Afmælisbörn 15. desember 2024

Kristinn Svavarsson

Í dag eru skráð sex tónlistartengd afmælisbörn, þau eru þessi:

Söngvarinn Herbert Guðmundsson (Hebbi) er sjötíu og eins árs gamall í dag. Hann var áður söngvari fjölmargra hljómsveita eins og Pelican, Eikur, Raflosts, Tilveru, Sólskins, Ástarkveðju, Stofnþels og Kan svo nokkrar vel valdar séu nefndar en þekktastur er hann þó fyrir sólóferil sinn, fyrst og síðast skal þar nefndur stórsmellurinn Can‘t walk away (1985). Herbert hefur gefið út nokkrar sólóplötur.

Gunnar Sturla Hervarsson tónlistarmaður er fimmtugur í dag – fagnar stórafmæli en hann hefur komið að leiklistar- og tónlistarlífinu á Akranesi með margvíslegum hætti um langan tíma, s.s. með hljómsveitum eins og Abbababb, Frávik, Pegasus og Hvísl en einnig sem laga- og textahöfundur, leikstjóri, trúbador og margt annað.

Ragnheiður Gröndal söngkona á líka stórafmæli en hún er fertug í dag, hún hefur sungið marga stórsmelli á þeim tíma sem hún hefur verið í sviðsljósinu en hún vakti fyrst almenna athygli fyrir lag Páls Torfa Önundarsonar, Ferrari í undankeppni Eurovision og Ást eftir Magnús Þór Sigmundsson, bæði árið 2003. Síðan þá hefur hún átt stórt pláss í þjóðarhjartanu, og sungið fjölmörg lög sem hafa notið vinsælda. Ragnheiður hefur gefið út fjölda sólóplatna.

Þorvaldur Örn Árnason fagnar í dag sjötíu og sjö ára afmæli sínu en hann hefur víða komið við í tónlistinni. Hann var á sínum tíma einn af þeim sem skipuðu Heimavarnarliðið og Vísnavini en söng og lék á gítar og bassa einnig í mörgum og misþekktum hljómsveitum og sönghópum á borð við Vini og vandamenn, Hvísl, Blóm afþökkuð, Elda, Erni, Hrafna, Mono system og Kjarabót.

Kristinn Svavarsson saxófón- og flautuleikari er einnig sjötíu og sjö ára á þessum degi. Kristinn lék á árum áður með fjölda hljómsveita s.s. Brimkló, Musicamaxima, Midas, Pónik og Mezzoforte en í seinni tíð var hann meira áberandi sem session spilari og hefur því leikið inn á ógrynni platna í gegnum tíðina, líklega mörg hundruð slíkar. Hann hefur jafnframt sent frá sér sólóplötu.

Guðlaugur Asberg Magnússon (1902-52) gullsmiður er hér að síðustu nefndur í upptalningu dagsins. Hann var trompetleikari og lék með lúðrasveitum á Ísafirði, Hafnarfirði og Reykjavík en einnig með danshljómsveitum á höfuðborgarsvæðinu sem og Symfóníuhljómsveit Reykjavíkur sem var einn undanfara Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem hann lék auðvitað einnig með. Guðlaugur var kom einnig að félagsmálum tónlistarfólks á fyrri hluta síðustu aldar.

Vissir þú að Snjókorn falla með Ladda er með hátt í þrjár milljónir spilana á Spotify, sem þykir dágott fyrir íslenskt jólalag.