Úr einu í annað

Olga vocal ensemble – Olga vocal ensemble
Olga vocal ensemble OVE001 (2014)

3 stjörnur

Olga Vocal Ensemble - Olga vocal ensemble

Olga Vocal Ensemble – Olga Vocal Ensemble

Íslensk/hollensk/rússneski söngkvintettinn Olga vocal ensemble hefur verið starfandi frá 2012 í Utrecht í Hollandi en þar hafa þeir félagar verið í söngnámi undanfarið undir handleiðslu Jóns Þorsteinssonar. Íslendingarnir voru upphaflega þrír fimmtu Olgu vocal ensemble en fækkað hefur um einn þeirra og er hópurinn á nýútkominni plötu samnefndri hópnum skipaður þeim Bjarna Guðmundssyni fyrsta tenór, Jonathan Ploeg öðrum tenór, Gulian van Nierop fyrsta bassa, Pétri Oddbergi Heimissyni fyrsta bassa og Philip Barkhudarov öðrum bassa. Olga vocal ensemble hefur sungið víðs vegar um Evrópu síðustu mánuðina, þ.á m. á Íslandi á liðnu sumri.

Lög plötunnar koma úr ýmsum áttum eins og gera má ráð fyrir þegar söngvarar frá þremur þjóðlöndum koma saman, það er að mörgu leyti fullkomlega eðlilegt en um leið er það helsti ljóður hennar. Best hefði verið að mínu mati að rauði þráður plötunnar væru t.d. þjóðlög úr ýmsum áttum, sálmar eða eitthvað allt annað en ekki að hér væri allsherjar fjölþjóðlegur kokkteill sálma, drykkjusöngva, þjóðlaga og dægurlaga settur í blandara. Útkomin verður því óhjákvæmilega grautur ólíkra strauma og stefna eins og fólk getur rétt ímyndað sér, það er t.d. langur vegur frá Heyr himnasmiður, sálmi frá öndverðri 13. öld við lag Þorkels Sigurbjörnssonar til hins rússneska Kalinku Larionovs frá 19. öld. Það hefur sjálfsagt átt að sýna þann fjölbreytilega stíl sem þeir félagar hafa á valdi sínu en því miður skemmir það nokkuð fyrir, þrátt fyrir að plötunni sé tvískipt.

Eðli málsins samkvæmt er slíkur fjölradda söngur tekinn upp læv, þ.e. allar raddir í einu, og yfirleitt er söngurinn hreinn og tilfinningaríkur og sérstaklega í rólegri lögunum en maður hefur á tilfinningunni að sum laganna hefði mátt taka upp einu sinni eða tvisvar í viðbót svo hægt væri að velja úr fleiri upptökum. Með öðrum orðum þá er söngurinn bara ekki nógu hreinn á köflum, sérstaklega í léttari lögunum. Margt er þó virkilega vel gert eins og áðurnefnt Heyr himnasmiður, og Shenandoah, amerískt 19. aldar þjóðlag.

Heilt yfir er platan ágætlega heppnuð að mörgu leyti en hefðu þeir félagar valið að einbeita sér að einum stíl á þessari plötu og vandað betur til verka í sumum laganna væri hún enn betri. Það breytir því þó ekki að það er áreiðanlega góð skemmtun að heyra Olga Vocal Ensemble syngja á söngskemmtunum. Umslag plötunnar er látlaust og hæfir efninu ágætlega. Þriggja stjörnu plata