
Eiríkur á Bóli
Tónlistartengd afmælisbörn Glatkistunnar eru sjö talsins í þetta skipti:
Már Elíson trommuleikari er sjötíu og þriggja ára gamall í dag. Már hefur starfað með ótal hljómsveitum í gegnum tíðina, þeirra þekktust er Upplyfting en einnig má nefna sveitir eins og Trix, Víkingasveitina, Andrá, Pondus, Midas, Kusk, Jeremías, Galdakarla, Danssveitina, Axlabandið og Granada tres tríó svo aðeins nokkrar séu nefndar.
Cecilía Magnúsdóttir söngkona er fimmtíu og tveggja ára gömul á þessum degi en margir muna eftir henni sem einni af söngkonum hljómsveitarinnar Áttavillt en hún hefur líka sungið með sveitum eins og Saga Class, Þúsund andlitum og Kargó, og sungið inn á nokkrar plötur einnig.
Sigurður Kristinsson, einnig þekktur undir nafninu Kollþrykktur, átti afmæli á þessum degi en hann lést fyrr á þessu ári. Sigurður (fæddur 1964) sem var gítarleikari var einn af stofnmeðlimum Sniglabandsins en hann starfaði einnig með hljómsveitum eins og Hugmynd, KFUM & the andskotans, Stútungum, Lærisveinum Fagins og Mjölni svo aðeins fáeinar séu nefndar. Hann lék einnig inn á fjölmargar plötur.
Sigríður Hagalín Guðmundsdóttir leikkona (1926-92) átti þennan afmælisdag. Sem leikkona söng hún töluvert í leiksýningum og allir þekkja lögin úr Karíus og Baktus sem hún söng á móti Helgu Valtýsdóttur á plötu með tónlistinni úr leikritinu, þá söng hún líka t.d. lagið Ljúflingshóll á plötunni úr leikritinu Deleríum búbónis og á fjölmörgum öðrum plötum með leikhústónlist.
Jórunn Viðar tónskáld (1918-2017) hefði átt afmæli í dag. Jórunn nam tónsmíðar í Þýskalandi, Bandaríkjunum og Austurríki á sínum tíma og samdi fjöldann allan af þekktum lögum s.s. Það á að gefa börnum brauð, Kall sat undir kletti og tónverkið Únglíngurinn í skóginum. Jórunn samdi aukinheldur tónlist fyrir kvikmyndir og ballett, og var reyndar brautryðjandi í því hér á landi. Hún hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 2003.
Elín (Matthíasdóttir) Laxdal söngkona og tónskáld (1883-1918) átti einnig afmæli á þessum degi. Elín nam söng í Kaupmannahöfn og var þekkt söngkona á sínum tíma en hún var einnig framarlega í félagsmálum kvenna og var meðal annars ein af stofnendum kvenfélagsins Hringins.
Eiríkur (Bjarnason) á Bóli harmonikkuleikari (1909-81) hafði ennfremur þennan afmælisdag, hann var blindur en lét það ekki koma í veg fyrir spilamennsku á böllum í gamla daga en hann fór víða um Suðurland í því skyni við miklar vinsældir.
Vissir þú að bílasalinn Alli Rúts gaf eitt sinn út jólaplötu?














































