Haraldur Guðmundsson [1] (1922-81)

Haraldur Guðmundsson

Haraldur Guðmundsson hlýtur að teljast til tónlistarforkólfa en hann hafði mikil áhrif á tónlistarlífið í Vestmannaeyjum og Neskaupstað þar sem hann starfrækti hljómsveitir, stjórnaði kórum og lúðrasveitum og annaðist tónlistarkennslu, þá stofnaði hann einnig Lúðrasveit verkalýðsins og stjórnaði henni þannig að áhrifa hans gætir víða.

Haraldur Kristinn Guðmundsson fæddist í Vestmannaeyjum sumarið 1922 og bjó þar fyrstu átta ár ævi sinnar, hann sýndi mjög snemma tónlistarhæfileika og fimm ára gamall byrjaði hann að leika á banjó, þremur árum síðar hafði hann einnig náð góðum tökum á mandólíni og þegar hann var orðinn tólf ára hafði hann gert nokkuð að því að syngja og spila á banjó á skemmtisamkomum í Reykjavík en þangað hafði fjölskyldan flutt. Hann lærði svo einnig á trompet og gítar en reyndar munu flest hljóðfæri hafa leikið í höndunum á honum og hann kenndi síðar á miklu fleiri en ofangreind hljóðfæri.

Haraldur lauk námi í prentiðn og átti hann eftir að starfa við þá iðn eins og svo margir aðrir tónlistarmenn, tónlistin var þó alltaf jafn stór þáttur í lífi hans og e.t.v. mætti segja að álagið hafi haft áhrif á heilsu hans síðar en hann mun lítið sem ekkert hafa verið að slaka á þegar mest var að gera.

Fyrstu heimildir um að Haraldur hafi starfað með hljómsveit eru frá síldarárunum en sumarið 1941 lék hann með Black boys á Hótel Hvanneyri á Siglufirði 19 ára gamall. Ekki leið á löngu þar til hann hafði stofnað eina all sérstæðustu hljómsveit sem starfað hefur á Íslandi en það var Mandólínhljómsveit Reykjavíkur sem starfaði um nokkurra ára skeið og lék víða á þeim tíma, þeirri sveit stjórnaði Haraldur sjálfur en einnig starfaði hann með Hljómsveit Björns R. Einarssonar (sem líklega bar upphaflega nafnið Dixielandhljómsveit Íslands) sem banjó- og trompetleikari og Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar þar sem hann lék á trompet. Jafnframt eru heimildir um að hann hafi stjórnað karlakór verkamanna einhverju sinni en ekki finnast upplýsingar um hvenær eða hvar það var.

Árið 1949 urðu þau þáttaskil í lífi Haraldar að hann flutti á bernskuslóðir siðan í Vestmannaeyjum þar sem hann átti eftir að búa og starfa um þriggja ára skeið. Fljótlega eftir að hann kom til Eyja stofnaði hann eigin hljómsveit sem bæði lék hefðbundna danstónlist en var einnig öflug djasshljómsveit en djasslífið var á þeim árum afar öflugt í Vestmannaeyjum. Sveitin gekk bæði undir nöfnunum H.G. sextett og Danshljómsveit Haraldar Guðmundssonar (eftir tilefninu) og þótti með allra frambærilegustu hljómsveitum landsins, meðlimir sveitarinnar tóku Alþýðuhúsið í Vestmannaeyjum á leigu og ráku um skeið og spiluðu mikið þar en einnig fór sveitin í þrígang upp á meginlandið og fór þá víða um land. H.G. sextettinn varð fyrst djasshljómsveita af landsbyggðinni til að leika í höfuðborginni og vakti þar verðskuldaða athygli en sveitin var þá m.a. hljóðrituð í Ríkisútvarpinu. Haraldur mun einnig hafa stjórnað Vestmannakórnum svokallaða meðan hann bjó og starfaði í Eyjum sem og karlakór sem þar starfaði.

Haraldur Guðmundsson

Sumarið 1952 flutti Haraldur aftur til Reykjavíkur og bjó þar í þrjú ár, á þeim tíma starfaði hann með hljómsveit Þórarins Óskarssonar en merkast á því tímaskeiði er líklega framlag hans til Lúðrasveitar verkalýðsins sem hann átti stóran þátt í að stofna vorið 1953 og stjórna til 1955 en þá flutti hann með fjölskyldu sína austur á Norðfjörð þar sem hann átti eftir að búa það sem eftir var ævinnar. Lúðrasveit verkalýðsins þarf auðvitað ekki að kynna enda lifir hún enn góðu lífi í dag.

Á Norðfirði tók hann við rekstri prentsmiðju sem hann rak til ársins 1969 þegar sonur hans tók við keflinu en þá tók Haraldur sjálfur við nýstofnuðum tónlistarskólanum í Neskaupstað og stjórnaði honum til dauðadags en hann hafði þá áður sinnt einhverri tónlistarkennslu, gjarnan heima hjá sér. Hann kenndi m.a. Lárusi Sveinssyni sem síðar varð þekktur trompetleikari en segja má að Haraldur hafi um langt árabil verið allt í öllu í tónlistarkennslunni á staðnum en eins konar sprenging varð í áhuga á tónlist á þeim tíma.

Haraldur sinnti að sjálfsögðu öðrum tónlistartengdum verkefnum á Norðfirði, hann stofnaði eigin danshljómsveit sem bar nafnið H.G. sextett rétt eins og sveit hans í Vestmannaeyjum en þessi sveit starfaði á árunum 1957-62. Þá stjórnaði hann (og stofnaði) Lúðrasveit Neskaupstaðar auk þess sem hann stjórnaði skólahljómsveitum innan tónlistarskólans, þess má einnig geta að Haraldur útsetti heilmikið sjálfur fyrir þær lúðrasveitir sem hann stjórnaði. Hann stjórnaði jafnframt Karlakór Norðfjarðar um áratugar skeið.

Haraldur átti á síðari árum við vanheilsu að stríða og hefur því verið haldið fram að fyrst og fremst hafi álagið sem prentari og tónlistarmaður samhliða því haft þar nokkuð að segja. Hann lést haustið 1981 tæplega sextugur að aldri. Vorið 1985 var haldin tónlistarhátíð í Egilsbúð á Norðfirði í minningu Haraldar þar sem fjöldi tónlistarfólks kom fram.