Afmælisbörn 6. febrúar 2024

Jón Páll Bjarnason

Fjölmörg afmælisbörn í tónlistargeiranum koma við sögu í dag:

Signý Sæmundsdóttir sópransöngkona er sextíu og sex ára gömul í dag, hún hefur sungið á fjölmörgum plötum, meðal annars með Bergþóri Pálssyni og sem einsöngvari með kórum. Hún hefur einnig raddþjálfað og stjórnað söngkvartettnum Út í vorið og kammerkórnum Ópus 12 / Kammerkór Þorgeirs.

Einar Tönsberg fagnar fimmtíu og eins árs afmæli í dag, Einar hefur gefið út plötur og leikið með ýmsum hljómsveitum og undir ýmsum nöfnum en þar má nefna Cigarette, Lorien, Didda, Eberg, Óðflugu og Feldberg en hann hefur einnig starfað við kvikmyndatónlist og gefið út tónlist í félagi við aðra s.s. Pétur Ben.

Hildur Vala Einarsdóttir söngkona er fjörutíu og tveggja ára í dag, henni skaut upp á stjörnuhimininn þegar hún sigraði Idol stjörnuleitarkeppnina 2005, í kjölfarið gaf hún út tvær sólóplötur og sú þriðja kom síðan út árið 2018. Hildur Vala hefur ennfremur fengist við fjölbreytileg söngverkefni eftir sigur sinn, leysti m.a. Ragnhildi Gísladóttur af í Stuðmönnum og hefur sungið á fjölmörgum plötum ýmissa listamanna.

Jón Kristinn Cortez er sjötíu og sjö ára gamall í dag. Jón Kristinn var hér áður þekktur bassaleikari og lék með ýmsum sveitum s.s. Toxic, Blúskompaníinu, Sóló, Mannakornum, hljómsveit Jakobs Jónssonar og Frugg áður en hann sneri sér að kórstjórnun en hann hefur jafnframt stjórnað kórum eins og Barna- og stúlknakór Hlíðaskóla, kór Verzlunarskólans, Samkór Selfoss, Árnesingakórnum og karlakórnum Þröstum.

Jón Páll Bjarnason gítarleikari hefði einnig átt afmæli í dag en hann lést 2015. Hann fæddist á Seyðisfirði 1938 en fluttist síðar til höfuðborgarsvæðisins, lærði á ýmis hljóðfæri en gítarinn varð að lokum hans aðal hljóðfæri. Hann lék með ýmsum hljómsveitum s.s. KK sextett, Hljómsveit Andrésar Ingólfssonar, Hljómsveit Björns R. Einarssonar og Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar áður en hann söðlaði um, fór til Svíþjóðar og síðar Bandaríkjanna þar sem hann starfaði um árabil. Jón Páll flutti heim aftur um aldamótin, gaf út sólóplötu og aðra í félagi við Ólaf Gauk en hefur að auki leikið inn á tugi platna.

Og að síðustu er hér nefndur Sigurjón Samúelsson (1936-2017) frá Hrafnabjörgum við Ísafjarðardjúp en hann var mikilvirkur plötusafnari og þekktur sem slíkur. Hann átti að öllum líkindum stærsta plötusafn í einkaeigu hér á landi og safnaði nánast öllu sem hafði komið hér út, hann stóð einnig fyrir endurútgáfu á sjaldgæfu efni sem hann yfirfærði af 78 snúninga plötum yfir á geisladiska.

Vissir þú að trommuleikarinn Gunnar Jökull Hákonarson var harmonikkuleikari í fyrstu hljómsveitinni sinni?