
Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar 1960
Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar í Keflavík skipar veigamikinn og líklega mjög vanmetinn þátt í íslenskri tónlistarsögu en sveitin var eins konar uppeldishljómsveit fyrir kynslóð sem átti eftir að láta til sín taka í íslensku poppi næstu árin og áratugina á eftir, hér nægir að nefna nöfn eins og Gunnar Þórðarson, Einar Júlíusson, Engilbert Jensen, Rúnar Georgsson, Þóri Baldursson, Maríu Baldursdóttur og Pétur Östlund. Saga sveitarinnar er margslungin og flókin enda kom mikill fjöldi hljóðfæraleikara og söngvara við sögu hennar á því fimm ára skeiði sem hún starfaði undir þessu nafni, hér verður þó reynt að varpa ljósi á sveitina eftir fremsta megni.
Guðmundur Ingólfsson sem kom upphaflega úr Vestmannaeyjum fluttist til Keflavíkur um miðjan sjötta áratuginn og árið 1958 stofnaði hann hljómsveit sem bar einfaldlega nafnið Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar. Upphaflegir meðlimir sveitarinnar voru auk Guðmundar sem lék á gítar þeir Páll Ólafsson trommuleikari, Erlingur Jónsson bassaleikari, Þórir Baldursson píanóleikari sem þarna var barn að aldri, aðeins fjórtán ára gamall og söngvarinn Engilbert Jensen, Engilbert var jafnframt aðeins sautján ára. Auk þess kom stundum fram með sveitinni ungur og efnilegur saxófónleikari að nafni Rúnar Georgsson sem var fimmtán ára, hann varð um tíma fastur liðsmaður sveitarinnar en kom auk þess stöku sinnum fram með henni síðar. Engilbert var fyrst og fremst söngvari en hann greip stundum í trommusettið og munu það hafa verið hans fyrsta trommuleikarareynsla en hann lék síðar á trommur með ýmsum hljómsveitum.
Hljómsveitin lék strax víða í Keflavík og Njarðvíkum og reyndar á Suðurnesjunum og varð samkomuhús kvenfélagsins í Njarðvíkum, Krossinn fljótlega eins konar heimavígi sveitarinnar, fljótlega á nýju ári (1959) höfðu orðið nokkrar mannabreytingar í sveitinni, Einar Júlíusson söngvari bættist í hópinn og þá voru söngvararnir orðnir tveir – hann var jafnaldri Þóris, kornungur en einnig kom Agnar Sigurvinsson trommuleikari inn í sveitina í stað Páls, sem og Siggeir Sverrisson bassaleikari í stað Erlings en Þórir hætti í sveitinni enda þurfti hann að sinna námi sínu yfir vetrartímann, Þráinn Kristjánsson píanó- og víbrafónleikari kom inn í sveitina í stað hans.

Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar
Svo virðist sem sveitin hafi verið þannig skipuð um nokkurn tíma, Rúnar lék með henni stöku sinnum áfram og vakti mikla athygli og var sveitin farin að vekja eftirtekt á höfuðborgarsvæðinu en hún var þá farin að leika eitthvað í Ingólfscafe sem og á sveitaböllum á Suðurlandi, þá kom hljómsveitin fram ásamt fleiri sveitum t.d. á tónleikum sem haldnir voru á vegum FÍH í Austurbæjarbíói haustið 1959 og aftur vorið 1960.
Sumarið 1960 fór hljómsveit Guðmundar í fyrsta sinn norður á Siglufjörð þar sem sveitin lék fyrir dansi í síldarplássinu, þar leigði sveitin Alþýðuhúsið um mánaðarskeið og lék þar nánast öll kvöld, þegar þeir félagar komu suður aftur í lok júlí héldu þeir áfram að spila á fullu svo sveitin hafi feikinóg að gera, þetta sumar var sveitin skipuð þeim Guðmundi, Þráni, Siggeiri, Sigurði Þórarinssyni píanóleikara og Pétri Östlund trommuleikara auk söngvurunum Einari og Engilbert.
