
H.G. sextettinn
Haraldur Guðmundsson trompetleikari sem áður hafði starfrækt þekkta djass- og danshljómsveit í Vestmannaeyjum undir nafninu H.G. sextett flutti austur á Norðfjörð árið 1955 eftir því sem best verður komist og tók þar fljótlega við Lúðrasveit Neskaupstaðar, stofnaði karlakór og reif upp tónlistarlífið í bænum.
Vorið 1957 stofnaði Haraldur hljómsveit sem hlaut nafnið H.G. sextett rétt eins og hljómsveit hans í Eyjum hafði borið, sveitin kom fyrst fram á sjómannadagsdansleik í Neskaupstað skömmu eftir að hún var stofnuð og svo fljótlega á 17. júní balli í bænum, hún hafði strax mikið að gera og t.a.m. lék sveitin á sjö dansleikjum sem haldnir voru í barnaskólahúsinu í Neskaupstað um sumarið og svo eitthvað meira þar um haustið. Í kjölfarið lék sveitin víðar á Austfjörðum og er m.a. að finna heimild um að hún hafi leikið á Stöðvarfirði, þá var hún einnig um tíma fastráðin í Egilsbúð í Neskaupstað og Félagslundi á Eskifirði meðan hún starfaði.

H.G. sextett
Ekki liggja fyrir allar upplýsingar um meðlimi H.G. sextettsins, á einhverjum tímapunkti voru auk Haraldar í sveitinni þeir Jón Elías Lundberg harmonikku- og básúnuleikari, Jón Barðason Jónsson trommuleikari, Jón Ísfeld Karlsson [?], Ottó Sigurðsson bassaleikari og Lárus Sveinsson gítar- og trompetleikari en sá síðast taldi var aðeins 14-15 ára gamall – hann átti síðar eftir að verða landsþekktur. Guðrún Baldursdóttir ku hafa verið söngkona sveitarinnar að minnsta kosti um tíma en einnig mun Höskuldur Stefánsson harmonikkuleikari og félagi Haraldar úr fyrri hljómsveit hans í Vestmannaeyjum hafa verið í sveitinni um tíma. Kjarni þessarar sveitar skipaði síðar hljómsveit Höskuldar (H.S. sextett / Hljómsveit Höskuldar Stefánssonar). Ekki er víst að H.G. sextett hafi starfað alveg samfleytt, fyrir liggur að hún var starfrækt árið 1962 en í millitíðinni hafði Höskuldur starfrækt sína sveit svo að einhverju leyti virðist saga sveitanna beggja tvinnast saman.
H.G. sextett kom aftur saman árið 1985 en ekki liggur fyrir hverjir skipuðu þá endurgerð sveitarinnar.














































