Hljómsveit Róberts Nikulássonar (um 1970-2010)

Hljómsveit Róberts Nikulássonar

Harmonikku- og hljómborðsleikarinn Róbert Nikulásson á Vopnafirði starfrækti nokkrar hljómsveitir um ævina, líklega þá fyrstu nokkru fyrir 1970 og allt til 2010 – það var þó líklega fjarri því að vera samfleytt.

Ekki liggur fyrir hvenær fyrsta hljómsveit Róberts starfaði en ekki mun hafa verið tiltækt trommusett fyrir trommuleikara sveitarinnar svo það var einfaldlega smíðað frá grunni og hákarlsmagi notaður sem trommuskinn, sagan segir að það hafi þurft að hita það reglulega til að halda því strekktu. Engar upplýsingar er að finna um skipan sveitarinnar en Nikulás Róbertsson sonur Róberts mun hafa verið hljómborðsleikari hennar líklega einhvern tímann á fyrri hluta áttunda áratugarins.

Heimildir eru af skornum skammti um þessar hljómsveitir Róberts, hann starfrækti sveit árið 1983 og 1994 að minnsta kosti og vitað er að hann lék oft á skemmtunum á Vopnafirði en engar upplýsingar eru um meðlima- og hljóðfæraskipan þeirra sveita.

Á tíunda áratugnum voru Björn Björnsson gítarleikari, Árni Sverrir Róbertsson bassaleikari (annar sonur Róberts) og Sigurður Björnsson gítarleikari í sveitinni en sjálfur lék Róbert á hljómborð og harmonikku, og árið 2009 var hann enn með hljómsveit en þá voru aðrir meðlimir hennar Gunnar Guðmundsson bassaleikari, Jóhann Már Róbertsson trommuleikari (þriðji sonurinn) og Árni Magnússon gítarleikari.

Óskað er eftir frekari upplýsingum um hljómsveitir Róberts Nikulássonar.