
Hljómsveit Grétars Örvarssonar 1985
Grétar Örvarsson tónlistarmaður sem yfirleitt er kenndur við þekktustu hljómsveit sína Stjórnina, starfrækti um nokkurra ára skeið hljómsveit í eigin nafni sem lék lengst af á Hótel Sögu en hann var aðeins 24 ára þegar hann stofnaði sveitina.
Hljómsveit Grétars Örvarssonar var stofnuð árið 1983 og var mjög fljótlega farin að leika í Átthagasal Hótel Sögu, hún átti eftir að vera viðloðandi hótelið næstu fjögur árin ásamt því að leika víðast hvar annars staðar utan þess s.s. á árshátíðum, þorrablótum og einkasamkvæmum, jafnvel lítils háttar á almennum dansleikjum m.a. á Broadway en einnig úti á landsbyggðinni t.d. í Keflavík og Akureyri – þá lék sveitin t.d. á bindindismótinu í Galtalæk um verslunarmannahelgina 1987. Ásamt því að leika í Átthagasalnum lék sveitin einnig stöku sinnum í Súlnasal Hótel Sögu þar sem hljómsveit Magnúsar Kjartanssonar lék yfirleitt en það var þá í afleysingum, árið 1987 hóf sveitin hins vegar að skiptast á um Súlnasalinn ásamt Magnúsi en þeir Magnús og Grétar voru þá skemmtanastjórar á Hótel Sögu.
Ekki er miklar upplýsingar að finna um skipan hljómsveitar Grétars framan af en líklega var hún fyrst um sinn kvartett, auk Grétars sem lék á hljómborð voru þeir Steingrímur Óli Sigurðsson trommuleikari og Gylfi Gunnarsson söngvari og gítarleikari í sveitinni hugsanlega frá upphafi en ekki liggur fyrir hver lék þá á bassa. Sveitin stækkaði og árið 1986 höfðu þeir Stefán S. Stefánsson saxófónleikari og Björn Thoroddsen gítarleikari bæst í hópinn og þá var hún sextett en Hilmar Jensson tók svo við af Birni, fljótlega hafði svo bassaleikarinn Eiður Arnarsson slegist í hópinn 1987 en sveitin var þá skipuð þeim Grétari, Gylfa, Steingrími, Hilmari og Eiði. Saxófónleikarinn Einar Bragi Bragason bættist svo í hópinn einnig og þar með var kominn grunnurinn að þeirri sveit sem síðar skipaði Stjórnina. Þannig skipuð sendi hljómsveitin frá sér lagið Viltu bregða þér í sveiflu? sem hlaut einhverja útvarpsspilun.

Hljómsveit Grétars Örvarssonar 1987
Um það leyti hafði Grétar orðið í hyggju að gera út á markað yngra fólks en það sem stundaði Súlnasal Hótel Sögu og Glaumberg í Keflavík þar sem sveitin var húshljómsveit í upphafi árs 1988, og ákvað Grétar því að stofna nýja hljómsveit. Hann tók Hilmar gítarleikara, Eið bassaleikara og Einar Braga saxófónleikara með sér í nýju sveitina og fékk einnig til liðs við sig Matthías M.D. Hemstock trommuleikara og Öldu Björk Ólafsdóttur söngkonu, sú sveit var stofnuð vorið 1988 og kallaðist hún Stjórnin og átti eftir að gera góða hluti sem kunnugt er.
Fyrst um sinn var hin nýja sveit jöfnum höndum kölluð Stjórnin og Hljómsveit Grétars Örvarssonar en smám saman varð Stjórnarnafnið ofan á, sömuleiðis má nefna að Stjórnin hefur einnig stundum verið nefnd Hljómsveit Grétar Örvars og Siggu Beinteins. Árið 2006 var reyndar á ferð hljómsveit sem gekk undir nafninu Hljómsveit Grétars Örvarssonar en hún lék líklega aðeins á einum dansleik þar sem Friðrik Ómar Hjörleifsson og Regína Ósk Óskarsdóttir sungu með sveitinni – ekki liggur fyrir hverjir skipuðu hljómsveitina þar auk Grétars.














































