Didda Jóns (um 1930-)

Leiksystur 1957

Didda var önnur Leiksystra 1957, líklega þessi til vinstri

Ráðgátan um Diddu Jónsdóttur hefur ekki verið leyst en e.t.v. geta lesendur þessarar vefsíðu hjálpað til við að fylla upp í eyðurnar.

Didda Jónsdóttir (iðulega auglýst undir nafninu Didda Jóns) var söngkona sem kom fram á sjónarsviðið á sjötta áratug síðustu aldar, hún þótt ein allra efnilegasta dægurlagasöngkona sem þá starfaði og var aukinheldur meðal þeirra fyrstu. Ekki liggur fyrir hvert raunverulegt nafn hennar var og því er erfitt að hafa uppi á fæðingardegi og uppvaxtarupplýsingum en hún hefur væntanlega verið fædd í kringum 1930.

Didda söng og kom fram með ýmsum hljómsveitum á sjötta áratug síðustu aldar og var töluvert áberandi í reykvísku skemmtanalífi um tíma, hún söng til dæmis með Hljómsveit Óskars Guðmundssonar 1957, Junior kvintett sama ár ásamt Hauki Morthens og fleirum, og Hljómsveit Aage Lorange 1958. Ári síðar söng hún svo með Hljómsveit Stefáns Þorleifssonar.

Didda söng einnig með Leiksystrum en það var sönghópur sem upphaflega starfaði norðan heiða á fyrri hluta sjötta áratugarins, annað hvort á Akureyri eða Húsavík, þær voru upphaflega sex en eftir að þær fóru að koma fram á höfuðborgarsvæðinu voru þær lengst af tvær, Didda var önnur þeirra.

Didda Jónsdóttir Hill ásamt Larry Hagman

Þessi mynd birtist í Morgunblaðinu vorið 1984 af Diddu Hill ásamt Larry Hagman, líklega er um sömu Diddu að ræða

Didda hvarf af sjónasviðinu á sjötta áratugnum og eftirfarandi eru einungis getgátur sem einhverjir gætu hugsanlega fyllt upp í eða leiðrétt. Hún söng með Hljómsveit Stefáns Þorleifssonar sem fyrr segir, en sú hljómsveit lék einkum á Keflavíkurflugvelli á dansleikjum bandarískra hermanna, Didda kom því oft fyrir í Kanasjónvarpinu svonefnda og var nokkuð þekkt þar syðra. Því er getum leitt að því að hún hafi kynnst amerískum hermanni á vellinum, flust með honum til Bandaríkjanna og sest þar að undir nafninu Didda Hill.

Allar ábendingar og viðbætur varðandi Diddu Jóns væru vel þegnar.