Afmælisbörn 21. febrúar 2024

Þuríður Jónsdóttir

Þrjú afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar að þessu sinni:

Magnús Kjartan Eyjólfsson fagnar fjörutíu og eins árs afmæli sínu á þessum degi en hann er líklega þekktastur sem brekkusöngvari og trúbador, Magnús Kjartan hefur einnig verið söngvari og gítarleikari Stuðlabandsins og starfað með hljómsveitum eins og Oxford, Moðhaus, Lokbrá, Kántrýsveitinni Klaufum og fleiri sveitum.

Arnþór Kristján Jóhannes Jónsson (Addi rokk f. 1933) hefði átt afmæli í dag en hann lést 2019. Þessi skrautlegi tónlistarmaður og áhugaleikari kom víða við á ferli sínum, hann var Elvis eftirherma og starfrækti Tónatríóið og Tónabræður í mörg ár auk þess að vera í sveitum eins og Jónsbörnum, Como og Ómum. Margir muna eftir kappanum þegar hann birtist með Stuðmönnum í kringum Látúnsbarkakeppnina á níunda áratugnum, og svo aftur þegar umhverfisherferðin Græni herinn stóð sem hæst um aldamótin.

Þá hefði söngkonan Didda Jóns, Þuríður Jónsdóttir einnig átt þennan afmælisdag en hún lést árið 2019. Didda (fædd 1935) kom upphaflega úr Þingeyjarsýslu þar sem hún söng með Leiksystrum en sunnan heiða söng hún með ýmsum danshljómsveitum eins og Hljómsveit Óskars Guðmundssonar, Junior kvintett, Hljómsveit Aage Lorange og Hljómsveit Stefáns Þorleifssonar áður en hún fluttist vestur um haf en hún bjó í Bandaríkjunum til æviloka.

Vissir þú að þegar plötunni Rimlarokk með hljómsveitinni Fjötrum var fylgt eftir með tónleikahaldi var nánast enginn úr sveitinni þar á meðal – þeir sátu allir inni.