Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar (1932-55)

Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar 1939

Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar er um margt merkileg hljómsveit eða öllu heldur hljómsveitir því í raun var um að ræða nokkrar sveitir skipaðar mismunandi mannskap hverju sinni og allt frá því að vera tríó og upp í fimmtán manna sveit. Hún var aukinheldur fyrsta danshljómsveit Íslands og að öllum líkindum fyrsta hljómsveit sinnar tegundar sem hafði söngvara, lék djass- og danstónlist jöfnum höndum, fór fyrst allra hljómsveita í balltúr um landsbyggðina og þannig mætti sjálfsagt áfram telja.

Bjarni Böðvarsson (eða Bjarni Bö eins og hann var oft kallaður) var fjölhæfur tónlistarmaður, lék á ýmis hljóðfæri en saxófónn og harmonikka voru hans aðal hljóðfæri. Hann var tvívegis með hljómsveitir á Hótel Borg líklega með einhverjum hléum á árunum 1932-34 en það munu hafa verið eins konar kaffihúsahljómsveitir með léttri klassískri tónlist í bland við danstónlist, með honum þar voru menn á borð við Kaj Nielsen trommuleikari, Aage Lorange píanóleikari og Lárus Ástbjörnsson fiðluleikari en litlar upplýsingar er almennt að finna um þær sveitir. Önnur sveit Bjarna á þessum tíma gekk undir nafninu Halta bandið en meirihluti þeirrar sveitar var af einhverjum ástæðum haltur, Bjarni glímdi t.a.m. sjálfur við bæklun í fæti – aðrir meðlimir hennar voru Olfert Nåby píanóleikari, Rudi [?] trompet-, harmonikku- og fiðluleikari, Kragh Steinhauser trommuleikari og Guðlaugur A. Magnússon trompetleikari. Síðar komu þar til sögunnar enskir hljómsveitastjórar sem sáu um tónlistarflutning á hótelinu fram yfir stríð en Bjarni og fáeinir aðrir fengu að vera með í sumum þeirra sveita.

Hljómsveit Bjarna árið 1944

Bjarni hafði um miðjan fjórða áratuginn sett á fót hljómsveit innan FÍH (félags íslenskra hljómlistarmanna) sem var stór og erfið í rekstri og árið 1936 stofnaði hann upp úr henni hljómsveit í eigin nafni sem upphaflega var hugsuð til að leika í Ríkisútvarpinu sem hafði verið stofnað fáeinum árum áður og þar hafði Bjarni leikið sem lausamaður bæði sem sólólistamaður og með hljómsveit útvarpsins.  Nýju sveitinni var hins vegar ætlað að leika léttari tónlist en svo fór að hún starfaði í mörg ár við miklar vinsældir og lék einnig mikið á almennum dansleikjum á höfuðborgarsvæðinu og utan þess. Fyrsta útgáfa þessarar sveitar var fimm manna og herma heimildir að hljófæraskipan hennar hafi verið píanó, fiðla, harmonikka, trompet og tveir saxófónar. Þessi sveit lék að sögn á hálfsmánaðar fresti í útvarpinu fyrir landsmenn en þess á milli á hótelum og skemmtistöðum þess tíma eins og Oddfellow húsinu (Tjarnarcafe), Listamannaskálanum og Hótel Borg, einhverjar mannabreytingar urðu í henni en upplýsingar þ.a.l. eru ekki miklar – þó liggur fyrir að Skafti Sigþórsson fiðluleikari starfaði með sveitinni á árunum 1936-39.

Árið 1939 var hljómsveit Bjarna orðin vel þekkt eftir spilamennsku í útvarpinu, hún lék bæði „villtan djass“ fyrir unga fólkið og „gamla húsganga“ fyrir þá eldri en það mun þó hafa verið erfitt að gera öllum hlustendum til hæfis. Vorið 1939 munu meðlimir sveitarinnar hafa verið Aage Lorange píanóleikari, Þorvaldur Steingrímsson fiðluleikari, Poul Bernburg trommuleikari, Fritz Weisshappel kontrabassaleikari og svo Bjarni sjálfur á harmonikku en sveitin var þannig skipuð í að minnsta kosti eitt ár skv. heimildum.

Á þessum tíma voru söngvarar smám saman að koma inn í hljómsveitirnar og nutu þeir mikilla vinsælda en þeir voru þó aldrei hluti af sveitunum heldur lausráðnir. Fjöldi söngvara og söngkvenna komu því við sögu sveitarinnar í gegnum tíðina og má hér fyrst nefna eiginkonu Bjarna hljómsveitarstjóra, Láru Magnúsdóttur en hún var jafnframt móðir Ragnars Bjarnasonar – aðrir söngvarar voru t.d. Helga Weisshappel, Kristín Einarsdóttir, Ólafur Beinteinsson, Lárus Ingólfsson, Hermann Guðmundsson, Björgvin Jóhannsson og Guðrún Á. Símonar sem sté sín fyrstu spor sem dægurlagasöngkona 17 ára gömul með hljómsveit Bjarna. Síðar komu til sögunnar söngvarar eins og Elly Vilhjálms, Alfreð Clausen og Haukur Morthens.

Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar

Á árunum eftir 1940 færðist í vöxt að hljómsveit Bjarna léki í nágrannasveitum höfuðborgarsvæðisins, þannig lék hún t.a.m. á Selfossi, í Hvalfirði og á Hótel Valhöll á Þingvöllum en sveitin átti einmitt einnig eftir að leika á dansleik á Þingvöllum þegar Íslendingar fögnuðu hinu nýstofnaða lýðveldi þann 17. júní árið 1944 – hún lék á þessum árum einnig mikið í Listamannaskálanum, Hótel Borg, Oddfellowhúsinu og Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll svo dæmi séu nefnd.

Hljómsveitin tók ennfremur miklum stakkaskiptum á þessum árum, ekki eru reyndar alltaf til staðar heimildir um hverjir skipuðu hana hverju sinni en árið 1943 skipuðu hana Bjarni Bö, Skafti Sigþórsson saxófón- og fiðluleikari, Jóhannes Þorsteinsson (Jonni í Hamborg) píanóleikari, Karl Ottó Karlsson trommuleikari, Einar B. Waage bassa- og saxófónleikari og Kjartan Runólfsson trompet- og harmonikkuleikari en þeir tveir síðast töldu sungu jafnframt með sveitinni. Ári síðar var skipan hennar allt önnur, þá voru í henni auk Bjarna þeir Jónas Þórir Dagbjartsson trompetleikari, Baldur Böðvarsson bassaleikari, Esra Pétursson fiðlu- og saxófónleikari (og söngvari), Ólafur Hólm trommuleikari (afi Ólafs Hólm trommuleikara Nýdanskrar o.fl.), Þorvaldur Steingrímsson klarinettuleikari og Hafliði Jónsson píanóleikari. Í lok þess árs lék sveitin í beinni útsendingu í útvarpinu á áramótunum.

Hljómsveit Bjarna í Vaglaskógi ásamt Hauki Morthens

Við stríðslok árið 1945 var hljómsveit Bjarna Böðvarssonar stækkuð til muna og þá var algengt að tólf til fjórtán manns skipuðu sveitina auk söngvara sem stundum komu fram tveir eða þrír fram með sveitinni, hún var þá gjarnan auglýst sem „fyrsta fullskipaða danshljómsveit Íslands“ en ýmsir nýir tónlistarstraumar höfðu þá borist til landsins á stríðsárunum með breska hernámsliðinu og síðan bandaríska hernum sem kom í kjölfarið, þ.á.m. það sem kalla mætti stórsveitartónlist. Sveitin var um tíma skipuð þeim Bjarna, Jónasi Þóri, Baldri, Esra, Ólafi, Þorvaldi og Hafliða sem fyrr en þá höfðu bæst við Guðjón Pálsson píanóleikari, Óskar Cortes fiðlu- og saxófónleikari, Jósef Felzmann fiðluleikari, Vilhjálmur Guðjónsson klarinettuleikari, Einar B. Waage (aftur) bassaleikari og Jón Sigurðsson (bankamaður) harmonikku- og gítarleikari (sem söng einnig) en einnig kom Guðmundur Vilbergsson trompetleikari eitthvað við sögu hennar. Hugsanlegt er að á þeim tíma hafi Bjarni starfrækt tvær útgáfur af sveitinni á sama tíma því heimildir eru einnig um sextett sem skipaður var Bjarna, Kristjáni Kristjánssyni (KK) saxófónleikara, Jóhannesi Eggertssyni trommuleikara, Einari B. Waage bassaleikara, Carli Billich píanóleikara og Bjarna Sveini Ólafssyni [saxfónleikara?].

