
Hljómsveit Birgis Gunnlaugssonar 1975
Tónlistarmaðurinn Birgir Gunnlaugsson starfrækti hljómsveit/ir líklega nokkuð samfleytt í um þrjá áratugi eða allt frá árinu 1974 og fram á þessa öld, jafnframt hefur hljómsveitin komið við sögu á nokkrum plötum en tvær þeirra voru gefnar út í nafni sveitarinnar.
Birgir Gunnlaugsson stofnaði sína fyrstu hljómsveit af því er virðist árið 1974 og voru meðlimir þeirrar sveitar Sigurður Þ. Guðmundsson hljómborðsleikari, Sveinn Óli Jónsson trommuleikari, Bragi Björnsson bassaleikari og hljómsveitarstjórinn sjálfur Birgir Gunnlaugsson sem lék að öllum líkindum á gítar, hann hefur sjálfsagt einnig annast sönginn. Mannabreytingar virðast hafa orðið fljótlega í sveitinni því ári síðar var hún orðin að tríói og var það næstu misserin en á þessum árum lék sveitin mikið á stöðum eins og í Skiphóli í Hafnarfirði, Glæsibæ, Silfurtunglinu og Þórscafe, þ.e. mestmegnis á höfuðborgarsvæðinu og spilaði mjög mikið á þeim tíma – reyndar herma heimildir að sveitin hafi leikið á Snæfellsnesi um verslunarmannahelgina 1976 svo líklegt er að yfir sumartímann hafi verið farinn ballrúntur um landsbyggðina. Það ár var hljómsveit Birgis skipuð þeim Grétari Magnúsi Guðmundssyni (Tarnús) trommuleikara, Gunnari Bernburg bassaleikara, Rúnari Georgssyni saxófónleikara og Birgi svo þannig hafði aftur fjölgað í sveitinni, Guðmundur Steingrímsson trommuleikari mun um þetta leyti eitthvað hafa leikið með sveitinni.
Sveitin starfaði áfram en litlar upplýsingar er að finna um skipan hennar þar til sumarið 1979 en þá voru í henni Birgir og Gunnar bassaleikari, Alfreð Alfreðsson trommuleikari, Gunnar Ormslev saxófónleikari, Reynir Sigurðsson píanó- og víbrafónleikari og Vilborg Reynisdóttir söngkona sem hafði gengið til liðs við sveitina í gegnum smáauglýsingar, þá mun ónafngreindur trompetleikari einnig hafa komið við sögu sveitarinnar þetta sumar en hún starfaði á þessum árum á Hótel Sögu yfir sumartímann þar sem hún leysti hljómsveit Ragnars Bjarnasonar af hólmi – Ragnar var þá á fleygiferð með Sumargleðinni um landsbyggðina öll sumur. Fleira tónlistarfólk kom við sögu sveitarinnar á þessum árum og t.a.m. lék ungur hljómborðsleikari, Jón Ólafsson með sveitinni tvö sumur á Sögu og einhverju sinni léku Albert Pálsson og Ingvi Þór Kormáksson (einnig hljómborðsleikarar) með sveitinni.

Hljómsveit Birgis Gunnlaugssonar
Hljómsveit Birgis bryddaði upp á ýmsum nýjungum og þetta sumar (1979) og reyndar einnig sumarið 1980 stóð sveitin fyrir hæfileikakeppni á Hótel Sögu í samstarfi við Dagblaðið en sú keppni vakti nokkra athygli og kynnti til sögunnar ýmist tónlistarfólk sem síðar varð þekkt í faginu s.s. Pál Jóhannesson söngvara og Andreu Gylfadóttur fiðluleikara (síðar söngvara). Sveitin setti einnig á svið söngleikinn um Evitu á Sögu í samstarfi við JSB (Jazzballettskóla Báru) og var farið með þá sýningu einnig um landsbyggðina.
Hljómsveitin lék í nokkur sumur á Sögu og síðar á Hótel Esju en yfir vetrartímann jafnframt á stöðum eins og Sigtúni, Kópnum í Kópavogi og Ártúni á Ártúnshöfða, á veturna var sveitin meira í árshátíða- og þorrablótagírnum og hafði ærið nóg að gera í þeim bransa. Einnig lék sveitin á almennum dansleikjum á landsbyggðinni á sumrin og sumarið 1985 sendi sveitin einmitt frá sér eins konar sumarplötu sem ætlað var að styðja við balltúr sem farinn var um sumarið – á þeim tíma var vinsældarlisti Rásar 2 kominn til sögunnar og ballsveitir sem kenndar voru við gleðipoppið voru einmitt á þeim tíma einnig með sams konar fyrirætlanir, plötu með léttu poppi samhliða sveitaballaspilamennsku.
Platan, Fjörkippir: 10 stuðlög með hljómsveit Birgis Gunnlaugssonar seldist í um fimm hundruð eintökum (e.t.v. var upplagið ekki stærra), hún hafði að geyma lög flest við texta Birgis en þar voru einnig nokkur frumsamin, m.a. lagið Sumarást sem hlaut einhverja útvarpsspilun en lagið Ekki meir var líklega það lag sem fékk mestu spilunina. Á þeim tímapunkti sem platan kom út var sveitin skipuð þeim Birgi, Gunnari, Nikulási Róbertssyni hljómborðsleikara og Ólafi Garðarssyni trommuleikara.

