Bergþóra Árnadóttir (1948-2007)

Bergþóra Árnadóttir 1964

Bergþóra Árnadóttir vísnasöngkona og trúbador er án nokkurs vafa ein þekktasta tónlistarkona sinnar tegundar í íslenskri tónlistarsögu og ruddi brautina fyrir aðrar slíkar sem á eftir komu s.s. Önnu Pálínu Árnadóttur, Gullý Hönnu Ragnarsdóttur o.fl. en fjölmargar plötur liggja eftir hana.

Bergþóra (f. 1948) ólst upp í Hveragerði og þar hófst tónlistarferill hennar. Hún fékk snemma áhuga á vísnasöng og byrjaði að semja lög við ljóð þekktra íslenskra skálda, einkum Steins Steinarr. Hún mun hafa samið sitt fyrsta lag aðeins sex ára gömul og var það lag flutt í útvarpi á sínum tíma, þó ekki af henni sjálfri. Sjálf kom hún fyrst fram opinberlega með eigið efni nítján ára gömul árið 1967 og öðlaðist heilmikla reynslu á  sviði á árunum upp úr 1970, t.d. kom hún fram í kvöldkabarett ásamt Hljómsveit Ólafs Gauks og fleirum.

Árið 1975 tók Bergþóra upp tvö lög sem rötuðu árið eftir á safnplötuna Hrif 2. Hún átti þátt í stofnun félagsskaparins Vísnavina ásamt öðrum 1976 og það sama ár hóf hún upptökur undir stjórn Baldurs Más Arngrímssonar í Hljóðrita í Hafnarfirði, á fyrstu plötu sinni sem kom síðan út hjá Fálkanum 1977 og bar heitið Eintak.

Á plötunni var að finna lög Bergþóru við ljóð þekktra skálda en hún átti reyndar sjálf einn texta, Sólarlag, sem skráður er á plötuumslagi undir dulnefni. Eintak hlaut almennt ágætar viðtökur og hún fékk t.a.m. þokkalega dóma í Poppbók Jens Kr. Guðmundssonar og í Dagblaðinu. Lagið Verkamaður naut strax nokkurra vinsælda og hefur síðan verið eitt helsta vörumerki Bergþóru.

Í Vísnavinum starfrækti hún tríóið Tríó túkall ásamt Aðalsteini Ásberg Sigurðssyni og Gísla Helgasyni og komu þau fram víðs vegar um landið og fluttu tónlist, m.a. lög Bergþóru við ljóð Aðalsteins Ásbergs, einnig starfaði hún með hljómsveit sem kallaði sig Aldrei aftur og hafði á að skipa einhverja Vísnavini einnig.

1979 kom út lag eftir hana á Heimavarnarliðsplötunni Eitt verð ég að segja þér, í flutningi hennar sjálfrar, einnig gáfu Vísnavinir út þrjár snældur á árunum 1980-81 en auk þeirra þriggja Vísnavina sem þegar hafa verið nefndir má nefna Bubba Morthens, Hjördísi Bergsdóttur, Önnu Pálínu Jónsdóttur og marga fleiri.

Bergþóra árið 1973

1980 starfaði Bergþóra aukinheldur með hljómsveitinni Lögbanni en sveitin innihélt auk hennar Árna Björnsson bassaleikara, Árna Ísberg trommuleikara, Ólaf Ragnarsson söngvara og gítarleikara, Ríkharð Friðriksson gítar- og mandólínleikara og Kristófer Mána hljómborðsleikara.

Árið 1981 hafði Tríó túkall sameinast Texas tríóinu (öðru tríói innan Vísnavina sem hafði að geyma þá Eyjólf Kristjánsson, Inga Gunnar Jóhannsson og Örvar Aðalsteinsson) í hljómsveitina Hálft í hvoru. Þau Bergþóra, Eyjólfur, Gísli og Aðalsteinn stigu reyndar örlítið hliðarspor og gáfu út litla tveggja laga jólaplötu fyrir jólin 1981, hún bar heitið Jólasteinn. Hálft í hvoru gaf síðan út plötu vorið 1982 og naut sveitin nokkurra vinsælda einkum meðal vísnatónlistaráhugafólks.

