Afmælisbörn 3. júlí 2016

Pálmar Þ. Eyjólfsson

Pálmar Þ. Eyjólfsson

Í dag eru tvö tónlistartengd afmælisbörn á skrá hjá Glatkistunni:

Lýður Ægisson tónlistarmaður er sextíu og átta ára gamall á þessum degi. Lýður, sem er bróðir Gylfa Ægissonar tónlistarmanns og faðir Þorsteins Lýðssonar sem einnig hefur gefið út efni, hefur sent frá sér nokkrar sólóplötur í gegnum tíðina, þá fyrstu 1985. Lýður starfaði á þeim tíma sem skipstjóri frá Vestmannaeyjum og samdi þjóðhátíðarlag Vestmannaeyinga það ár. Hann hefur fyrst og fremst samið lög og texta en kemur einnig við sögu sem söngvari á plötum sínum.

Stokkseyringurinn Pálmar Þórarinn Eyjólfsson (f. 1921) hefði einnig átt afmæli þennan dag en hann var organisti og kórstjóri víða um Árnessýslu. Pálmar, sem vann mest alla ævi verkamannastörf í frystihúsum hlaut ekki hefðbundna tónlistarmenntun en nam hjá frænda sínum á orgel, hann var því að mestu sjálfmenntaður. Pálmar var einnig tónskáld og 1993 kom út platan Sólnætur en hún hafði að geyma sönglög eftir hann. Hann lést 2010.