Afmælisbörn 3. febrúar 2024

Inga Jónasar

Afmælisbörn dagsins eru þrjú að þessu sinni:

Flautuleikarinn Guðrún S. Birgisdóttir er sextíu og átta ára gömul í dag. Guðrún nam flautuleik hjá Manuelu Wiesler hér heima áður en hún fór í framhaldsnám í Noregi og Frakklandi þar sem hún lauk einleikaraprófi, en hún starfaði í París í fáein ár áður en hún kom heim til Íslands 1982. Hér á landi hefur hún leikið á ótal tónleikum og starfað með ýmsum hópum s.s. Kammersveit Reykjavíkur, Kammermúsíkklúbbnum, Tríói Reykjavíkur, Sinfóníuhljómsveit Íslands o.fl. auk þess að hafa gefið út fjölda platna í samstarfi við Peter Maté, Pétur Jónasson, Hörð Áskelsson, Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur og Martial Nardeau, sá síðast taldi er eiginmaður Guðrúnar.

Sigríður (Guðmundsdóttir) Schiöth söngkona og organisti (1914-2008) hefði átt afmæli á þessum degi. Hún var mikill drifkraftur í söngmálum Eyfirðinga og reyndar Húsvíkinga einnig, hún stýrði fjölmörgum kórum og var organisti víða um norðlenskar sveitir, söng sjálf með kórum og hélt jafnvel einsöngstónleika, samdi bæði sönglög og ljóð, og vann að ýmsum félagsstörfum tengdum sönglistinni. Það þarf ekki að koma á óvart að Sigríður hlaut fálkaorðuna 1991 fyrir störf sín að söngmálum.

Inga Jónasar (Ingibjörg Jónasdóttir) frá Suðureyri við Súgandafjörð átti einnig afmæli þennan dag en hún lést árið 2012. Inga sem fæddist 1926 var allt í öllu í tónlistarlífi Suðureyrar lengstum, var eins konar trúbador, kenndi tónlist og söng ennfremur með hljómsveitum eins og Fjórum félögum og Hljómsveit Hauks Sveinbjarnarsonar syðra. Hún gaf út snælduna Vinnukonugripin 1993 en hún hafði nokkru áður fengið hljóðverstíma í afmælisgjöf frá fjölskyldu sinni.

Vissir þú að Guðmundur Ingólfsson djasspíanisti starfrækti eitt sinn hljómsveit sem hét Steinaldarmennirnir?