Didda Jóns (1935-2019)

Þuríður Jónsdóttir (Didda Jóns)

Þuríður Jónsdóttir (iðulega auglýst undir nafninu Didda Jóns eða Didda Jónsdóttir) var söngkona sem kom fram á sjónarsviðið á sjötta áratug síðustu aldar, hún þótti ein allra efnilegasta dægurlagasöngkona sem þá starfaði og var aukinheldur meðal þeirra fyrstu hér á landi.

Didda fæddist árið 1935 í Reykjahverfi í Suður-Þingeyjarsýslu en fluttist ung suður til Reykjavíkur, þar kom hún stundum fram og söng ásamt Ragnheiði systur sinni undir nafninu Leiksystur en þær systur höfðu starfað með samnefndum sönghópi á Húsavík, sungið víða um norðanvert landið en voru þar sex talsins.

Didda söng og kom fram með ýmsum hljómsveitum á sjötta áratug síðustu aldar og var töluvert áberandi í reykvísku skemmtanalífi um tíma, hún söng til dæmis með Hljómsveit Óskars Guðmundssonar 1957, Junior kvintett sama ár ásamt Hauki Morthens og fleirum, og Hljómsveit Aage Lorange 1958. Ári síðar söng hún svo með Hljómsveit Stefáns Þorleifssonar. Hljómsveit Stefán lék mikið á Keflavíkurflugvelli og birtist sveitin því oft í Kanasjónvarpinu svokallaða.

Svo fór að Didda hvarf af sjónarsviðinu hér heima því hún flutti til San Fransisco í Bandaríkjunum árið 1962 og bjó þar á vesturströndinni það sem eftir var ævinnar. Hún tók upp nafnið Didda Hill þegar hún giftist síðari eiginmanni sínum en hún var tvígift.

Didda Hill og Larry Hagman

Í Bandaríkjunum reyndi hún fyrir sér í söng til að byrja með ágætum árangri en hætti því fljótlega vegna anna í vinnu, síðar rak hún tískuvöruverslun og enn síðar fékkst hún við fasteignasölu o.fl. Hún kom reglulega heim til Íslands í heimsóknir en hafði alltaf fasta búsetu á vesturströnd Bandaríkjanna.

Didda fékk heilablóðfall árið 2014, jafnaði sig aldrei eftir það áfall og þurfti að nota hjólastól síðustu árin, hún lést á hjúkrunarheimili í Palm Springs í Kaliforníu snemma árs 2019.