
Hljómsveit Ágústs Ármanns Þorlákssonar
Árið 1997 var sett á laggirnar hljómsveit austur á Norðfirði sem átti næstu árin eftir að leika á dansleikjum og tónlistarsýningum í tengslum við öflugt tónlistarstarf Austfirðinga og einkum Norðfirðinga, þ.á.m. á Austfirðingaböllum í Reykjavík, slíkar sýningar höfðu þó verið settar á svið fyrir austan í fjölmörg ár á undan.
Hljómsveitin eða hljómsveitirnar áttu það sammerkt að starfa undir stjórn Ágústs Ármanns Þorlákssonar skólastjóra tónlistarskólans í Neskaupstað og eins þeirra sem hafði frumkvæðið að stofnun BRJÁN (Blús-, rokk- og jazzklúbbur á Nesi). Starfsemi sveitarinnar umhverfðist nokkuð í kringum þann félagsskap og var eins konar hirðhljómsveit klúbbsins, en ýmsar tónlistarveislur voru haldnar eystra á árunum í kringum aldamótin og voru reyndar einnig að einhverju leyti settar á svið á Hótel Íslandi fyrir brottflutta Austfirðinga, Egilsbúð á Norðfirði var þó líklega hinn eiginlegi heimavöllur sveitarinnar.
Sveitin sem hér er skráð undir nafninu Hljómsveit Ágústs Ármanns gekk reyndar undir ýmsum nöfnum meðan hún starfaði en hér má nefna nöfn eins og Hin alþjóðlega danshljómsveit Ágústs Ármanns (sem var líklega upphaflega nafn sveitarinnar), Alþjóðlega bandið, Draumadrengirnir, Elítan, Hnakkarnir, Heimameik og SOS bandið. Sveitin var yfirleitt skipuð sama kjarnanum af hljóðfæraleikurum þótt eitthvað væri misjafnt hverju kæmu fram hverju sinni, meðlimir hennar voru auk Ágústs Ármanns (sem lék á hljómborð) þeir Helgi Georgsson hljómborðsleikari, Bjarni Freyr Ágústsson gítar- og trompetleikari, Jón Hilmar Kárason gítarleikari, Þorlákur Ægir Ágústsson gítarleikari, Viðar Guðmundsson bassaleikari, Einar Bragi Bragason saxófónleikari og Marías B. Kristjánsson trommuleikari, einnig lék Pjetur S. Hallgrímsson trommuleikari einhverju sinni með sveitinni. Fastir söngvarar sveitarinnar voru þeir Guðmundur R. Gíslason, Smári Geirsson og Helgi Magnússon en auk þess hefur mikill fjöldi söngvara sungið með henni á þeim fjölmörgum tónlistarsýningum sem hún kom að.
Hljómsveit Ágústs Ármannson starfaði allt til ársins 2011 en þá lést Ágúst Ármann aðeins rétt rúmlega sextugur að aldri. Ný hljómsveit var stofnuð á grunni gömlu sveitarinnar nokkru síðar og ber nafnið Dægurlagadraumar.














































