Hrægammarnir voru djasshljómsveit undir stjórn gítarleikarans Björns Thoroddsen, sem spilaði töluvert sumarið og haustið 1983 á stöðum eins og Stúdentakjallaranum og Djúpinu. Heilmiklar mannabreytingar urðu á sveitinni en hún var eins konar forveri eða jafnvel fyrsta útgáfa hljómsveitarinnar Gamma sem síðar áttu m.a. eftir að gefa út nokkrar breiðskífur.
Hrægammar voru í fyrstu útgáfu þarna um sumarið 1983 skipaðir þeim Birni gítarleikara, Tómasi R. Einarssyni kontrabassaleikara, Sigurði Flosasyni saxófónleikara og Jóni Björgvinssyni trommuleikara en þegar hún lék aftur fáeinum vikum síðar þá var Björn einn eftir og í stað hinna voru komnir Guðmundur Steingrímsson trommuleikari, Guðmundur Ingólfsson píanóleikari, Skúli Sverrisson bassaleikari og Rúnar Georgsson saxófónleikari. Enn frekari breytingar höfðu orðið á skipan sveitarinnar þegar hún kom svo fram undir nafninu Jazzgammar og svo Gammar litlu síðar.














































