Afmælisbörn 15. febrúar 2024

Bergþóra Árnadóttir

Í dag eru afmælisbörnin fimm talsins á skrá Glatkistunnar:

Hörður Bragason organisti er sextíu og fimm ára gamall á þessum degi. Þó að hann sé fyrst og fremst þekktur í dag sem organisti og undirleikari lék hann með ýmsum þekktum og óþekktum hljómsveitum á árum áður. Þeirra á meðal má nefna orgelkvartettinn Apparat, Bruna BB, Amon Ra, Lucifer, Júpíters, Hljómsveit Ellu Magg, Oxsmá og Þvag en hann hefur einnig verið hluti af Caput hópnum. Hörður gaf á sínum tíma út jólasnælduna Nýmjól og má geta þess að hann er faðir Steinunnar eldflaugar (Dj flugvélar og geimskip).

Söngkonan og fiðluleikarinn Elísabet Ormslev á þrjátíu og eins árs afmæli í dag. Elísabet, sem á ekki langt að sækja sönghæfileikana enda dóttir Helgu Möller, hefur vakið mikla athygli hin síðustu ár – fyrst í söngvarakeppninni The Voice og undankeppni Eurovision söngvakeppninnar en síðan þá hefur hún skapað sér heilmikið nafn, sungið með hljómsveitum eins og Albatross og komið við sögu á fjölmörgum plötum.

Fríða Dís Guðmundsdóttir söngkona úr Sandgerði er þrjátíu og sjö ára gömul í dag. Hún er kunnust sem söngkona Klassart sem hefur gefið út nokkrar plötur en hún á einnig að baki sólóplötur og nokkrar smáskífur í eigin nafni. Þá hefur Fríða Dís sungið á nokkrum plötum annarra listamanna, þar má nefna Elda, Matta Óla, Baggalút, Jónas Sig og Íkorna.

Steinunn Bjarnadóttir (Steinka Bjarna) söng- og leikkona (f. 1923) hefði átt afmæli á þessum degi en hún lést 1994. Steinunn er þekktust í seinni tíð fyrir Stuðmanna framlag sitt en hún söng lagið Strax í dag, sem kom út á plötunni Sumar á Sýrlandi. Hún gaf sjálf út plötu þar sem Stuðmenn koma heldur betur við sögu, og náðu nokkur laganna nokkrum vinsældum, þar er t.d. að finn lagið Hunang, viltu giftast mér? sem er íslensk útgáfa á Stuðmannalaginu Honey will you marry me?  Steinunn lærði leiklist í London og bjó þar um tíma, hýsti þá fjölmarga íslenska tónlistarmenn sem áttu leið hjá.

Bergþóra Árnadóttir (1948-2007) átti einnig þennan afmælisdag, hún var þekkt vísnasöngkona og trúbador, starfaði með Vísnavinum, Graham Smith og Heimavarnarliðinu auk margra annarra. Bergþóra hóf snemma að semja lög við ljóð þekktra skálda og gaf út nokkrar plötur sem nutu vinsælda. Hún mætti miklu mótlæti oft á tíðum á lífsleiðinni, slys og önnur áföll og síðast veikindi sem drógu hana að lokum til dauða. Vinir hennar og velunnarar hafa verið duglegir við að halda minningu hennar á lofti með tónleikahaldi og plötuútgáfu á síðustu árum.

Vissir þú að Hebbi heitir fullu nafni Herbert Þorvarður Guðmundsson?