Fjötrar (1982-83)

Fjötrar

Hljómsveitin Fjötrar vakti mikla athygli haustið 1982 þegar plata með henni kom út en sveitin hafði þá sérstöðu að hana skipuðu að mestu fangar af Litla Hrauni. Heilmikil umræða átti sér stað í samfélaginu í kjölfar útgáfunnar og þar kom tónlistin sjálf lítið við sögu en þeim háværari var umræðan um hvort fangar ættu yfirleitt rétt á að „leika sér“ innan múranna.

Það voru þeir Ásgeir Hannes Eiríksson og Björn Einarsson hjá Vernd sem voru upphafsmenn að þessu verkefni en hljómsveitin var í raun ekki til fyrr en þeir komu því af stað haustið 1982. Meðlimir sveitarinnar sem hlaut hið viðeigandi nafn Fjötrar voru þeir Halldór Fannar Ellertsson hljómborðsleikari sem hafði áður leikið með Röðlum, Roof tops og fleiri sveitum, Sævar Marinó Ciesielski gítarleikari, Sigurður Pálsson bassaleikari og Rúnar Þór Pétursson trommuleikari sem hafði leikið með mörgum sveitum á þessum tíma og gaf síðar út fjölda sólóplatna. Sá síðast taldi var ekki fangi eins og hinir en hann hafði verið fenginn í verkefnið af þeim Ásgeiri Hannesi og Birni, reyndar eftir að nokkrir aðrir höfðu afþakkað boðið því menn voru ekki tilbúnir að leggja nafn sitt við þetta. Ívar Steindórsson bassaleikari kom einnig við sögu Fjötra en hann leysti Sigurð af um tíma.

Fjötrar höfðu um tvær vikur til að æfa og undirbúa sig fyrir plötuupptökurnar og þegar kom að þeim voru það Halldór Fannar og Rúnar Þór sem báru hitann og þungann af tónlistarflutningnum, spiluðu inn nánast allan hljóðfæraleik, það var Ólafur Þórarinsson (Labbi í Mánum) í hljóðverinu Nema í Glóru sem sá um upptökurnar en þær fóru fram í september.

Fjötrar á æfingu

Tekin voru upp tólf lög og textar sem að langmestu leyti voru eftir Halldór Fannar og raunar mætti alveg segja að um sólóplötu hans væri að ræða, textarnir fjölluðu flestir um lífið innan rimlanna, vímuefnaneyslu og einmanaleika svo dæmi séu nefnd, og áttu eftir að skapa mikla umræðu.

Áhersla var lögð á að mest öll vinnan við plötuna færi fram innan veggja fangelsins og þannig var ljósmynda- og plötuumslagsvinnan unnin af föngum einnig. Þegar platan kom út undir titlinum Rimlarokk í október var haldinn blaðamannafundur á Litla Hrauni en það var í fyrsta sinn sem slíkt var gert og vakti það mikla athygli. Í kjölfarið spannst upp mikil umræða á lesendasíðum dagblaðanna (einkum Dagblaðsins Vísis) og sýndist sitt hverjum, sumir höfðu allt á hornum sér og töldu t.d. að fangar hefðu engan rétt til að tjá sig með þessum hætti, það væri beinlínis hættulegt og að þeir ættu ekki að fá þessa athygli á meðan aðrir tóku upp hanskann fyrir fangana, Halldór Fannar og Rúnar Þór voru meðal þeirra sem blönduðu sér í umræðuna á síðum DV. Málið varð þó alltént til að opna umræðuna í samfélaginu um fangelsismál á Íslandi og um aðbúnað fanga og umburðarlyndi gagnvart ógæfumönnum en sú umræða hafði ekki verið til staðar áður. Þess má geta að platan fór sérstaklega fyrir fund útvarpsráðs, hvort leyfa ætti spilun á lögum hennar í útvarpinu – niðurstaðan á þeim fundi varð sú að hver og einn dagskrárgerðarmaður ákveddi sig sjálfur og að það færi eftir gæðum og vinsældum hennar rétt eins og með aðrar plötur. Þrátt fyrir að platan yrði ekki bönnuð fékk hún litla spilun hjá Ríkisútvarpinu, eitt ár var þarna ennþá í að útvarpsrekstur yrði gefinn frjáls og Rás 2 yrði að veruleika.

Rimlarokk var tileinkuð Helga Gunnarssyni forstöðumanni Litla Hrauns og föngunum í fangelsinu en tvö þúsund eintök á vínyl- og kassettuformi voru framleidd af plötunni, ágóði af sölu hennar rann til Fangahjálpar. Hún fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu og þóttu lög og textar einkar frambærilegir, þokkalega í tímaritinu Samúel en fremur slaka í Poppbók Jens Kr. Guðmundssonar.

Fjötrar

Það kom svo í hlut Rúnars Þórs að annast kynningarherferð í tengslum við sölu og dreifingu á plötunni. Meðal annars hélt hann tónleika í Háskólabíói og Hótel Borg þar sem staðgenglar leystu fangana af hólmi, það voru þeir Helgi Kristjánsson bassaleikari, Ólafur Þórarinsson (Labbi) gítarleikari og Þórarinn Gíslason hljómborðsleikari sem skipuðu þá Fjötra-útgáfu auk Rúnars. Sú sveit lék einnig á tónleikum í Háskólabíói um svipað leyti, sem báru yfirskriftina Rokk gegn vímu. Reyndar höfðu hinir eiginlegu Fjötrar þá komið fram á einum tónleikum, það var innan veggja Litla Hrauns skömmu eftir blaðamannafundinn fræga, þar sem samfangar þeirra og nokkrir gestir að auki voru viðstaddir. Einnig flutti Rúnar tónlist Fjötra á skemmtistöðum, framhaldsskólum og félagsmiðstöðvum grunnskóla við undirleik segulbands og lék þá sjálfur á gítar og söng, t.a.m. í Hollywood og Óðal, hann rakst reyndar á veggi og t.d. voru einhver mótmæli innan veggja Verzlunarskóla Íslands þegar hann kom fram þar.

Það var alltaf vitað að Fjötrar myndu aldrei starfa utan veggja fangelsismúranna en Rúnar Þór stofnaði nýja sveit, Þriðju hæðina fljótlega á nýju ári (1983) – Halldór Fannar gekk til liðs við þá sveit þegar hann losnaði af Litla Hrauni um vorið en hún varð skammlíf. Halldór Fannar sendi síðar frá sér tvö lög á safnplötu SATT (1984) og Rúnar Þór hóf sólóferil og hefur síðan sent frá sér fjölda sólóplatna.

Efni á plötum