Afmælisbörn 13. janúar 2017

Óskar Páll Sveinsson

Óskar Páll Sveinsson

Fjögur afmælisbörn koma við sögu Glatkistunnar að þessu sinni:

Óskar Páll Sveinsson hljóð- og upptökumaður er fimmtugur í dag. Hann var á yngri árum söngvari og hljómborðsleikari hljómsveitarinnar Medium en sneri sér síðan að upptökufræðum, starfaði sem tæknimaður hjá Ríkisútvarpinu og við upptökur og hljóðblöndun á fjölmörgum plötum hér heima áður en hann fluttist til Bretlands og vann þar við upptökur um tíma áður en hann kom aftur til Íslands. Í seinni tíð hefur Óskar Páll í auknum mæli snúið sér að tónsmíðum og samdi hann t.a.m. Eurovision framlag okkar Íslendinga árið 2009, Is it true? sem Jóhanna Guðrún söng.

Björgvin Ingi Pétursson bassaleikari Jakobínurínu sem starfaði á árunum 2004-09 og sigraði Músíktilraunir 2005, er tuttugu og átta ára gamall í dag. Hann hefur ekki fengist við tónlist síðustu árin.

Tveir aðrir hefðu einnig átt afmæli á þessum degi. Sigvaldi (Stefánsson) Kaldalóns læknir og tónskáld (1881-1946) sem samdi mörg sönglög sem hafa orðið sígild s.s. Á Sprengisandi, Svanasöngur á heiði, Hamraborgin og mörg önnur, og Pétur Ingi Þorgilsson (1973-93) sem var efnilegur tónlistar- og myndlistamaður og hafði verið öflugur í tónlistarlífi Menntaskólans í Reykjavík, hann hafði komið við sögu á árshátíðarplötum skólafélagsins. Eftir andlát hans gaf hljómsveitin Neol Einsteiger út plötu til minningar um hann.