
Hinir
Vorið 2008 var hljómsveit meðal þátttökusveita í Músíktilraunum, sem bar nafnið Hinir og var líkast til úr Mosfellsbæ. Meðlimir sveitarinnar voru þau Sunna Margrét Þórisdóttir söngkona, Valbjörn Snær Lilliendahl söngvari og gítarleikari, Sveinn Pálsson hljómborðsleikari, Pétur Finnbogason trommuleikari, Gunnar Örn Freysson bassaleikari og Jón Birgir Eiríksson hljómborðsleikari. Hinir komust í úrslit keppninnar en hafði þar ekki erindi sem erfiði enda var hljómsveitin að keppa þar við sveitir eins og Agent fresco og Endless dark svo dæmi séu nefnd.
Hinir störfuðu áfram eftir Músíktilraunirnar þótt ekki færi mjög mikið fyrir sveitinni, hún lék þó á tónleikum víðs vegar um höfuðborgarsvæðið og m.a. á tónleikum Unglistar um haustið. Vorið 2009 hætti Gunnar Örn bassaleikari og tók Reynir Þorsteinsson sæti hans, hann var í Hinum í um eitt ár en hætti vorið 2010 og þá kom Atli Snær Ásmundsson inn í sveitina í hans stað. Þannig virðist sveitin hafa verið skipuð þar til hún hætti störfum, líklega árið 2011. Sumarið á undan höfðu Hinir verið nokkuð virkir á tónleikasviðinu, leikið m.a. bæði á Ljósanótt í Keflavík og Menningarnótt í miðbæ Reykjavíkur.














































