Afmælisbörn 18. júlí 2023

Nora Kornblueh

Afmælisbörn dagsins í íslensku tónlistarlífi eru átta talsins á skrá Glatkistunnar:

Fyrstan skal nefna bassaleikarann Harald Þorsteinsson en hann sjötíu og eins árs gamall á þessum degi. Haraldur hefur leikið með ógrynni þekktra hljómsveita í gegnum tíðina og meðal þeirra eru hér nefndar Eik, Sálin hans Jóns míns, Póker, Vinir Dóra, Brimkló, PS&CO, Pops og Bítlavinafélagið. Þá hefur Haraldur leikið inn á fjölda platna með sveitum sínum sem og öðru tónlistarfólki

Eggert Þorleifsson leikari og tónlistarmaður er einnig sjötíu og eins árs í dag. Þótt Eggert sé fyrst og fremst þekktur sem leikari hefur hann starfað við tónlist einnig, hann hefur t.d. sungið og leikið á ýmis hljóðfæri eins og flautur, klarinettur, píanó, slagverk og orgel með hljómsveitum eins og Þokkabót, Hrekkjusvínum, Nasasjón og fjölda annarra, auk þess auðvitað að koma við sögu á fjölda platna tengdum leikhúsinu.

Guðbergur Auðunsson söngvari er áttatíu og eins árs gamall í dag. Hann söng (og lék á gítar) með ýmsum hljómsveitum hér áður fyrr s.s. Fimm í fullu fjöri, Stereo kvintett, City sextett og fleiri sveitum en söng hans má einnig heyra á nokkrum plötum – þekktast laga hans er líklega Lilla Jóns.

Reynir Guðmundsson söngvari er sjötíu og eins árs á þessum degi. Reynir söng hér fyrrum með ýmsum hljómsveitum, mest fyrir vestan en hér má nefna sveitir eins oog Ýr, Skippers, Blackbird, Óráð, Náð, BG og Ingibjörg, Saga Klass og Danshljómsveit Vestfjarða svo nokkrar séu nefndar.

Tónlistarmaðurinn Þorri eða Þormóður (Garðar) Símonarson frá Görðum í Staðarsveit á Snæfellsnesi er fjörutíu og fimm ára á þessum degi. Hann gerði hér garðinn frægan áður með sveitum eins og Sveitasveitinni Hundslappadrífu og Stormi í aðsigi en hann hefur einnig sent frá sér sólóplötu.

Eggert Þorleifsson

Fritz (von) Weisshappel píanóleikari átti einnig þennan afmælisdag. Hann var Austurríkismaður, fæddur 1908, og kom hingað til lands 1928. Fritz starfaði lengstum sem undirleikari bæði hjá einsöngvurum og kórum, t.a.m. starfaði hann sem undirleikari Karlakórs Reykjavíkur í áratugi og lék inn á fjölda platna hjá kórnum, sem og plötum fjölmargra annarra listamanna. Hann  var einnig virkur í félagsmálum tónlistarmanna, var í stjórn FÍH um tíma og starfaði einnig sem framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Fritz lést 1964.

Guðmundur Guðmundarson (1920-2009) var ekki beinlínis tónlistarmaður en hann samdi fjölda ljóða og texta sem tónlistarmenn færðu í lög sín. Guðmundur samdi m.a. gamanvísur fyrir revíuna Bláu stjörnuna en nokkrar þeirra komu út á plötu með Brynjólfi Jóhannessyni leikara. Einnig samdi hann texta við lög sem barnabarn hans, Katla María söng á plötu 1979 og urðu feikivinsæl. Hann var einnig einn eigenda Hljóðfæraverslunar Sigríðar Helgadóttur um tíma.

Nora (Sue) Kornblueh sellóleikari (f. 1951) hafði þennan afmælisdag einnig, hún var bandarísk en flutti til Íslands 1980 með eiginmanni sínum, Óskari Ingólfssyni klarinettuleikara. Hér starfaði hún við sellókennslu og lék einnig víða, t.d. með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Kaldalónstríóinu á tónleikum, og á plötur. Nora lést 2008 aðeins 57 ára gömul.

Vissir þú að hljómsveitin Bleiku bastarnir hét upphaflega Bleiku bastarðarnir?