Sumarið 1946 fór Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar í langa reisu um norðanvert landið og braut þannig blað í sögunni en hún varð fyrst danshljómsveita til að gera slíkt, sveitin lék þá á tónleikum og dansleikjum fyrir norðan en dansleikirnir urðu alls níu á átta stöðum – meðal viðkomustaða má nefna Akureyri, Blönduós, Húsavík, Sauðárkrók, Vaglaskóg og Siglufjörð. Meðlimir sveitarinnar í þessari miklu reisu voru Bjarni, Jónatan Ólafsson harmonikku- og píanóleikari, Gunnar Egilson klarinettu- og saxófónleikari, [?] Kristofersen klarinettuleikari, Gísli Einarsson klarinettuleikari, Stig Rassmussen saxófónleikari, John Nielsen trompetleikari, Haraldur Guðmundsson trompetleikari, Rúrik Haraldsson (síðar leikari) trompetleikari, Björn R. Einarsson básúnuleikari, Karl Karlsson trommuleikari, Axel Kristjánsson gítarleikari og Baldur Bjarnason bassaleikari. Haukur Morthens sem þá var að stíga sín fyrstu skref í dægurlagasöngnum fór með í þessa ferð sem og í sambærilega ferð sem var farin ári síðar en í þeirri reisu kynntist hann einmitt verðandi eiginkonu sinni á Siglufirði þegar sveitin lék þar. Í síðari ferðinni (1947) mun sveitin reyndar ekki hafa verið nema átta eða níu manna en þá voru tveir söngvarar í henni auk Hauks, þau Jakobína Stefánsdóttir og Sigurður Ólafsson. Sveitin fór einnig í aðeins styttri ferð á Vestfirði og lék þar t.a.m. á þremur dansleikjum á Ísafirði.

Hljómsveit Bjarna 1947

Hljómsveitin var áfram stór næstu árin, allt að fimmtán manns skipuðu hana til árins 1948 að minnsta kosti en upplýsingar eru þó afar takmarkaðar um meðlimi hennar síðari hluta starfstíma hennar. Sonur Bjarna, Ragnar Bjarnason gerðist trommuleikari sveitarinnar og söng reyndar einnig eitthvað með henni síðar og með þeim feðgum voru í sveitinni árið 1947 þeir Guðjón Pálsson, Óskar Cortes, Jósef Felzmann, Jónas Dagbjartsson, Vilhjálmur Guðjónsson og Einar B. Waage, þá hafði Guðmundur Steingrímsson trommuleikari einnig haft einhverja viðkomu i sveitinni. Eftir 1950 vantar hins vegar allar upplýsingar um skipan hennar, þó liggur fyrir að Hrafn Pálsson (píanó- eða bassaleikari) og Kristinn Vilhelmsson trommuleikari léku á einhverjum tímapunkti með sveitinni, líklega á þessum tíma.

Eftir því sem vegasamgöngur löguðust í kjölfar komu og veru herliðsins fóru hljómsveitir að fikra sig æ lengra frá höfuðborgarsvæðinu og sveitin mun hafa leikið nokkuð á Suðurlandi og Suðurnesjunum á árunum eftir 1950, sveitin fór m.a.s. aftur vestur á firði og lék nú á smærri stöðum eins og Bíldudal en taka verður fram að þá var siglt vestur með Esjunni og leikið um borð í því skipi einnig. Sveitin lék sem fyrr þó mest á höfuðborgarsvæðinu yfir vetrartímann og m.a. lék hún í dægurlagasamkeppnum SKT en var þá væntanlega ekki jafn stór í sniðum og þegar mest var. Á þessum tíma var jafnframt orðin hefð fyrir því að sveitin léki á skemmtun í miðbæ Reykjavíkur á 17. júni, það hafði hún gert frá lýðveldisárinu 1944 og gerði það líklega allt þar til hún hætti störfum árið 1955.

Haustið 1955 lést Bjarni Böðvarsson eftir veikindi en sveitin hafði þá hætt störfum vegna veikinda hans nokkru fyrr. Leik sveitarinnar má heyra á fáeinum 78 snúninga plötum sem gefnar voru út 1952 og 53 með Sigurði Ólafssyni og Guðrúnu Á. Símonar en árið 1999 gaf Ríkisútvarpið út plötu með leik Hljómsveitar Bjarna Böðvarssonar í útgáfuröðinni Útvarpsperlur enda var töluvert til af efni á lakkplötum í fórum Útvarpsins sem yfirfært var af þessu tilefni yfir á stafrænt form, þessi plata hefur að geyma tuttugu og tvö lög frá árunum 1940 til 53. Einnig gaf plötusafnarinn Sigurjón Samúelsson frá Hrafnabjörgum í Ísafjarðardjúpi út safnplötuna Á síðasta snúningi og rúmlega það 1, sem hefur að geyma tuttugu lög með sveitinni úr fórum Ríkisútvarpsins (og reyndar eitt lag með Maríu Markan – þess vegna kallast hún safnplata) en sú plötuútgáfa var í raun óopinber enda var upplagið mjög lítið. Þess má þó geta að þar er að finna lagið Við bjóðum góða nótt, sem var eftir Bjarna við texta Ágústar Böðvarssonar bróður hans en það mun hafa verið hefð hjá sveitinni að ljúka dansleikjum með því lagi. Það lag kom svo síðar einnig út með Ragnari Bjarnasyni syni Bjarna.

Efni á plötum