Afmælisbörn 31. janúar 2024

Benedikt Brynleifsson

Á þessum degi koma fjölmörg afmælisbörn við sögu Glatkistunnar:

Fyrstan skal telja Árna Matthíasson tónlistarskríbent og blaðamann á Morgunblaðinu um þriggja áratuga skeið, hann hefur einnig setið í dómnefnd Músíktilrauna frá 1987 og skrifað bækur um tónlist svo dæmi séu nefnd, nú síðast bók um feril Bubba Morthens. Árni er sextíu og sjö ára gamall á þessum degi.

Rafn Sigurbjörnsson fagnar í dag sextíu og níu ára afmæli sínu en hann söng og lék með ýmsum sveitum hér áður eins og Gaddavír, Friði, Landshornarokkurum, Tríói ´72, Rockola, Cobra og fleirum. Rafn hefur einnig sent frá sér tónlist í eigin nafni og starfað við hljóðver, rak t.d. Stúdíó Hlust um tíma.

Benedikt Brynleifsson trommu- og ásláttarleikari er fjörutíu og fimm ára gamall í dag, hann hefur leikið með ógrynni hljómsveita í gegnum tíðina en 200.000 naglbítar, The Flavors, Hann kafnar, Ísafold, Rokk, Vinir Sjonna og Todmobile eru aðeins örfáar þeirra. Svo þarf varla að taka fram að Benedikt hefur leikið á plötum ýmissa listamanna.

Benni Hemm Hemm (Benedikt Hermann Hermannsson) tónlistarmaður og tónskáld á fjörutíu og fjögurra ára afmæli á þessum degi, hann hefur gefið út margar sólóplötur samhliða því að starfrækja hljómsveit í eigin nafni. Hann hefur einnig leikið með hljómsveitum eins og Rúnk, Motherfuckers in the house og Mósaik.

Jakob Tryggvason

Raftónlistarmaðurinn Ólafur Örn Josephsson fagnar í dag fjörutíu og sjö ára afmæli sínu. Ólafur Örn er líklega þekktastur undir nafninu Stafrænn Hákon og hefur gefið út fjölda platna undir því nafni en hann hefur einnig starfað með sveitum eins og Haugi, Sullaveika bandorminum, Per: segulsviði, Náttfara og Calder.

Ingibjörg Hrönn Guðmundsdóttir (Inga Guðmundsdóttir) söngkona er fimmtíu og þriggja ára á þessum degi. Inga hefur sungið með sveitum eins og Sveitasveitinni Hundslappadrífu, Blátt áfram, Alvildu og fleiri sveitum en hefur einnig sungið á plötum annarra listamanna s.s. Bubba Morthens og Megasar.

Þá á Inga María Eyjólfsdóttir sópran söngkona áttatíu og þriggja ára afmæli. Inga María nam söng m.a. hjá Maríu Markan en aukinheldur lærði hún í London. Ein plata, Einsöngur í útvarpssal, hefur komið út með söng hennar en sú kom út árið 1997.

Einnig hefði Jakob Tryggvason organisti (1907) átt þennan afmælisdag en hann var mikill tónlistafrömuður á Akureyri, var til að mynda skólstjóri Tónlistarskólans þar í bæ og organisti Akureyrararkirkju í um 45 ára skeið. Hann var einnig undirleikari Smárakvartettsins og lék inn á fjölmargar pötur. Jakob lést 1999.

Vissir þú að Gylfi Ægisson er móðurbróðir Ruthar Reginalds?