andrésar Ingólfssonar (1954-64)

Hljómsveit Andrésar Ingólfssonar

Saxófónleikarinn Andrés Ingólfsson starfrækti hljómsveitir í þrígang á sjötta og sjöunda áratug liðinnar aldar og segja má að síðasta sveitin hafi skipað sér meðal vinsælustu hljómsveita landsins, hún gaf þó aldrei út plötu.

Hljómsveit Andrésar Ingólfssonar hin fyrsta starfaði um eins árs skeið 1954 til 55 en engar upplýsingar er að finna um skipan þeirrar sveitar nema að Andrés sem lék á saxófón var hljómsveitarstjóri hennar, og að hún lék um skeið í Þórscafé. Upplýsingar varðandi þessa sveit mætti gjarnan senda Glatkistunni en hún hætti störfum þegar Andrés gekk til liðs við Orion kvartett sem þá varð að kvintett, sú sveit var undir stjórn Eyþórs Stefánssonar gítarleikara.

Veturinn 1957 birtist Hljómsveit Andrésar á sjónarsviðinu á nýjan leik en Andrés hafði þá nokkru fyrr yfirgefið Orion og leikið um tíma með Hljómsveit Jóns Páls Bjarnasonar. Jón Páll var þá við að gefast upp á hljómsveitarstjórninni þar sem meðlimir hennar létu illa að stjórn og mun drykkja hafa haft sitt að segja í þeim málum, það varð því úr að Andrés tók við hljómsveitarstjórninni og var hún í framhaldinu starfrækt í nafni hans. Meðlimir sveitarinnar í upphafi voru að öllum líkindum þeir Andrés og Jón Páll (sem lék á gítar), Ólafur Stephensen píanóleikari, Gunnar Reynir Sveinsson víbrafónleikari og Árni Egilsson bassaleikari. Þórir Roff var fyrsti söngvari sveitarinnar (og trommuleikari) en hann hafði verið söngvari Orion undir lokin en sú sveit hafði þá einnig hætt um svipað leyti og segja reyndar sumar heimildir að hljómsveit Andrésar sé stofnuð upp úr henni.

Eins og í öðrum hljómsveitum á þeim tíma urðu nokkrar mannabreytingar í hljómsveit Andrésar, þannig tók Þórarinn Ólafsson píanóleikari við af Ólafi og um vorið 1958 söng ungur og efnilegur söngvari, Sigurður Johnny með sveitinni ásamt Þóri tímabundið. Sveitin spilaði mestmegnis í Þórscafe á þeim tíma en yfir sumartímann lék sveitin einnig á Hótel KEA á Akureyri og víðar fyrir norðan reyndar en þegar hún kom aftur suður síðsumars lék hún á skemmtistöðum borgarinnar og einnig á Keflavíkurflugvelli hjá bandaríska hernum. Segja má að hljómsveit Andrésar hafi starfað í anda KK-sextettsins sem þá var vinsælasta hljómsveit landsins um þessar mundir en hafði þó sín séreinkenni.

Hljómsveit Andrésar árið 1958

Um áramótin 1958-59 hætti Þórir söngvari og trommuleikari í sveitinni og tók Guðjón Ingi Sigurðsson sæti hans en Sigurður Johnny kom þá inn í sveitina sem söngvari, um svipað leyti tók Reynir Sigurðsson víbrafónleikari við af Gunnari Reyni Sveinssyni. Einnig komu hingað til lands erlendir söngvarar og sungu með sveitinni tímabundið, þar má telja bandaríska söngvarann Jimmy Cross og ensku söngkonuna Dolores Mantez en sú varð síðar þekkt sjónvarpsþáttaleikkona og lék í seríum eins og UFO og The Avengers. Hljómsveitin hélt sínu striki í spilamennskunni, lék í Þórscafé framan af ári og einnig t.d. á skemmtun í Austurbæjarbíói undir söng ungra og efnilegra dægurlagasöngvara en um sumarið lék sveitin mestmegnis úti á landsbyggðinni. Um það leyti hlaut Andrés hljómsveitarstjóri styrk til tónlistarnáms í Bandaríkjunum og því hætti sveitin störfum síðsumars.

Sögu Hljómsveitar Andrésar Ingólfssonar var þó hvergi nærri lokið því hún var endurreist síðsumars 1961 með nýjum mannskap. Andrés hafði komið heim eftir Ameríkudvölina, leikið með Lúdó sextett og svo með Tónik sextett sem þarna um haustið varð að hljómsveit Andrésar, aðrir meðlimir þeirra sveitar voru Elfar Berg Sigurðsson píanóleikari, Guðjón Margeirsson bassaleikari, Björn Björnsson trommuleikari, Gunnar Reynir Sveinsson víbrafónleikari, Gunnar Sigurðsson gítarleikari, Jón Möller básúnuleikari og Cole Porter söngvari sem hætti reyndar fljótlega og tók Sigurður Johnny við af honum. Sveitin spilaði í upphafi nokkuð í Vetrargarðinum í Tívolíinu í Vatnsmýrinni og færði sig svo út á landsbyggðina þegar Vetrargarðurinn lokaði um haustið. Eftir áramótin 1961-62 var sveitin svo ráðin í Þórscafé og þá hafði Harald G. Haralds tekið við söngnum og einnig söng Kristjana Magnúsdóttir stundum með sveitinni. Nokkrar mannabreytingar höfðu þá orðið á hljómsveit Andrésar, Guðjón bassaleikari var hættur og færði Gunnar gítarleikari sig yfir á bassann en Ólafur Gaukur Þórhallsson varð gítarleikari í stað Gunnars, einnig hafði Björn trommuleikari hætt störfum og Alfreð Alfreðsson tekið sæti hans í sveitinni.

Hljómsveit Andrésar Ingólfssonar á forsíðu Fálkans 1962

Á þessum tíma náði sveitin líklega hvað mesta flugi í vinsældum sínum, KK-sextettinn var hættur störfum og í könnun sem tímaritið Vikan gerði um sumarið varð sveitin í öðru sæti vinsældarkosningar á eftir Lúdó sextettnum og var því klárlega með vinsælustu hljómsveitum landsins þarna rétt fyrir innrás Bítlatónlistarinnar. Hljómsveitin var framan af ári 1962 í Þórscafé en einnig heilmikið á Vellinum og um vorið var hún ráðin tvö kvöld í viku í Glaumbæ en þá um sumarið fór sveitin jafnframt mikinn á sveitaböllum á landsbyggðinni. Þá kom hún eitthvað fram í Útvarpinu og reyndar einnig í Kanasjónvarpinu með tónlist sína.

Um haustið 1962 hættu þeir Gunnar Reynir víbrafónleikari og Alfreð trymbill í sveitinni en ekki liggur fyrir hver tók við trommuleiknum, og um veturinn 1962-63 virðist sveitin hafa leikið víða á höfuðborgarsvæðinu s.s. Þórscafe, Breiðfirðingabúð, Röðli og víða. Jakob Ó. Jónsson söngvari leysti Harald af hólmi og söng með sveitinni á landsbyggðarböllunum um sumarið og einnig virðist Elly Vilhjálms lítillega hafa sungið með sveitinni um haustið en litlar upplýsingar er að finna um starfsemi hennar um veturinnn 1963-64. Hljómsveitin hætti svo störfum um vorið 1964 þegar Andrési bauðst að ganga til liðs við hljómsveit sem þá var farin að láta að sér kveða í Sjálfstæðishúsinu á Akureyri, Hljómsveit Ingimars Eydal. Þar með lauk sögu Hljómsveitar Andrésar Ingólfssonar, þeirrar merku sveitar.