Afmælisbörn 28. október 2025

Gestur Guðmundsson

Afmælisbörn dagsins eru tíu talsins að þessu sinni:

Egill Eðvarðsson er sjötíu og átta ára gamall í dag. Egill er kunnastur fyrir störf sín hjá Sjónvarpinu en hann var einnig tónlistarmaður á árum áður, hann lék til að mynda með gjörningasveitinni Combó Þórðar Hall sem vakti mikla athygli á sínum tíma en aðrar hljómsveitir sem hann hefur starfað með eru t.d. Busabandið, Lubbar og Engir. Egill er faðir Egilssona í Steed Lord.

Snorri Guðmundsson tónlistarmaður er sextíu og tveggja ára í dag. Snorri er kannski ekki allra þekktasti tónlistarmaður Íslands en hann hefur þó sent frá sér nokkrar plötur með tónlist sem myndi flokkast undir nýaldartónlist, sú fyrsta kom út 1999.

Hér er einnig nefndur Vilhelm Þór Harðarson söngvari hljómsveitarinnar Out loud frá Neskaupstað en hann fagnar fjörutíu og þriggja ára afmæli sínu á þessum degi.

Frægasti sóttvarnalæknir Íslandssögunnar, Þórólfur Guðnason fagnar sjötíu og tveggja ára afmæli í dag. Þórólfur er einnig tónlistarmaður og hefur leikið á gítar og bassa með fjöldanum öllum af hljómsveitum í Vestmannaeyjum og á fastalandinu í gegnum tíðina, þeirra á meðal má nefna Bóbó Péturs & fjölskyldu, Takta, Bambinos, Eldvatn, Bítilbræður og Föruneyti Gísla Helgasonar svo fáeinar séu nefndar.

Tónlistarkonan Sigrún Harðardóttir er sjötíu og sex ára gömul í dag. Hún vakti töluverða athygli á áttunda áratug síðustu aldar fyrir söng sinn og gaf reyndar út tímamótaplötu árið 1976 sem var fyrsta íslenska breiðskífan sem hafði að geyma lög og texta eingöngu eftir konu. Sigrún hefur búið erlendis síðustu áratugina.

Eiríkur Örn Pálsson trompetleikari er sextíu og sex ára gamall í dag. Eiríkur Örn er með þekktari trompetleikurum landsins, hann nam hér heima og í Bandaríkjunum og hefur starfað með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Hljómskálakvintettnum, Caput, hljómsveit Íslensku óperunnar, Kammersveit Reykjavíkur og Íslensku hljómsveitinni og hefur auk þess starfað með ótal öðrum hljómsveitum og tónlistarfólki, bæði á plötum og á sviði.

Jóhanna Johnsen

Félagsfræðiprófessorinn og fræðimaðurinn Gestur Guðmundsson (f. 1951) átti afmæli á þessum degi en hann lést nýverið. Gestur var kunnur fyrir bók sína Rokksaga Íslands: frá Sigga Johnny til Sykurmolanna sem kom út árið 1990 en sú bók var sú fyrsta sinnar tegundar hérlendis. Áður hafði hann einnig sent frá sér bókina 68 – hugarflug úr viðjum vanans, sem fjallaði m.a. um tónlist 68‘ kynslóðarinnar.

Bassaleikarinn Sævar Benediktsson frá Akureyri fagnar í dag sjötíu og þriggja ára afmæli sínu. Sævar lék með miklum fjölda hljómsveita á árum áður og hér má nefna sveitir eins og Bravó, Hljómsveit Ingimars Eydal, Hvíta máva, Ljósbrá, Óvissu og Hljómsveit Pálma Stefánssonar svo aðeins nokkrar séu hér nefndar.

Jakob Ó. Jónsson söngvari átti þennan afmælisdag en hann lést árið 2021. Jakob sem var fæddur árið 1940, starfrækti lengi hljómsveit undir eigin nafni en hann söng einnig með sveitum eins og Echo, Hljómsveit Óskars Guðmundssonar, Lúdó sextett, Hljómsveit Jóns Páls Bjarnasonar, Tónatríóinu og ýmsum fleirum.

Jóhanna Jóhannsdóttir Johnsen sópransöngkona (1908-96) hefði átt afmæli á þessum degi en hún þótti efnileg söngkona á sínum tíma, Jóhanna nam söng hér heima og í Kaupmannahöfn auk píanóleiks. Þegar hún kom aftur heim til Íslands fékkst hún töluvert við söng- og píanókennslu, hún hélt hér einsöngtónleika og tók þátt í óperettu- og söngleikjauppfærslum. Söngferli hennar lauk hins vegar nokkuð skyndilega þegar eiginmaður hennar sem var læknir þurfti að flytjast út á land og gegna starfi héraðslæknis víðs vegar um landsbyggðina.