Hljómsveit Birgis 1979
Næstu tvö árin fór ekki eins mikið fyrir sveitinni en það þarf þó ekki að þýða að hún hafi spilað minna, líklega var hún meira í árshátíðageiranum og því ekki eins áberandi í fjölmiðlaauglýsingum. Ekki liggur fyrir hverjir skipuðu hljómsveitina á þeim tíma en árið 1988 kom önnur plata út með henni og þá hafði verið skipt um trommu- og bassaleikara, Ólafur og Gunnar voru farnir á brott en þeirra sæti tekið Jón Björgvinsson og Pétur Hjálmarsson. Nýja platan bar titilinn Ís, lokkar og hey, eftir einu laganna en forskriftin var sú sama og þegar fyrri platan kom út þremur árum fyrr – erlend lög við íslenska texta Birgis. Á henni er m.a. að finna titillagið Lokkar og hey (A world without love) eftir Paul McCartney sem Peter & Gordon höfðu gert vinsælt á sínum tíma, Birgir hafði sett sig í samband við rétthafa lagsins til að fá að nota það á plötunni en fékk neitun frá McCartney – hann lét hins vegar á það reyna og aldrei hefur komið athugasemd frá Bítlinum vegna málsins. Lagið Komdu út naut hins vegar mestrar hylli af plötunni en það kom út á safnplötunni Bongó blíðu um sumarið og fékk nokkra útvarpsspilun, einnig naut lagið Nonni, Nína og Geiri (10 árum síðar) nokkurra vinsælda en í því syngur Sigríður Beinteinsdóttir á móti Birgi.
Sveitin fylgdi plötunni nokkuð eftir með almennri ballspilamennsku um sumarið og var t.a.m. á fjölskylduhátíð í Galtalækjarskógi um verslunarmannahelgina en um þetta leyti voru þeir félagar farnir að spila meira inn á yngri hlustendur og ári síðar, sumarið 1989 kom út kassetta undir merkjum Birgis sem var sérstaklega ætluð krökkum enda bar hún titilinn Barnaleikir og hafði að geyma söng krakkakórs úr Seljaskóla. Hann lét þar ekki við sitja heldur hafði hann einnig auglýst eftir ungum söngvurum sem síðan mynduðu hina svokölluðu Rokklinga sem gáfu út þrjár plötur á árunum 1989 til 91 (og eina í viðbót 1993) og einnig komu út þrjár kassettur í viðbót undir Barnaleikja-konseptinu á næstu árum – hljómsveit Birgis kom að miklu leyti að hljóðfæraleiknum á öllum þessum titlum en Rokklingarnir nutu sérlegra vinsælda á þessum árum.

Hljómsveit Birgis Gunnlaugssonar
Þannig kom það til að Hljómsveit Birgis Gunnlaugssonar lék nú í miklum mæli næstu árin fyrir mun yngri aldurshópa en sveitin hafði gert til þessa, og hún var nú aufúsugestur á jólaböllum og öðrum barnadansleikjum og lék einnig oft undir söng Rokklinganna þar sem þeir komu fram.
Eftir að þessu „barnatímabili“ lauk sneru þeir félagar sér aftur að almennum dansleikjamarkaði og áttu sér nokkuð fasta viðveru í Danshúsinu í Glæsibæ yfir sumartímann næstu árin eða frá 1993 framundir aldamót þar sem þeir lögðu megin áherslu á gömlu dansana og tengda tónlist. Sveitin var þó einnig áfram mikið í árshátíðabransanum, þorrablótum og slíku allt þar til hún hætti störfum árið 2004, í mörg ár lék sveitin einnig á fjölskyldudansleikjum í Stapa í Njarðvík í kringum þjóðhátíðardaginn en einnig lék hún mikið í Vestmannaeyjum um og eftir aldamót – m.a. á litla sviðinu á Þjóðhátíð 2002. Ekki liggur fyrir hverjir skipuðu sveitina með Birgi Gunnlaugssyni síðustu árin sem hún starfaði, svo virðist þó sem einhver Finnbogi [Kjartansson?] hafi verið einn meðlima hennar undir lok aldarinnar.














































