
Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar 1966
Djasspíanistinn Guðmundur Ingólfsson starfrækti margar hljómsveitir um ævi sína, hann er þekktastur fyrir það sem hefur verið kallað Tríó Guðmundar Ingólfssonar (sjá sér umfjöllun á Glatkistunni) en það eru djasssveitir hans sem störfuðu allt frá því um miðjan sjöunda áratuginn og þar til hann lést 1991. Hér er hins vegar reynt að varpa einhverju ljósi á aðrar sveitir Guðmundar, danshljómsveitir og slíkt sem almennt gengu einfaldlega undir nafnið Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar, þær eru þó æði margar og upplýsingar um þær vægast sagt takmarkaðar.
Guðmundur var fyrst með hljómsveit í eigin nafnið sumarið 1966 á Röðli en þá sveit skipuðu Gunnar Ingólfsson trommuleikari (bróðir Guðmundar), Hrafn Pálsson bassaleikari, Sveinn Ingason gítarleikari og Helga Sigþórsdóttir söngkona (þáverandi eiginkona Guðmundar) en hann lék sjálfur á píanó. Einnig gæti Harald G. Haralds hafa sungið með sveitinni eitthvað. Þessi sveit virðist aðeins hafa starfað fram á haustið 1966 en ári síðar skaut hún upp kollinum í Víkingasal Hótel Loftleiða um sumarið, engar upplýsingar er að finna um skipan þeirrar sveitar nema að Helga söng með henni.
Þau Guðmundur og Helga störfuðu um skeið með Haukum en vorið 1970 birtust þau hjónakornin aftur með hljómsveit í nafni Guðmundar í Þórscafe, meðlimir þeirrar sveitar voru Guðmundur og Helga, Gunnar trommuleikari og Helgi Hermannsson sem lék líklega á gítar en Erlendur Svavarsson söngvari mun einnig hafa komið við sögu þessarar sveitar, og líklega líka sem trommari.
Næstu árin poppaði Guðmundur reglulega upp með hljómsveit, árið 1971 starfrækti hann hljómsveit sem lék á Skiphóli í Hafnarfirði en þar sungu Helga og Pálmi Gunnarsson og má reikna með að Pálmi hafi einnig plokkað bassann – engar frekari upplýsingar er að finna um skipan þeirrar sveitar og síðar það sama ár lék sveitin um skeið í Veitingahúsinu við Lækjarteig og virðist svo einnig hafa leikið eitthvað í Keflavík um haustið. Árið 1972 lék sveitin aftur nokkuð í Veitingahúsinu við Lækjarteig en svo heyrist ekkert af hljómsveit Guðmundar fyrr en árið 1974 þegar hún birtist um skamma hríð en hvarf fljótlega.
Það sama ár (1974) flutti Guðmundur til Noregs og átti eftir að starfa þar í um þrjú ár en þegar hann kom aftur heim til Íslands starfrækti hann danshljómsveit sem lét að sér kveða mest í Ingólfscafe og Hótel Borg, sú sveit virðist hafa starfað veturinn 1977-78 en hætt svo um vorið. Engar upplýsingar finnast um skipan þessarar sveitar utan þess að Kristbjörg Löve (Didda Löve) var söngkona hennar.
Guðmundur helgaði sig djassi að mestu eftir þetta og var lítið með danshljómsveitir, tríó hans er auðvitað alþekkt en einnig gaf hann út djasskotnar sólóplötur og lék einnig nokkuð inn á plötur annarra listamanna svo almenn ballspilamennska var á undanhaldi hjá honum.
Guðmundur var með hljómsveit á Broadway árið 1982 sem auk hans skipuðu Pálmi Gunnarsson bassaleikari, Guðmundur Steingrímsson trommuleikari, Björn Thoroddsen gítarleikari og Jakob Jónsson söngvari en tónlist þeirrar sveitar var líklega djassskotin. Það sama er að segja um sveit sem hann starfrækti á veitingastaðnum Naustinu 1983 en með honum voru þar Gunnar bróðir hans á trommur og Skúli Sverrisson á bassa en Hjördís Geirsdóttir annaðist sönginn, sú sveit var einnig að leika á djassuppákomum og einnig var hann með sveit á Skiphóli í Hafnarfirði sem lék djass fyrir matargesti, Oktavía Stefánsdóttir var söngkona þeirrar sveitar. Ekki liggur fyrir hvort sú sveit var skipuð sömu meðlimum en ýmsir gestir léku með þessari sveit s.s. Rúnar Georgsson og Ernie Wilkins saxófónleikarar. Hann var svo enn á ferð með (djass)sveit á Naustinu 1985 þar sem ýmsar erlendar söngkonur s.s. Beril Bryden komu við sögu.
Næstu árin voru mestmegnis tileinkuð djassinum, hann starfrækti fyrrnefnt Tríó Guðmundar Ingólfssonar en einnig fór hann í túr um landið ásamt gítarleikaranum Paul Weeden sumarið 1986 en aðrir í sveit hans voru Guðmundur Steingrímsson trommuleikari og Grímur Sigurðsson bassaleikari og var það líklega einhvers konar útfærsla á tríóinu. Síðar það sama sumar lék sveit hans á djasshátíð sem haldin var í tilefni af 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar og eitthvað áfram um haustið, einnig á stórtónleikum ásamt fleirum í Háskólabíói til styrktar byggingu tónlistarhúss í upphafi árs 1988 og svo næstu þrjú árin með djasssveit sem líkast til er einhvers konar útgáfa af tríói Guðmundar. Þá starfrækti hann jafnframt um tíma aðra djasssveit sem hlaut nafnið Steinaldarmenn árið 1989 en umfjöllun um hana má lesa á Glatkistunni.
Guðmundur lést síðsumars 1991 en starfrækti hljómsveitir má segja fram í andlátið.














































