H.G. sextett [1] (1949-52)

H.G. sextettinn í Café Stjörnunn

H.G. sextettinn úr Vestmannaeyjum var ein af fyrstu hljómsveitunum sem þar starfaði og þótti reyndar með bestu hljómsveitum landsins þegar hún var og hét.

Haraldur Guðmundsson trompet- og banjóleikari var maðurinn á bak við H.G. sextettinn en hann fluttist til Vestmannaeyja haustið 1949 og stofnaði sveitina þar litlu síðar, sveitin hafði mikil áhrif á tónlistarlífið í Eyjum og djasstónlistin blómstraði þar vegna hennar. Með Haraldi í sveitinni voru upphaflega þeir Gísli H. Bryngeirsson saxófón- og klarinettuleikari, Guðni Hermansen saxófónleikari, Alfreð W. Þórðarson píanóleikari, Haraldur Baldursson gítarleikari og Sigurður Þórarinsson trommuleikari. Mannabreytingar voru nokkuð tíðar í H.G. sextettnum og fljótlega tók Sigurður Guðmundsson við nafna sínum Þórarinssyni á trommum, þá tók Jón Helgi Steimgrímsson einnig við af Alfreð píanóleikara.

H.G. sextettinn varð snemma þekktur fyrir djasstónlist sína en sveitin lék einnig annars konar tónlist s.s. danstónlist þess tíma sem og gömlu dansana, og gekk sveitin reyndar stundum undir nafninu Danshljómsveit Haraldar Guðmundssonar þegar hún lék slíka tónlist. Hróður sveitarinnar jókst og sumarið 1950 fór hún ásamt Lúðrasveit Vestmannaeyja upp á meginlandið í tónleikaferðalag, fyrst fóru sveitirnar tvær austur á firði og léku á Norðfirði en síðan skildu leiðir og H.G. sextettinn fór norður á land og lék á Akureyri og Húsavík en túrinn tók um hálfan mánuð, um haustið hafði  Gísli Brynjólfsson tekið við gítarleiknum af Haraldi Baldurssyni og um svipað leyti fór sveitin í sína aðra ferð upp á land og lék þá í útvarpssal og á djasstónleikum í Austurbæjarbíói en þetta var í fyrsta sinn sem djasshljómsveit utan Reykjavíkur lék í bænum.

Vestmannaeyingar urðu fyrir miklu áfalli þegar áætlunarvélin Glitfaxi fórst í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli í janúar 1951 og með henni tuttugu manns, þar af um helmingur Vestmannaeyingar en Jón Helgi píanóleikari var einn þeirra sem fórust. Árni Elfar tók sæti hans og skömmu síðar bættist sjöundi liðsmaðurinn við sveitina en það var Axel Kristjánsson sem eins og Árni kom úr Reykjavík enda þótti orðið eftirsóknarvert að leika með hljómsveitinni sem nú gekk undir nafninu Hljómsveit Haraldar Guðmundssonar enda var hún ekki sextett lengur.

H.G. sextettinn á Norðfirði á ferð um landið

Um það leyti hafði hljómsveitin tekið Alþýðuhúsið í Vestmannaeyjum á leigu og fór í nokkrar breytingar á húsinu áður en það var aftur opnað undir nafninu Café Stjarnan, og þar var djasstónlist mikið leikin um sumarið 1951. Stundum kom djasssöngkvartett fram með sveitinni en hann skipuðu þau Jakobína Hjálmarsdóttir, Hallgrímur Þórðarson, Ásdís Sveinsdóttir og Erling Ágústsson, sá síðast taldi tók jafnframt stundum lagið einn með sveitinni en hann varð síðar þekktur fyrir að syngja lögin Við gefumst aldrei upp, Maja Maja, Oft er fjör í Eyjum og Þú ert ungur enn. Jón Þorgilsson söngvari bættist í hópinn og þá var sveitin orðin býsna sterk bæði sem dans- og djasshljómsveit, svo góð reyndar að í umfjöllun Jazzblaðsins var hún nefnd sem ein stærsta og besta hljómsveit landsins.

Sumarið 1952 fór hljómsveit Haraldar enn upp á meginlandið og fór nú í eins og hálfs mánaðar túr um landið og lék þá þrjátíu og tvö kvöld í röð, fyrst um Suðurland og Reykjavík og síðan lék sveitin í flestum bæjum á norðan- og austanverðu landinu og lék m.a.s. einnig á héraðsmóti í Bolungarvík. Þá lék sveitin einnig á djasstónleikum í Reykjavík og á dansleikjum í Breiðfirðingabúð í nokkur skipti. Guðni Hermansen fór ekki í þennan fræga túr en í hans stað kom Höskuldur Stefánsson harmonikkuleikari.

Þessi stóri tónleikatúr um landið varð svanasöngur hljómsveitarinnar því hún var leyst upp í kjölfar túrsins en hljómsveitarstjórinn Haraldur Guðmundsson átti fáeinum árum síðar eftir að flytja austur á Neskaupstað og stofna þar aðra hljómsveit sem einnig gekk undir nafninu H.G. sextett.