Jón Páll Bjarnason (1938-2015)

RJF2009

Jón Páll Bjarnason

Djassgítaristinn Jón Páll Bjarnason telst með virtustu gítarleikurum íslenskrar djasssögu, hann kom víða við í tónlistarsköpun sinni og leitaði alla tíð eftir að bæta við sig þekkingu.

Jón Páll fæddist austur á Seyðisfirði 1938 en flutti ungur til Reykjavíkur ásamt fjölskyldu sinni. Hann fékk snemma áhuga á tónlist og þá sérstaklega djasstónlist, hann lærði á og prófaði sig áfram með ýmis hljóðfæri sem barn s.s. harmonikku, píanó, selló, trommur og víbrafón en tólf ára gamall hóf hann að læra á gítar. Víbrafónninn var aðal hljóðfæri Jóns Páls í byrjun en líkast til lék hann þó á gítar þegar hann lék í sinni fyrstu hljómsveit sem hann starfrækti ásamt Árna Scheving og Guðmundi Steinssyni en sú sveit lék einkum á skólaskemmtunum og dansæfingum. Sagan segir að útvarpstækið á heimili fjölskyldu Jóns Páls hafi verið notað sem gítarmagnari á þeim böllum.

Þar með var hljómsveitaferill Jóns Páls hafinn en hann var alla tíð fyrst og fremst djassgítarleikari, hann lék með ógrynni atvinnuhljómsveita í kjölfar sveitar Árna Scheving. Fyrsta skal nefna Hljómsveit Svavars Gests 1955 en Jón Páll var þá aðeins sautján ára, ári síðan var hann genginn til liðs við Tríó Gunnars Reynis Sveinssonar en með þeirri sveit lék hann inn á fyrstu plöturnar, með Hauki Morthens og einnig á tveimur plötum Skapta Ólafssonar sem söng lögin Allt á floti og Ó nema ég, sem fyrir löngu síðan hafa orðið sígild.

Jón Páll stofnaði eigin sveit 1957 en gafst fljótlega upp á að reyna að tjónka við hljóðfæraleikarana sem áttu erfitt með að hafa stjórn á drykkjunni, það varð því úr að Andrés Ingólfsson einn meðlima sveitarinnar tók við og var sveitin eftir það kennd við Andrés. Jón Páll gekk síðan til liðs við KK-sextett 1958 þar sem hann kynntist fyrstu eiginkonu sinni, Ellyju Vilhjálms. Hann starfaði með KK til 1960, var einnig um tíma í Rómeó kvartettnum en gekk síðan í Hljómsveit Kristjáns Magnússonar sem hann var í um tveggja ára skeið en þá stofnaði Jón Páll aftur eigin sveit sem hann starfrækti til 1964. Þá fór hann til Danmerkur til að freista gæfunnar og í kjölfarið skildu þau Elly en þau höfðu þá verið gift í þrjú ár, það var fyrsta hjónaband hans af þremur.

Jón Páll Bjarnason1

Jón Páll

Í Danmörku lék Jón Páll með þarlendri hljómsveit sem fór víða, m.a. til Þýskalands. Hann mun einnig hafa leikið með Neo-tríóinu sem þá starfaði í Danmörku en 1967 kom hann aftur heim til Íslands þar sem hann bjó og starfaði í tvö ár áður en útlöndin kölluðu á hann aftur en í það skiptið var það Svíþjóð. Á árunum 1967-69 lék hann t.a.m. með Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar á Hótel Sögu auk þess að vera með eigið band.

Segja má að Jón Páll hafi verið í Svíþjóð allt til ársins 1981, utan þess að hann kom heim veturinn 1972-73 og starfrækti eigin sveit á Hótel Loftleiðum, þá lék hann einnig með hljómsveitinni Jazzmiðlum. Í Svíþjóð lék hann með ýmsum hljómsveitum auk þess að fást við kennslu en Jón Páll hafði lokið kennaraprófi hér heima, reyndar hafði hann einnig lokið loftskeytaprófi en hann starfaði aldrei við það.

1981 kom Jón Páll heim og bjó hér í um tvö ár, það ár lék hann með Kvartett Péturs Östlund.

1983 voru það Bandaríkin en Jón Páll hélt þá til Los Angeles þar sem hann nam djassgítarleik við Guitar Institute of technology. Hann bjó vestanhafs til aldamóta, starfaði og lék með ýmsum hljómsveitum, m.a. stórsveit Buddy Rich og Scotty Young Quartet sem hann lék reyndar með inn á plötu 1988. Hann virðist hafa verið hér á landi eitthvað á árunum 1987 og 88 þar sem hann kemur við sögu á tveimur plötum sem þá komu út.

Í Los Angeles gaf Jón Páll út plötuna Ice 1990 en þá plötu vann hann með nokkrum bandarískum djasstónlistarmönnum, Ice hafði að geyma blöndu frumsamins efnis eftir Jón Pál og standarda. Platan barst seint og illa hingað til lands en rataði þó inn á DV, þar sem hún hlaut mjög góða dóma gagnrýnanda blaðsins.

Jón Páll lifði og bjó í Kópavoginum eftir að hann fluttist heim frá Bandaríkjunum árið 2000, en hann fékkst nokkuð við gítarkennslu bæði við Tónlistarskóla FÍH og uppi á Akranesi.

Eftir að Jón Páll kom heim átti hann eftir að spila með mörgum hljómsveitum þrátt fyrir að vera kominn á sjötugsaldur, hann lék m.a. með  JP3, Útlendingahersveitinni og Furstunum en allar sveitirnar gáfu út plötur. Hann lék ennfremur með Steinunum, Djasshljómsveit Ragnheiðar Gröndal og Tríói Árna Scheving.

Jón Páll lék aukinheldur inn á um annan tug platna eftir að hann flutti heim frá Bandaríkjunum, þá síðustu 2012 en það var plata sem hafði að geyma upptökur frá minningartónleikum um Ellyju Vilhjálms fyrstu eiginkonu Jóns Páls. Einnig má nefna plötur með Ragnari Bjarnasyni, Bjarna Ara, Ragnheiði Gröndal, Diddú og Sigurði Flosasyni svo dæmi séu tekin. Þá er ótalin platan 2 jazz gítarar sem hann vann og gaf út ásamt öðrum gítarsnillingi, Ólafi Gauki Þórhallssyni 2002.

Á sjötta og sjöunda áratugnum hafði hann leikið einnig m.a. á plötum Óðins Valdimarssonar, Ellyjar Vilhjálms, Erlu Þorsteins og Ingibjörgu Smith, auk annarra platna sem nefndar hafa verið hér að ofan.

Jón Páll var ekki einungis tónlistarmaður og -kennari sem kom víða við á ferli sínum meðal hljómsveita og á plötum heldur átti hann líka stóran þátt í að breiða út og kynna djasstónlistina hér á landi ásamt fleirum. Hann var m.a. einn þeirra sem kom að stofnun Jazzklúbbs Reykjavíkur og var formaður klúbbsins um tíma, og telst þ.a.l. meðal frumkvöðla í íslenskri djasssögu.

Jón Páll lést sumarið 2015 og þar með var fallinn einn af forvígismönnum íslenskrar djasstónlistarsögu.

Efni á plötum