Sumarið 1982 var Bergþóra síðan rekin úr Hálfu í hvoru eftir tónleikaferð um Svíþjóð en tónlistarlegur ágreiningur hafði reyndar sett svip sinn á sveitina um nokkurt skeið. Hún gat því einbeitt sér nokkuð að gerð annarrar sólóplötu sinnar, Bergmáls sem var unnin á vormánuðum 1982 hjá Labba í Glóru en hún kom síðan út um haustið, Gísli Helgason stjórnaði upptökum á þeirri plötu ásamt Helga E. Kristjánssyni. Á henni má m.a. heyra í ungri söngkonu, Björk Guðmundsdóttur sem söng raddir, sem var í sveit í Glóru en einnig spilaði Sigrún Eðvaldsdóttir, þá ungur fiðluleikari, inn á plötuna. Bergmál var gefin út af útgáfufyrirtækinu ÞOR sem Bergþóra stofnaði ásamt Þorvaldi Inga Jónssyni þáverandi eiginmanni sínum. Platan fékk prýðilega dóma í tímaritinu Samúel og ágæta í Poppbók Jens Guðmundssonar.

Bergþóra hafði sent lagið Sýnir í Söngvakeppni Sjónvarpsins [1] 1981 (sem Pálmi Gunnarsson sigraði með laginu Af litlum neista) og komst það í úrslit þeirrar keppni. Einnig átti Bergþóra lag á annarri plötu Heimavarnarliðsins, Hvað tefur þig bróðir?, sem kom út 1982. Hún var því nokkuð dugleg að koma sér á framfæri og var orðin allþekkt í íslensku tónlistarlífi. Bergþóra var ennfremur harður herstöðvarandstæðingur og kom líka að stofnun SATT þannig að hún lét sér ýmis réttindamál miklu skipta.

Bergþóra Árnadóttir

Eftir að Bergmál kom út sneri Bergþóra sér alfarið að tónlist og einbeitti sér að henni. Vorið eftir (1983) hélt hún sína fyrstu árlegu tónleika á sumardaginn fyrsta en þeir áttu eftir að verða hefð hjá henni. Hún fór fljótlega að vinna að þriðju plötu sinni og naut þar aðstoðar m.a. Tryggva Hübner og Pálma Gunnarssonar en platan var tekin upp um sumarið í hljóðverinu Nema í Glóru eins og Bergmál, upptökumenn voru Ólafur Þórarinsson (Labbi) og Helgi E. Kristjánsson. Hún hlaut nafnið Afturhvarf og voru flest laganna ort við ljóð Steins Steinarr. Afturhvarf hlaut þokkalega dóma í tímaritinu Samúel og ágæta í Poppbókinni eftir Jens Kr. Guðmundsson. Um þetta leyti söng hún einnig eigið lag á plötu Bjarna Hjartarsonar, Við sem heima sitjum.

Síðla árs 1983 hóf hún að vinna barnaplötu með Aðalsteini Ásberg og Geir-Atle Johnsen (norskum tónlistarmanni) sem hlaut nafnið Ævintýrið úr Nykurtjörn en upphaflega var hugmynd þeirra að vinna sjónvarpsefni fyrir börn úr efninu. Platan kom út ári síðar ásamt bók en stóð reyndar aldrei undir kostnaði.

