Guðbergur Auðunsson (1942-)

Guðbergur Auðunsson2

Guðbergur Auðunsson

Guðbergur Auðunsson var einn af fyrstu rokksöngvurum íslenskrar dægurlagasögu, hann var þó ekki lengi í rokkinu, varð einn fremsti auglýsingateiknari landsins og sneri sér enn síðar að myndlist og öðrum listum svo listaferill hans spannar fjölbreytileika.

Guðbergur fæddist í Hveragerði 1942 en var uppalinn í Reykjavík, hann fór í héraðsskólann á Núpi í Dýrafirði og þar steig hann sín fyrstu rokkspor, söng þar með ónefndri hljómsveit veturinn 1957-58 eða um það leyti sem rokkið barst til Íslands.

Þegar hann kom suður til Reykjavíkur um vorið 1958 tók hann þátt í söngvakeppni sem KK-sextett lék undir í en slíkar keppnir voru algengar á þeim tímum og stigu margir rokksöngvarar sín fyrst spor í þeim. Að henni lokinni var honum boðið að syngja með KK-sextettnum. Úr því varð þó ekki alveg strax, hann hóf að syngja með Stereo kvintett um sumarið og síðan um haustið með hljómsveitinni Fimm í fullu fjöri, sem oft hefur verið kölluð fyrsta íslenska rokksveitin, og um leið fyrsta unglingahljómsveitin. Guðbergur spilaði aukinheldur á gítar með sveitinni.

Næsta vor, 1959 byrjaði hann að syngja með KK-sextettnum og söng með sveitinni þar til hann fór um haustið til Danmerkur í nám í auglýsingateiknun. Um sumarið var tekin upp fjögurra laga plata þar sem þeir félagar, Guðbergur og Ragnar Bjarnason sungu við undirleik sextettsins, Guðbergur söng þar lagið Lilla Jóns en Ragnar hin lögin þrjú. Platan kom út um haustið og sló Guðbergur þarna strax í gegn með Lillu Jóns en sjálfur var hann í Danmörku og fylgdi því vinsældum lítt eftir. Þess má geta að Mannakorn tóku lagið upp á sína arma ríflega fimmtán árum síðar og gerðu aftur vinsælt, en önnur sveit, Bliss, gaf lagið síðan enn út 1994 á safnplötu. Sú útgáfa er fáum kunn.

Guðbergur kom yfirleitt heim um jól og sumur á meðan hann var í námi í Danmörku 1959-63, og söng hann m.a. með City sextett þegar hann var heima. Einnig söng hann inn á fleiri plötur, t.d. kom hann við í Osló vorið 1960 á leið heim til Íslands og söng inn á tveggja laga plötu við undirleik hljómsveitar Kjell Karlson, en Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur gaf hana út um sumarið. Þetta voru lögin Adam og Eva og Út á sjó, sem bæði urðu vinsæl og hafa orðið sígild, t.d. tóku Lummurnar síðarnefnda lagið upp á plötu 1977 og KK og Magnús Eiríksson einnig 2001.

Þetta sama sumar, 1960 söng hann inn á aðra tveggja laga plötu hér heima, einnig við undirleik Kjell Karlsen og félaga en það voru lögin Júlínótt á Þingvöllum og Í síldinni á Siglufirði, bæði eftir Svavar Benediktsson. Þau lög náðu ekki eins miklum vinsældum og hin fyrri.

Guðbergur Auðunsson1

Guðbergur á sviði

Sem fyrr segir fylgdi Guðbergur vinsældum sínum lítt eftir nema í leyfum sínum hérlendis, hann hvarf því af sjónarsviðinu, kom heim eftir nám og starfaði hér og í Bandaríkjunum um tíma einnig, en 1973 gaf hann út barnaplötu undir nafninu Trölli syngur en á henni var að finna tvö frumsamin lög við texta Jónasar Friðriks og Sigurðar Hreiðar. Trölli var íslenskum börnum reyndar ekki alveg ókunnur því hann hafði verið áberandi í auglýsingum Útvegsbankans nokkru fyrr sem sparibaukur og aðallag plötunnar, Tröllasöngur (Í kolli mínum geymi ég gullið…), var þekkt úr sjónvarpsauglýsingum frá bankanum. Ekki voru því allir á eitt sáttir um þessa ókeypis auglýsingu sem Útvegsbankinn hlaut í kjölfarið en bankinn kom hvergi að útgáfu lagsins heldur auglýsingastofan Tígris, sem var í eigu Guðbergs. Í lesendabréfi sem birtist í einu dagblaðanna var bréfritari þó á því að boðskapur textans væri góður. Pétur Steingrímsson tók lögin upp í skemmtistaðnum Klúbbnum.

Þótt Guðbergur væri nú hættur að syngja inn á plötur kom hann í starfi sínu sem auglýsingateiknari og hönnuður að hönnun plötuumslaga og má nefna plötu Pelican, Uppteknir, í því samhengi. Ekki var afskiptum Guðbergs þó af tónlist alveg lokið því hann kom eitthvað fram einn með gítar (og með öðrum) á þessum árum, söng t.d. blús og kom fram sem þjóðlagasöngvari. Síðar þegar Ólafur Laufdal og fleiri skemmtanatengdir aðilar rifjuðu upp gullaldarár rokksins á Broadway, Hótel Íslandi og öðrum stöðum var Guðbergur einn þeirra sem þá voru dregnir aftur fram í dagsljósið, og við miklar vinsældir.

Um miðjan áttunda áratuginn byrjaði Guðbergur að mála, hann fór í kjölfarið í Myndlista- og handíðaskólann og eftir það helgaði hann sér aðallega þeirri listgrein, hann hefur haldið fjölmargar sýningar á verkum sínum hér heima og erlendis og hefur reyndar búið í Bandaríkjunum frá 2002. Hann sendi ennfremur frá sér barnabók 2002 þannig að fjölbreytileiki er það sem segja má að einkenni listamanninn Guðberg Auðunsson.

Lög þau sem Guðbergur gerði vinsæl í kringum 1960 hafa komið út á fjölmörgum safnplötum í gegnum tíðina, má þar nefna Þrjátíu vinsælustu söngvararnir 1950-75 (1978), Aftur til fortíðar 60-70 III (1990), Strákarnir okkar: 25 dægurlög frá fyrstu 25 árum lýðveldisins (1994), Rokklokkar: 40 bestu lög rokktímans með íslenskum og erlendum flytjendum (1995), Óskastundin 3 (2004), Svona var það serían (2005) og Manstu gamla daga?: 40 vinsæl lög frá 1952-1959 (2007).

Efni á plötum