Heródes (1975-79)

Heródes frá Fáskrúðsfirði

Hljómsveitin Heródes frá Fáskrúðsfirði telst líklega hvorki til þekktustu sveita Austfjarða né landsins en sveitin var þó miðpunktur kostulegs hrepparígs milli Fáskrúðsfirðinga og Héraðsbúa á poppsíðum Dagblaðsins 1976 og 77 þar sem hverjum fannst sinn fugl fegurstur og aðrir ömurlegir, aðdáendur Heródesar og Völundar jusu þar ýmis lasti og lofi á sveitirnar svo úr varð frábær skemmtun fyrir lesendur blaðsins.

Heródes var stofnuð haustið 1975 og lék strax töluvert á dansleikjum í austfirskum félagsheimilum og gerði alla tíð. Vorið 1976 var sveitin skipuð þeim Sigurði A. Péturssyni söngvara, Garðari Harðarsyni gítarleikara, Lúðvík Svani Daníelssyni gítarleikara, Jóhannesi Marteini Péturssyni bassaleikara og Þórarni Óðinssyni trommuleikara, einn þeirra hafði þá nýverið gengið til liðs við hina fjóra en ekki liggur fyrir hver sá var.

Vorið 1977 hætti Garðar gítarleikari í Heródes og tók Ævar Ingi Agnarsson sæti hans en hann hafði áður verið rótari sveitarinnar. Fleiri breytingar urðu á sveitinni, Friðmar Pétursson gekk til liðs við hana um haustið 1977 og árið 1978 voru þeir Jóhannes, Sigurður, Ævar og Friðmar liðsmenn hennar auk Kjartans Ólafssonar en þeir síðast töldu höfðu þá augljóslega leyst Þórarin trommuleikara og Lúðvík gítarleikara af hólmi.

Heródes mun hafa verið starfandi til 1979 en árið 1980 varð til ný sveit upp úr henni og Orfeus sem þá hlaut nafnið Standard en varð síðar þekkt undir nafninu Egla. Sveitin var endurreist sumarið 2014 þegar hún kom fram á bæjarhátíðinni Frönskum dögum á Fáskrúðsfirði.