Árið 1984 hóf Bergþóra að vinna með Graham Smith fiðluleikara að sinni næstu plötu. Platan var síðan tekin upp vorið 1985 undir stjórn Graham Smith, Jóns Gústafssonar og Tryggva Hübner í hljóðverunum Mjöt og Geimsteini og kom út um sumarið. Platan fékk þokkalega dóma í DV en annars fékk hún fremur slaka dóma. Þetta sumar tók hún einnig þátt í norrænni tónlistarhátíð, Vísland ´85 á Laugarvatni og um haustið fór Bergþóra í tónleikaferð um landið ásamt Norðmanninum Ola Nordskar.

Næsta haust 1986, kom snældan Skólaljóð út en hún hafði að geyma ljóð þjóðþekktra skálda við lög Bergþóru, á annarri hlið snældunnar var að heyra lögin með söng en instrumental útgáfur á hinni hliðinni. Tilgangurinn með útgáfu hennar var að hjálpa börnum að læra ljóð. Tónlistin var tekin upp í hljóðverinu Mjöt en þótti misheppnuð svo ekki var ráðist í frekari útgáfu af þessu tagi þótt það hefði verið ætlunin í upphafi. Þetta sama haust fór hún aftur í tónleikaferð um landið, nú með þeim Aðalsteini Ásberg Sigurðssyni og Henrik Huldén, finnskum vísnasöngvara. Að auki var eitt lag með henni að finna á fjórðu útgáfu Vísnavina, Að vísu…. Á þeim tíma komst lag frá henni í fimm laga úrslit í samkeppni sem haldin var í tilefni 200 ára afmælis Reykjavíkurborgar.

Bergþóra ásamt Graham Smith

Vorið 1987 fór Bergþóra í hljóðver Sigurðar Rúnars Jónssonar (Didda fiðlu) og hélt þar tónleika sem hugsaðir voru fyrst og fremst sem efni fyrir sjónvarpsþátt en Ríkissjónvarpið tók þá upp, alls voru tekin upp 22 lög, öll eftir Bergþóru, en ekki voru þau öll sýnd í þættinum. Ellefu laganna voru síðan valin á næstu plötu Bergþóru, Í seinna lagi, en á geislaplötuútgáfu plötunnar var pláss fyrir fjögur lög til viðbótar, en þetta var á upphafsdögum geislaplötuútgáfu á Íslandi. Platan fékk ágætar viðtökur.

Bergþóra hafði þegar hér var komið sögu ákveðið að söðla um og flytjast til Torslev í Danmerkur en hún hafði öðru hvoru farið utan til tónleikahalds. Fljótlega fór þó halla undan fæti hjá henni í hinu nýja landi, hún varð fyrir því að ekið var á hana vorið 1988 og var hún nokkuð lengi frá tónlistariðkun vegna meiðsla á handlegg. Síðar um haustið var hún þó farin að spila á nýjan leik aftur.

Árin 1989 og 1990 sendi Bergþóra lög í undankeppni Eurovision hér heima en Íslendingar höfðu fyrst tekið þátt 1986, bæði árin komust lög eftir hana í úrslit en ekki sigraði hún þó, fyrra árið hafði hún einnig komist í úrslit Landslagsins með lagið Fugl í búri, og kom það út á plötunni Landslagið: Sönglagakeppni Íslands ´89. Annars sendi hún ekki mikið af efni frá sér á þessum árum. Hún frumflutti þó nýtt lag í sjónvarpi hér heima 1991.

1993 dundu áföllin á henni hvert af öðru, fyrst þegar tengdasonur hennar framdi sjálfsvíg en Bergþóra var þá í sambúð með dönskum útvarpsstjóra, hún hafði skilið áður en hún fór til Danmerkur. Faðir hennar lést síðan síðsumars en hann hafði flust til Danmerkur og bjó í næsta nágrenni við Bergþóru og stuttu eftir það lenti Bergþóra síðan sjálf í alvarlegu umferðarslysi og slasaðist mikið. Það fór því lítið fyrir henni á tónlistarsviðinu næstu misserin.

