Hljómsveit Pálma Gunnarssonar [2] (1987-)

Söngvarinn og bassaleikarinn góðkunni Pálmi Gunnarsson hefur starfrækt nokkrar hljómsveitir í gegnum tíðina í eigin nafni, sú fyrsta var reyndar starfandi á fyrri hluta áttunda áratugarins og fær sér umfjöllun hér á síðunni en sú sveit hlaut síðar nafnið Mannakorn.

Af síðari hljómsveitum Pálma ber hér fyrst að nefna tríó sem hann var með haustið 1987 en sú sveit lék í Vestmannaeyjum, engar upplýsingar er að finna um aðra meðlimi þess. Pálmi starfrækti  svo hljómsveit árið 1990 sem starfaði á Hótel Íslandi í nokkra mánuði frá vori og fram á haust, þessi sveit gekk reyndar einnig undir nafninu Stórhljómsveit Pálma Gunnarssonar en meðlimir hennar voru Pálmi sem annaðist sönginn, Tryggvi J. Hübner gítarleikari, Jón Kjartan Ingólfsson bassaleikari, Sigurður Reynisson trommuleikari, Rúnar Georgsson saxófónleikari, Þórir Úlfarsson hljómborðsleikari og Atli Örvarsson hljómborðsleikari en sá síðast taldi var reyndar einnig titlaður hljómsveitarstjóri.

Næst var Pálmi með tríó árið 1994 með Sigfúsi Óttarssyni trommuleikara og Kristjáni Edelstein gítarleikara, sem virðist hafa leikið blústónlist og svo var hann með sveit í eigin nafni árið 1995 sem virðist hafa starfað í skamman tíma í tengslum við Ladda sýningu í Sjallanum á Akureyri, engar upplýsingar er að finna um meðlimi þessarar sveitar né heldur hljómsveit sem starfaði árið 2000 og lék þá m.a. á Jónsmessuhátíð í Vestmannaeyjum. Veturinn 2003-04 var Pálmi aftur með hljómsveit og með honum þá voru Kristján Edelstein gítarleikari, Agnar Már Magnússon hljómborðsleikari og Sigfús Óttarsson trommuleikari, þessi sveit var húshljómsveit á Kringlukránni. Eftir það leið töluvert langur tími þar til næsta hljómsveit Pálma starfaði en það var árið 2015, engar upplýsingar er að finna um þá sveit né heldur sveit sem hann starfrækti árið 2019 en hún lék á Flúðum um verslunarmannahelgina.

Óskað er eftir frekari upplýsingum um þær sveitir Pálma sem upp á vantar hér að framan.