Afmælisbörn 22. janúar 2017

sigurdur-flosason1

Sigurður Flosason

Fjölmargt tónlistarfólk kemur við sögu í liðnum Afmælisbörn dagsins í dag:

Erla Þorsteins söngkona (stúlkan með lævirkjaröddina) er áttatíu og fjögurra ára, hana þarf vart að kynna enda átti hún hvern stórsmellinn á fætur öðrum á sjötta áratug síðustu aldar sem margir hverjir hafa lifað til dagsins í dag. Söngferill hennar (sem að mestu var bundinn við Danmörku) var til þess að gera mjög stuttur en hún hætti að syngja 26 ára gömul til að sinna fjölskyldu og heimilislífi. Meðal laga sem Erla söng eru t.d. Þrek og tár, Litli tónlistarmaðurinn, Kata rokkar og Vagg og velta sem varð svo frægt að verða bannað í Ríkisútvarpinu á sínum tíma.

Helga Sigþórsdóttir viðskiptafræðingur og söngkona er sjötíu og fjögurra ára gömul en hún söng með fjölmörgum hljómsveitum á árum áður á öldurhúsum borgarinnar og víðar. Helga söng t.a.m. með H.B. kvintettnum, Haukum, GÓP & Helgu, Astro og Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar djasspíanista, en hún var gift honum á sínum tíma.

Sigurður (Hjörtur) Flosason saxófónleikarinn góðkunni er fimmtíu og þriggja ára gamall á þessum degi en hann hefur eins og kunnugt er gefið út fjöldann allan af plötum og starfað með hinu og þessu tónlistarfólki, leikið á plötum þeirra og starfað með óteljandi djasshljómsveitum og öðrum sveitum.

Margrét Kristín Blöndal (Magga Stína) tónlistarkona er fjörutíu og níu ára en hún hefur afrekað ýmislegt á sinni tónlistarævi s.s. sungið með hljómsveitum eins og Sýrupolkasveitinni Hringjum, Risaeðlunni (Reptile), Bikarmeisturunum, Jazzhljómsveit Konráðs Bé og Dvergunum sjö. Hún hefur einnig gefið út sólóplötur.