Um haustið 1960 var Þórir Baldursson aftur kominn inn í sveitina á píanóið (í stað Sigurðar) og varð nú hljómsveitarstjóri um skeið en einnig urðu þær breytingar á sveitinni að Eggert Kristinsson leysti Pétur af á trommunum og Sigurður Baldvinsson kom inn sem bassaleikari í stað Siggeirs. Sveitin kallaði sig þá Saxon en reyndar störfuðu þeir ekki lengi undir því nafni – aðeins fáeinar vikur áður en þeir tóku aftur upp fyrra nafnið og Guðmundur tók aftur við hljómsveitarstjórninni.
Margt er á huldu varðandi Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar enda voru mannabreytingar tíðar og svo virðist sem þeir Páll Ólafsson trommuleikari og Erlingur Jónsson bassaleikari hafi aftur komið inn í sveitina 1961, það sumar fór sveitin aftur norður til Siglufjarðar og þá var hún skipuð þeim tveimur, Guðmundi hljómsveitarstjóra, Þráni, Þóri og Erlendi Svavarssyni trommuleikara sem einnig söng en Engilbert og Einar voru einnig áfram söngvarar. Einar þurfti reyndar að fara suður á miðju sumri og þá kom Þorsteinn Eggertsson inn í hljómsveitina í hans stað og söng með henni um tíma. Um haustið þegar sveitin kom aftur suður bættist við regluleg spilamennska á Keflavíkurflugvelli hjá bandaríska hernum til viðbótar við hefðbundna ballspilamennsku á suðvesturhorninu, um það leyti hafði Reynir Guðmannsson píanóleikari tekið sæti Þóris.

Hljómsveit Guðmundar á Siglufirði
Guðmundur og félagar léku fjögur kvöld í viku á Vellinum veturinn 1961-62 og því fór lítið fyrir sveitinni á hinum almenna markaði en um sumarið 1962 var hún meira áberandi á ballmarkaðnum og þá um sumarið söng yngri systir Þóris, María Baldursdóttir með sveitinni en hún var þá einungis 15 ára gömul. Þetta sumar fór sveitin í þriðja sinn norður á Siglufirði og um það leyti kom inn nýr gítarleikari í sveitina ættaður frá Hólmavík en hann hét Gunnar Þórðarson og var 17 ára gamall, þá voru gítarleikarar sveitarinnar oðrnir tveir (Gunnar og Guðmundur) í anda þeirrar tónlistar sem þá var að ryðja sér til rúms en aðrir meðlimir voru þá Eggert trommuleikari, Erlingur bassaleikari og svo Einar söngvari en Engilbert var þá hættur. Líklega hafði þá áður annar gítarleikari verið í sveitinni um skamma hríð, Jóhann Guðmundsson en litlar upplýsingar er að finna um hann sem og um Gunnar Kvaran [píanó- eða orgelleikara?] sem einnig mun hafa starfað með sveitinni um tíma.
Guðmundur starfrækti hljómsveit sína um veturinn 1962-63 en lét svo staðar numið og hún hætti störfum um vorið 1963, reyndar mun Guðmundur hafa stofnað aðra sveit sem lék á Vellinum undir nafninu Bluebirds en það er önnur saga – og önnur sveit.
Þegar sögu sveitarinnar lauk má hins vegar segja að nýtt tímabil í íslenskri tónlistarsögu hafi verið í þann mund að hefjast því Hljómar urðu til upp úr hljómsveit Guðmundar, þeir Eggert trymbill, Gunnar gítarleikari og Einar söngvari stofnuðu þá sveit og fljótlega gekk Engilbert söngvari til liðs við hana einnig, og Pétur Östlund trommuleikari síðar. Þórir hljómborðsleikari átti eftir að gera garðinn frægan einnig, hann var um þetta leyti orðinn þekktur sem einn úr Savanna tríóinu, söngkonan María systir hans átti eftir að gefa út sólóplötur og syngja með hljómsveitinni Geimsteini, og eins varð Rúnar saxófónleikari þekktur á sínu sviði, þá varð Þorsteinn söngvari einn þekktasti textasmiður landsins. Hljómaliðarnir áttu einnig eftir að gera garðinn frægan með Trúbrot, Thor‘s hammer, Lónlí blú bojs, Sléttuúlfunum, Lummunum og fleiri sveitum svo það má með sanni segja að hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar hafi byggt eins konar grunn undir íslenska popptónlist næstu áratugina, sem gjarnan er kennd við Keflavík.














