Safnplata með lögum Bergþóru kom út 1998 í tilefni af fimmtíu ára afmælis hennar, á henni var að finna lög sem hún hafði sent frá sér á árunum 1977-87 en einnig var eitt nýtt lag á plötunni.

Bergþóra á tónleikum

Þótt Bergþóra hefði haft hægt um sig síðustu árin kom hún heim til Íslands 1999 og fór í tónleikaferð um landið, þá ferð hóf hún í Norræna húsinu en með henni spiluðu móðir hennar og tvö barna hennar. Í framhaldinu fór hún hringinn í kringum landið á puttanum undir yfirskriftinni Skref fyrir skref og vakti að vonum nokkra athygli fyrir tiltækið. Þótt lítið hefði farið fyrir henni á tónlistarsviðinu vann hún eitthvað að því að semja tónlist, lög hennar komu út á plötum erlendra listamanna og 2004 lenti Bergþóra í öðru sæti danskrar lagasamkeppni sem haldin var í tilefni af brúðkaupi Friðriks prins.

Árið 2005 greindist Bergþóra með krabbamein í lunga en hún kaus strax í upphafi að neita öllum hefðbundnum læknismeðferðum. Það sama ár tók hún upp sitt síðasta lag, Þjóðarblómið. Bergþóra lést snemma árs 2007 af veikindum sínum. Hún hafði þá gefið út sex plötur, auk safnplötu og plötur með hljómsveitum sínum, leikið mikið opinberlega og verið dugleg að ljá ýmsum réttindamálum baráttu sína. Hún er ennfremur ein fárra kvenna á Íslandi sem lagt hefur fyrir sig trúbadora- og vísnasöngstónlist, og hlaut fyrir það vinsældir og virðingu.

Vinir Bergþóru og ættingjar hafa verið duglegir að halda minningu hennar á lofti og var m.a. stofnaður sjóður í minningu hennar. Ennfremur voru haldnir vel sóttir minningartónleikar um hana og 2008 kom út platan Sýnir sem hafði að geyma lög hennar í flutningi nokkurra af þekktustu listamönnum þjóðarinnar.

Veglegt safn, Heildarútgáfa kom einnig út hjá Dimmu 2008 og hafði að geyma fimm plötur auk 64 síðna bókar um feril hennar, auk texta.  Á fyrstu plötunni er að finna plötuna Eintak (1977) auk laga úr sjónvarpsþætti frá 1976, af safnplötunni Hrif 2, plötu Heimavarnarliðsins (Eitt verð ég að segja þér), Vísnavina (Heyrðu) o.fl. Önnur platan hefur að geyma Bergmál (1982) og nokkur lög Hálft í hvoru af Almannarómi og af tónleikum. Á þriðju plötunni eru lögin af Afturhvarfi (1983) auk aukalaga af Ævintýri úr Nykurtjörn, Skólaljóðum o.fl. Fjórða platan innihélt Í seinna lagi auk laga úr ýmsum áttum og fimmta og síðasta platan, Skref fyrir skref hefur að geyma átján lög frá árunum 1985-2005, m.a. af plötunni Það vorar, sem hún vann með Graham Smith. Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson hafði veg og vanda af útgáfu heildarsafnsins, sem fékk m.a. mjög góða dóma í Fréttablaðinu.

Önnur safnplata kom út á vegum Dimmu árið 2011, tuttugu og tveggja laga plata sem bar heitið Bergþóra Árnadóttir Bezt.

Lög Bergþóru hafa komið út á nokkrum safnplötum í gegnum tíðina og má þar nefna Óskalögin 4 (2000), Steinn Steinarr: Aldarminning (2008), Baráttusöngvar fyrir friði og þjóðfrelsi (1999), Aldarminning: Davíð Stefánsson (1995), SATT 1 (1984), Stelpurnar okkar, annar hluti (1998), Stelpurokk (1997) og Norden synger viser (Visum fra Norden (1990).

Efni á plötum